Fréttir Greiningar

Gengi krónunnar styrkist fyrir mánaðarmót

29.11.2013 12:25

nullGengi krónunnar hefur styrkst um 1,2% í þessari viku gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynta. Er dollarinn kominn niður í 119,5 kr. eftir að hafa verið í 121,3 krónum í upphafi vikunnar. Nemur hækkunin gagnvart dollar 1,5%. Hefur dollarinn ekki verið ódýrari síðan um miðjan ágúst síðastliðinn. Krónan hefur styrkst öllu minna gagnvart evrunni enda hefur evran verið að sækja í sig veðrið gagnvart dollaranum síðustu daga. Evran er nú í 162,5 krónum en var í 164,3 krónum í upphafi vikunnar. Hækkunin gagnvart evru nemur 1,1% og hefur krónan ekki verið sterkari gagnvart evru síðan í seinni hluta septembermánaðar.

Hefðbundið

Hækkun krónunnar undanfarna daga má líklega rekja til hefðbundins gjaldeyrisinnflæðis um mánaðamót þar sem útflutningsfyrirtæki eru að skipta skipta gjaldeyristekjum fyrir krónur til að eiga fyrir innlendum kostnaði. Styrktist krónan þannig einnig fyrir síðustu mánaðamót.

Mun stöðugri króna en í fyrra

Gengi krónunnar hefur verið mun stöðugra undanfarna mánuði en á sama tímabili í fyrra. Frá miðjum ágúst fram til loka nóvember í fyrra fór dollarinn úr 119,5 kr. í 125,8 krónur og evran úr 147,7 kr. í 163,4 kr. Lækkun krónunnar á því tímabili gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynta nam 8,0%. Krónan er hins vegar nú á þennan mælikvarða óbreytt frá miðjum ágúst. 

Ástæður aukins stöðugleika

Ástæðu aukins stöðugleika krónunnar síðustu mánuði samanborið við sama tímabil í fyrra má væntanlega rekja að stórum hluta til þess að minna hefur verið undanfarið um afborganir erlendra skulda innlendra aðila en var í fyrra. Þá hefur verið minna um sjóðasöfnun slíkra aðila í erlendri mynt. Einnig hefur undirliggjandi viðskiptajöfnuður verið nokkuð hagfelldari í ár en í fyrra, m.a. vegna minni undirliggjandi þáttatekjuhalla þar sem dregið hefur úr vaxtagreiðslum af erlendum lánum á milli ára. Þá hafa auknar tekjur af ferðaþjónustu og aukið magn af útfluttum sjávarafurðum hjálpað til, eins og fjallað er um í Morgunkorninu í dag.  
 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall