Fréttir Greiningar

Hagstofutölur um vinnumarkað áfram jákvæðar

23.10.2013 11:58

nullAtvinnuleysi mældist meira í september síðastliðnum en það gerði á sama tíma í fyrra samkvæmt niðurstöðu úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar sem var birt nú í morgun. Þannig var atvinnuleysi 5,2% í september sl. en á sama tíma í fyrra hafði það verið 4,9%, og er sömu sögu að segja þegar litið er á árstíðaleiðréttar tölur Hagstofunnar. Við teljum þessa þróun þó ekki vera merki um að eitthvað bakslag sé komið á þá jákvæðu þróun sem verið hefur á vinnumarkaði síðustu misserin, sem lýsir sér m.a. í að atvinnuþátttaka hefur aukist, starfandi fólki fer fjölgandi og atvinnuleysi fer minnkandi, enda er hið síðastnefnda hið eina sem þróast með neikvæðum hætti í mánuðum. Skýrist það væntanlega fremur af flökti í mánaðarlegum mælingum Hagstofunnar, en töluverður munur er stundum á mælingum einstakra mánaða i þessum tölum.

Áfram mikil fjölgun á starfandi

Samkvæmt ofangreindri könnun Hagstofunnar mældist atvinnuþátttaka 81,8% í september samanborið við 80,6% á sama tíma í fyrra. Á sama tímabili fór fjöldi starfandi úr 171.500 í 177.000, hlutfall starfandi úr 76,7% í 77,6% og venjulegum vinnustundum fjölgaði úr 38,0 stundum í 39,3. Að lokum má nefna að fjöldi þeirra sem er utan vinnumarkaðar var 41.500 í september sl. samanborið við 43.300 á sama tíma í fyrra. Sjá má að allt eru þetta merki um að staðan á vinnumarkaði hafi verið töluvert betri nú í september en á sama tíma fyrir ári síðan, og er það áframhald á þróun síðustu mánaða.

Ársverkum fjölgar um 3,5%

nullSé tekið mið af fyrstu níu mánuðum þessa árs hefur atvinnuleysi samkvæmt könnun Hagstofunnar að jafnaði mælst 5,7% samanborið við 6,5% á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma hefur fjöldi starfandi farið úr 169.600 í 174.500, og hlutfall starfandi úr 75,8% í 77,0%. Þessi mikla fjölgun starfandi hefur jafnframt leitt til þess að heildarvinnustundum, sem er mælikvarði á ársverk, hefur fjölgað töluvert á milli ára enda hefur vinnuvikan lítið breyst. Þannig hefur venjulegum vinnustundum fjölgað úr 39,6 stundum í 39,9 stundir á sama tíma. Hefur heildarvinnustundum í hagkerfinu fjölgað um 3,5% á milli ára sé tekið mið af fyrstu níu mánuðum ársins, og er ekki annað hægt að segja en að það sé myndarleg aukning milli ára.

Horfur á áframhaldandi bata á vinnumarkaði

Eins og fram kom í þjóðhagsspá okkar sem við birtum í síðustu viku reiknum við með að atvinnuástandið haldi áfram að batna á nullnæstu árum og atvinnuleysi verði komið niður í 4,0% á árinu 2015 samanborið við 4,6% í ár. Er slakinn þá horfinn úr efnahagslífinu og atvinnuleysi komið nálægt því sem ætla mætti að verði jafnvægisatvinnuleysi á þeim tíma, en jafnvægisatvinnuleysi hefur hækkað töluvert frá því sem það var fyrir hrun. Þess má geta hér í lokin að hér ræðir um tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi, sem eru aðrar en þær sem Hagstofan birtir. Almennt hafa innlendir aðilar sem spá opinberlega um þróun atvinnuleysi frekar notað þær tölur, en það ætti að koma í svipaðan stað niður enda er leitni þeirra beggja í sömu átt þrátt fyrir að þeim ber oft ekki saman í einstökum mánuðum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall