Fréttir Greiningar

Ferðamannaárið 2014 byrjar með látum

14.02.2014 10:21

nullEkki er ofmælt að segja að ferðmannaárið 2014 byrji með látum. Þannig var gríðarleg fjölgun á erlendum ferðamönnum hér á landi í síðastliðnum janúar frá fyrra ári og hafa þeir að sama skapi aldrei straujað kortin sín í eins miklum mæli í janúarmánuði og nú. Þessi mikli vöxtur leiddi jafnframt til þess að erlendum ferðamönnum tókst í fyrsta sinn að eyða umfram það sem Íslendingar eyddu erlendis í janúarmánuði, og þá þrátt fyrir netviðskipti Íslendinga telji orðið ansi drjúgt í kortanotkun þeirra á erlendri grundu að okkar mati. Þetta má sjá í tölum Seðlabanka Íslands um greiðslumiðlun í janúar síðastliðnum.

Gjaldeyrisflæði vegna kortaveltu jákvætt í fyrsta sinn

nullAlls nam kortavelta útlendinga hér á landi 5,7 mö.kr., í síðasta mánuði, sem er aukning upp á rúm 26% í krónum talið. Vart þarf að nefna að þeir hafi aldrei áður eytt eins miklu í janúarmánuði og nú. Vöxturinn í kortaveltu þeirra er þó heldur hægari en sá vöxtur sem var í ferðamannatölum þeirra á sama tímabili, en samkvæmt tölum sem Ferðamálastofa Íslands birti í síðustu viku fjölgaði brottförum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll um 40% á milli ára í janúar. Sé hins vegar litið til þess hversu miklu erlendir ferðamenn voru að eyða í erlendri mynt, sem þeir taka væntanlega mið af þegar þeir huga að ferðakostnaði sínum, var aukningin svipuð á milli ára, eða um 38% sé leiðrétt fyrir breytingu á gengisvísitölu krónunnar. Þannig var gengi krónunnar rúmlega 11% sterkara í janúar sl. en það var sama tíma í fyrra, sem dregur eðlilega úr kaupmætti erlendra ferðamanna hér á landi.

Kortavelta Íslendinga í útlöndum nam alls 5,5 mö.kr. í janúar sl., og var kortaveltujöfnuður, þ.e. mismunur á kortaveltu útlendinga hér á landi og veltu Íslendinga erlendis, þar með jákvæður um 233 m.kr. Er þetta í fyrsta sinn svo langt aftur sem tölur Seðlabankans ná sem sem um jákvæðan kortaveltujöfnuð er að ræða. Á sama tíma í fyrra var kortaveltujöfnuður neikvæður um 326 m.kr. og árið þar á undan neikvæður um 1,5 ma.kr. Er því ljóst að ekkert lát er á hröðum vexti í gjaldeyrisflæði vegna ferðamanna hingað til lands yfir vetrartímann, og teljum við að þar liggi einhver hluti skýringarinnar á styrkingu krónunnar það sem af er vetri.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall