Fréttir Greiningar

Mikill vöxtur í kortatölum

14.07.2015 11:39

Kortavelta íslenskra heimila tók verulegan kipp upp á við í júní sl. eftir lítilsháttar bakslag mánuðinn á undan. Er því útlit fyrir að vöxtur einkaneyslu á öðrum ársfjórðungi muni reynast nokkuð myndarlegur. Nýbirtar tölur Seðlabankans gefa vísbendingu um þetta, en samkvæmt þeim nam raunvöxtur kortaveltu einstaklinga á milli ára alls 8,0% í júní sl. (m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis), og kemur hann í kjölfarið á 1,7% raunvexti mánuðinn á undan.

Að vanda var vöxtur mikill í kortaveltu Íslendinga á erlendri grundu, en hann nam 15,3% að raunvirði milli ára í júní. Vöxtur í kortaveltu einstaklinga innanlands var einnig talsverður, eða sem nemur um 7,0% að raunvirði á milli ára, sem er töluvert hraðari vöxtur en verið hefur að jafnaði síðasta árið.

Útlit fyrir myndarlegan vöxt einkaneyslu 

Á 2. ársfjórðungi nam raunvöxtur kortaveltu einstaklinga 4,4% frá sama tíma ári áður, þar af 3,1% innanlands en 14,1% erlendis. Sé tekið mið af fyrstu sex mánuðum ársins nemur raunvöxtur kortaveltu einstaklinga 4,9% frá sama tímabili í fyrra, þar af 3,6% innanlands en 15,0% erlendis. Þessar tölur eru til marks um að neysla landsmanna komi til með að vaxa nokkuð myndarlega í ár, sem rímar vel við spá okkar um þróun einkaneyslu á árinu. Aðrar tölur á borð við innflutning neysluvara og þróun kaupmáttar launa það sem af er ári styðja einnig þá skoðun. Þannig reiknuðum við með í þjóðhagsspá okkar í maí sl. að talsvert myndi bæta í einkaneysluvöxt í ár, og vöxtur einkaneyslu muni nema 4,6% í ár samanborið við 3,7% vöxt í fyrra.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall