Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 19. mars nk.

13.03.2014 08:12

nullVið spáum því að Seðlabankinn muni halda stýrivöxtum sínum óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi, sem verður 19. mars næstkomandi. Við reiknum hins vegar með að tónninn í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar muni breytast úr vaxtahækkunartón í að nefndin opni á hugsanlega vaxtalækkun á næstu mánuðum. Rökin fyrir nýjum tón munu að okkar mati verða lægri verðbólguvæntingar, hröð minnkun verðbólgu undanfarið ásamt sterkari krónu. Reiknum við áfram með að skiptar skoðanir verði innan nefndarinnar um tillögu bankastjóra um að halda vöxtum óbreyttum. Rifja má upp að við síðustu vaxtaákvörðun vildi einn nefndarmanna hækka stýrivexti um 0,25 prósentur. Við gerum ráð fyrir að nefndin muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út árið. Áhættan í þeirri spá er í þá veru að hugsanlega muni nefndin lækka vexti á tímabilinu.    

Seðlabankastjóri opnar á vaxtalækkun

Frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi peningastefnunefndarinnar 12. febrúar sl. hefur Seðlabankastjóri opnað á þann möguleika að stýrivextir bankans verði lækkaðir og það jafnvel fljótlega. Er þetta allt annar tónn en var í síðustu yfirlýsingu nefndarinnar vegna vaxtaákvörðunarinnar í febrúar, en þar var sagt að samkvæmt verðbólguspá bankans myndu nafnvextir hans að óbreyttu þurfi að hækka þegar nær dregur því að slaki snúist í spennu.

nullVerðbólgan hefur lækkað úr 3,1% niður í 2,1% frá vaxtaákvörðuninni í febrúar. Skiptir þar miklu styrking krónunnar undanfarið, sem að hluta má rekja til virkari inngripastefnu Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði og þeirrar stýrðu flotgengisstefnu sem tekin var upp í maí í fyrra. Bendir flest til þess að verðbólgan á fyrsta fjórðungi þessa árs verði undir verðbólguspá Seðlabankans en hún hljóðar upp á 2,7%. Spáum við 2,5% verðbólgu á fjórðungnum. Seðlabankinn reiknaði með í spá sinni að verðbólgumarkmiðinu yrði ekki náð fyrr en á síðasta fjórðungi ársins og því ljóst að það er að gerast fyrr en bankinn reiknaði með.

Seðlabankastjóri hefur sagt í viðtölum undanfarið að þó að það sé fagnaðarefni að hafa náð verðbólgumarkmiðinu nú og fyrr en reiknað var með, þá skiptir höfuðmáli að verðbólgan haldist þar til lengri tíma og að ná verðbólguvæntingum niður, en verðbólguvæntingar eru enn talsvert yfir verðbólgumarkmiði bankans. Telur bankastjórinn að ef verðbólguvæntingar komi niður skapist forsendur fyrir því að nafnvextir bankans gætu lækkað.

Rökin fyrir nýjum tón í þróun verðbólguvæntinga

Verðbólguvæntingar lækkuðu í kjölfar hjöðnunar verðbólgu í janúar og aukinna væntinga um hóflegar launahækkanir á árinu. Þannig lækkaði verðbólguálag á skuldabréfamarkaði að jafnaði um 0,4-0,6 prósentur til skemmri og lengri tíma frá desemberfundi peningastefnunefndar fram að fundi nefndarinnar í febrúar. Á alla þessa kvarða mældust verðbólguvæntingar á bilinu 3,3-3,7% rétt fyrir fund nefndarinnar í febrúar. Frá febrúarfundi nefndarinnar hefur verðbólguálag á skuldabréfamarkaði hins vegar lítið lækkað.

Samkvæmt ársfjórðungslegri könnun Seðlabankans á væntingum markaðsaðila, sem framkvæmd var í byrjun febrúar, vænta þeir að verðbólga verði um 3,5% eftir tvö ár. Það er lækkun um 0,5-0,7 prósentur frá sambærilegri könnun í nóvember. Verðbólguvæntingar þeirra til lengri tíma litið hafa hins vegar ekki breyst og gera þeir áfram ráð fyrir að verðbólga verði um 4% að meðaltali næstu tíu ár, sem er nulltalsvert yfir verðbólgumarkmiði Seðlabankans.

Peningastefnunefndin verður á næsta fundi sínum líklega komin með nýja könnun Capacent Gallup á verðbólguvæntingum fyrirtækja og heimila, en þessi könnun er framkvæmd ársfjórðungslega. Síðasta könnun sem gerð var á væntingum þessara aðila var gerð í nóvember sl., en þær sem nú verða birtar voru gerðar undir lok febrúar sl. Samkvæmt nóvemberkönnuninni mældust verðbólguvæntingar heimila 5% hvort heldur til eins eða tveggja ára og höfðu þá haldist óbreyttar um nokkurn tíma. Í sambærilegri könnun meðal fyrirtækja sem gerð var í nóvember kom fram að stjórnendur fyrirtækja væntu 3,9% verðbólgu eftir eitt ár samanborið við 4% í september. Í ljósi verðbólguþróunarinnar frá því að þessar kannanir voru gerðar og í ljósi þess hvernig verðbólguspár hafa breyst á sama tíma má reikna með að ný könnun sýni talsverða lækkun á verðbólguvæntingum. 

Meiri hagvöxtur og minni slaki

nullHagvöxtur mældist 3,3% á árinu 2013 skv. bráðabirgðatölum sem Hagstofa Íslands birti í  síðustu viku. Er þetta nokkuð umfram það sem Seðlabankinn reiknaði með í sinni nýjustu hagvaxtarspá, en hann reiknaði með 3,0% vexti á árinu. Í ljósi þess að hagvöxtur er nú talinn hafa verið nokkru meiri á síðasta ári en áður var spáð má einnig gera ráð fyrir að framleiðsluslakinn hafi minnkað meira en áður var áætlað. Í sinni nýjustu spá reiknaði Seðlabankinn með að slakinn á síðasta ári hafi verið tæplega 1%, en m.v. nýbirtar tölur er ljóst að hann er nær ½%. Rétt er að benda á að mat á framleiðsluslaka eða –spennu er alltaf háð mikilli óvissu og á það ekki síst við um matið nú þar sem hagkerfið er rétt við jafnvægið. Rifja má upp að peningastefnunefnd Seðlabankans hefur sagt í yfirlýsingum sínum undanfarið að eftir því sem slakinn hverfur úr hagkerfinu er rétt að slakinn hverfi einnig úr peningastjórnuninni, þ.e. að raunstýrivextir hækki. Nýjar hagvaxtartölur eru því vatn á myllu þeirra aðila innan nefndarinnar sem vilja óbreytta vexti eða vaxtahækkun.

Munu þeir breyta bindiskylduhlutfallinu og/eða –vöxtum?

Seðlabankastjóri nefndi á fundi hjá efnahags- og viðskiptanefnd 5. mars sl. að hugsanlega mætti nota bindiskylduna meira við peningastjórnunina. Hann sagði það vera til skoðunar að hækka bindiskylduna eitthvað og/eða lækka vextina á henni. Þá hugsanlega að lækka vexti á bindiskyldunni umtalsvert og jafnvel niður í núllið og þrýsta þannig vaxtamun bankanna upp og auka aðhald peningastefnunnar á þann hátt. Þá er hugsanlega hægt að lækka innistæðuvextina á móti, en þá á kostnað þess að það er verið að auka vaxtaganginn. Þetta er til skoðunar hjá Seðlabankanum og var rætt á síðasta fundi peningastefnunefndarinnar að sögn Más, og fékk nefndin þá fyrstu skýrslur um möguleikana í þessu. Þetta verður síðan aftur rætt á fundi nefndarinnar núna í mars. Okkar skoðun er sú að Seðlabankinn sé nokkuð sáttur við núverandi bindiskylduhlutfall og –vexti. Þrátt fyrir að þetta sé nú í sérstakri skoðun hjá nefndinni teljum við ólíklegt að þessu verði breytt nú eða á næstu mánuðum. 

Óheppilegt ferli fyrir trúverðugleika peningastjórnunarinnar

Eftir síðustu vaxtákvörðun peningastefnunefndar og í ljósi nýrrar þjóðhagsspár Seðlabankans þar sem sérstaklega er lagt mat á efnahagsleg áhrif aðgerða stjórnvalda til lækkunar húnæðisskulda heimilanna kom fram ádeila frá forsætisráðherra á forgangsröðun verkefna bankans og það að hann hefði „óumbeðið“ farið í ofangreint mat. Í þeirri umræðu opinberaðist einnig aftur afstaða forsætisráðherra til stýrivaxta bankans, sem hann telur of háa. Gagnrýni þessari hefur Seðlabankastjóri mótmælt ásamt fleirum.  Í miðri þessari orðræðu tilkynnti fjármála- og efnahagsráðuneytið að embætti Seðlabankastjóra verði auglýst til umsóknar, en Seðlabankastjóri er skipaður til fimm ára í senn og mun skipunartími hans renna út í ágúst næstkomandi. Án auglýsingar hefði skipan núverandi seðlabankastjóra framlengst af sjálfu sér um fimm ár í viðbót. Ástæða ákvörðunarinnar er að sögn sú að gefa stjórnvöldum aukið svigrúm í tengslum við mögulegar breytingar á lögum um Seðlabankann. Samliða tilkynningu um að staðan yrði auglýst var sagt frá því að fjármála- og efnahagsráðherra myndi setja á fót starfshóp til að leggja mat á æskilegar breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands. Hópurinn á að hafa það að markmiði að treysta trúverðugleika og sjálfstæði bankans og auka traust á íslenskum efnahagsmálum.

Segja má að þessi atburðarás hafi verið óheppileg fyrir trúverðugleika peningastefnunnar. Þá er það á vissan hátt óheppileg tímasetning að seðlabankastjóri komi í kjölfar þeirrar gagnrýni sem hefur verið á vaxtaákvarðanir bankans og verkefnaval og boði mögulega vaxtalækkun þvert á nýbirta yfirlýsingu peningastefnunefndar, þó svo að fyrir þeirri vaxtalækkunarumræðu séu fullgild efnahagsleg rök. Umræðan og ferlið allt setur peningastefnunefndina í vanda, þar sem vaxtalækkun nú eða á næstu mánuðum gæti litið út sem pólítísk eftirgjöf. 

Spáum hækkun stýrivaxta á næsta ári

Við spáum því að lækkun verðbólgunnar nú sé tímabundin, m.a. vegna þeirra tímabundnu áhrifa sem styrking krónunnar undanfarið hefur á verðbólguþróunina. Undirliggjandi þættir benda til nokkurs verðbólguþrýstings litið til lengri tíma, og reiknum við með því að þegar líða tekur á árið muni verðbólgan aukast á ný og fara nokkuð yfir verðbólgumarkmið bankans. Er verðbólguspá okkar nokkuð samhljóða verðbólguspá Seðlabankans hvað varðar verðbólguþróunina þetta og næsta ár.  

Reiknum við með því að peningastefnunefndin haldi stýrivöxtum óbreyttum út árið en að hún muni hækka stýrivexti sína í tvígang um samtals 0,5 prósentustig á næsta ári. Rökin fyrir þeim hækkunum verða aukin verðbólga og að slakinn sé að hverfa eða sé horfinn úr efnahagslífinu. Við reiknum síðan með að nefndin muni með svipuðum rökum bæta a.m.k. einni 0,25 prósentustiga hækkun við á árinu 2016. Verða stýrivextir bankans þá komnir upp í 6,75%. 

Óvissan í spánni

Óvissan í spánni er sú að peningastefnunefndin kunni að lækka stýrivexti sína nú eða á allra næstu mánuðum. Verði af lækkun má á móti búast við því að hækkunartakturinn verði hraðari þegar að honum kemur. Óvissuþáttur spárinnar er líkt og áður umtalsverður vegna hugsanlegra skrefa sem tekin verða í afnámi fjármagnshafta á spátímabilinu, en spáin gengur út frá því að ekki verði farið út í almennt afnám hafta á tímabilinu. Haftaafnám myndi að líkindum kalla á hærri stýrivexti, um hríð a.m.k. 

Spánna má nálgast hér.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall