Fréttir Greiningar

Kröfulækkun á skuldabréfamarkaði eftir fjárlagafrumvarp

02.10.2013 12:20

nullÞó nokkur lækkun hefur orðið á ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði nú morgunsárið, þá bæði á óverðtryggða sem og verðtryggða hluta markaðarins. Þessi þróun á rætur sínar að rekja til fjárlagafrumvarps ríkisstjórnar sem lagt var fram eftir lokun markaða í gær og gaf til kynna að framboð af ríkisverðbréfum yrði tiltölulega hóflegt á næsta ári miðað við undanfarin ár, og þá nokkru minna en væntingar á markaði voru um. Mest hefur breytingin orðið á kröfu verðtryggða skuldabréfaflokks Lánasjóðs sveitarfélaga, LSS24, en hún hefur lækkað um 14 punkta og stendur nú þegar þetta er ritað (kl. 11:00) í 2,06%. Breyting á kröfu íbúðabréfa nemur 1-7 punktum, en þar hefur krafan lækkað mest á HFF24. Þá hefur krafan á óverðtryggðum ríkisbréfum lækkað um 4-7 punkta, þá mest á RIKB31. Velta á markaði hefur verið myndarleg það sem af er degi. Nemur velta með ríkisbréf 6,3 mö.kr. en velta með íbúðabréf 1,6 mö.kr.

Svigrúm Lánamála í útgáfu mikið

Þar að auki sendu Lánamál ríkisins frá sér tilkynningu í gær um að ákveðið hefði verið að fella niður fyrirhugað ríkisbréfaútboð sem átti að fara fram nk. föstudag. Þetta er í fyrsta sinn síðan í júní síðastliðnum sem Lánamál hætta við fyrirhugað útboð, en í fimmta sinn á árinu. Þessi tilkynning kom okkur ekki á óvart enda hafa Lánamál talsvert svigrúm um hvernig útgáfu ríkisbréfa verður háttað nú á síðasta ársfjórðungi. Eins og við fjölluðum um í Morgunkorni okkar í gær þá er áætluð heildarútgáfa ríkisbréfa 20 ma.kr. til áramóta, sem er talsvert undir þeirri útgáfu sem að jafnaði hefur verið á hverjum fjórðungi það sem af er ári. Alls eru fimm ríkisbréfaútboð fyrirhuguð til ársloka, og tvö gjaldeyrisútboð þar sem verðtryggð ríkisbréf verða í boði.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall