Fréttir Greiningar

Útlit fyrir minnstu ríkisbréfaútgáfu frá hruni á næsta ári

02.10.2013 12:24

nullÚtlit er fyrir að hrein útgáfa ríkisbréfa og -víxla verði lítil á næsta ári, og að heildarframboð í útboðum ríkisverðbréfa verði það minnsta frá hruni. Þessu veldur tiltölulega aðhaldssamt fjárlagafrumvarp, áætluð lækkun á lausafjárstöðu ríkissjóðs og lítill ríkisbréfagjalddagi á árinu 2014. Óhætt er að segja að væntingar á markaði voru um talsvert meiri útgáfu en útlit er fyrir nú. Þó þarf að setja þann fyrirvara að hluti skulda ríkissjóðs gæti verið markaðsvæddur og framboð á markaði því orðið meira en þessu nemur á næsta ári. Þá er enn sem fyrr útlit fyrir að framboð af nýjum íbúðabréfum verði mun minna en afborganir eldri bréfa.

Lítil hrein lánsfjárþörf á næsta ári

nullAfgangur af fjárlögum 2014 er 459 m.kr. skv. fjárlagafrumvarpi. Tekjur eru áætlaðar 587,6 ma.kr. en gjöld 587,1 ma.kr. Hreinn lánsfjárjöfnuður er áætlaður neikvæður um 17,7 ma.kr. á næsta ári. Honum verður mætt með 1 ma.kr. nettólántöku ríkissjóðs og með því að lækka innstæður í Seðlabankanum um 16,7 ma.kr. Afborganir af teknum lánum eru áætlaðar 89 ma.kr. en tekin ný lán áætluð 90 ma.kr.

Af afborgunum tekinna lána er 24,5 ma.kr. vegna gjalddaga ríkisbréfaflokksins RIKB14. Þá er einnig á gjalddaga skuldabréf upp á 200 m.USD sem stefnt er að því að endurfjármagna, væntanlega erlendis þar sem ekki er gert ráð fyrir að erlend lán ríkissjóðs utan forðalána lækki á næsta ári. Auk 90 ma.kr. lántökuheimildar til fjármögnunar ríkissjóðs er sótt um allt að 150 ma.kr. lántökuheimild til að endurfjármagna gjaldeyrisforðann. Verður hún nýtt ef þurfa þykir.

Nokkur óvissa um heildarframboð ríkisbréfa

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að áætlað er að staða ríkisbréfa, -víxla og spariskírteina hækki um 45,6 ma.kr. yfir næsta ár. Það er nokkuð á skjön við áætlun um litla nettólántöku á komandi ári, og kann að skýrast af markaðsvæðingu á hluta af skuldum ríkissjóðs. Þannig er gert ráð fyrir að RIKH18-flokkurinn, sem nýttur hefur verið til eiginfjárframlags í fjármálastofnanir, verði minnkaður um 25 ma.kr. á komandi ári og einnig á að greiða 5 ma.kr. inn á skuldabréf ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum.

Þetta veldur nokkurri óvissu um hvernig áform um lántöku munu endurspeglast í framboði ríkisverðbréfa í útboðum. Í minnsta lagi gæti útgáfa ríkisbréfa í útboðum þannig orðið u.þ.b. 25,5 ma.kr., þar af 24,5 ma.kr. til að vega á móti gjalddaga RIKB14-flokksins í mars nk. og 1 ma.kr. vegna nýrrar lántöku, en beint eða óbeint framboð inn á markaðinn gæti einnig orðið nokkru meira. Þó bendir allt til þess að heildarframboð ríkisbréfa inn á markaðinn á næsta ári verði það minnsta frá hruni, enda óvenju lítill ríkisbréfaflokkur á gjalddaga.

Nettóútgáfa íbúðabréfa áfram verulega neikvæð

Ekki er gert ráð fyrir eiginfjárframlagi til Íbúðalánasjóðs (ÍLS) á næsta ári. Rekstrarframlag til ÍLS mun hins vegar nema 4,9 mö.kr., þar af 4,5 ma.kr. vegna erfiðrar fjárhagsstöðu og 441 m.kr. vegna neikvæðs vaxtamunar á lánum til leiguíbúða. Í framhaldinu er gert ráð fyrir rekstrarframlagi upp á 4,5 ma.kr. ár hvert. Lántökur ÍLS eru áætlaðar 37 ma.kr. á árinu 2014. Afborganir af teknum lánum eru áætlaðar 49,1 ma.kr. og nettólántaka því neikvæð um 12,1 ma.kr. Þegar við bætast vaxtagreiðslur til eigenda íbúðabréfa er ljóst að útlit er fyrir að framboð íbúðabréfa verði til muna minna en greiðslur til eigendanna á næsta ári, líkt og verið hefur undanfarin ár.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall