Fréttir Greiningar

Krónan hefur veikst nokkuð frá septemberbyrjun

10.09.2013 11:56

nullGengi krónunnar hefur lækkað um 1,3% það sem af er september gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynnta. Hefur evran farið úr því að kosta 158,2 krónur í 160,3 krónur og dollarinn úr því að kosta 119,9 krónur í 121,5 krónur. Er þar með gengin til baka öll styrkingin sem varð á gengi krónunnar undir lok ágústmánaðar og hefur krónan ekki verið jafn veik síðan um miðjan júní sl.

Mun minni lækkun en um haustið í fyrra

Þrátt fyrir veikingu krónunnar síðustu daga hefur þróun krónunnar þetta haustið verð talsvert önnur en hún var síðastliðið haust. Í fyrra hóf krónan afar hraða veikingarhrinu um miðjan ágúst og var lækkun hennar gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynnta komin í 5,2% um miðjan september og 9,5% um miðjan október. Frá miðjum ágúst í ár er gengi krónunnar hins vegar í stórum dráttum óbreytt.

Reiknum við með því að hin mikla veiking krónunnar síðastliðið haust og vetur muni ekki endurtaka sig að sama skapi þetta árið.   Minna er um afborganir erlendra lána aðila sem ekki eru með gjaldeyristekjur og árstíðarsveiflan í gjaldeyristekjum ferðaþjónustunnar er minni. Einnig má búast við meiri gjaldeyristekjum af sjávarafurðum þegar líður á haustið vegna aukins kvóta. Þá hefur haft áhrif að Seðlabankinn lýsti því yfir í maí síðastliðnum að hann hygðist verða virkari á gjaldeyrismarkaði á næstunni með það að markmiði að draga úr gengissveiflum.  

Ný stefna Seðlabankans hefur áhrif

Hin nýja stefna Seðlabankans hefur að okkar mati þegar haft nokkur áhrif. Hefur stefnan haft áhrif á væntingar um gengisþróun krónunnar og síðan hafa bein inngrip bankans á tímabilinu frá því að ný stefna var sett haft sitt að segja, þó að þau inngrip hafi verið fremur lítil og fá. Seðlabankinn  keypti þannig 6 milljónir evra samanlagt í tveim inngripum á gjaldeyrismarkaði 29. og 30. ágúst sl. og kom svo aftur inn á gjaldeyrismarkaðinn og seldi þrjár milljónir evra 3. september síðastliðinn. Stóð Seðlabaninn  að baki um 20% af viðskiptunum á gjaldeyrismarkaði í ágústmánuði síðastliðnum en samtals greip bankinn fimm sinnum inn í gjaldeyrismarkaðinn í mánuðinum. Frá því að ný stefna bankans var sett um miðjan maí sl. hefur bankinn gripið 11 sinnum inn í gjaldeyrismarkaðinn.

Krónan samt á álíka stað og fyrir ári

Þrátt fyrir að gengislækkun krónunnar síðastliðið haust hafi ekki endurtekið sig þetta haustið er gengi krónunnar nú svipað og það var á sama tímabili í fyrra, en krónan styrktist ekki í sumar, ólíkt því sem var í fyrra. Er gengi krónunnar gagnvart vegnu meðaltali helstu viðskiptamynta einungis 0,6% lægra nú en það var á sama tíma í fyrra. Að teknu tilliti til þess að verðbólga og launahækkanir hafa verið meiri hér á landi en í helstu viðskiptalöndunum undanfarið ár er raungengi krónunnar þannig hærra nú en það var fyrir ári.

Að hluta til virðist ástæðan fyrir því að krónan styrktist ekki í sumar vera gjaldeyrissöfnun Landsbankans, en sú söfnun tók að því er virðist að hluta árstíðarsveifluna í gjaldeyrisstraumum vegna ferðaþjónustunnar sem ellegar hefði eflaust styrkt krónuna. Þá tóku gjaldeyriskaup vegna stórra gjalddaga í sumar og haust einnig sinn toll af gjaldeyrisflæðinu. Óskuldsett gjaldeyrisforðasöfnun sem margir voru að búast við og vonast eftir að hálfu Seðlabankans í sumar gerðist þannig í raun með gjaldeyrisöflun Landsbankans. Önnur ástæða kann að vera yfirlýst stefna Seðlabankans um að jafna sveiflur á gjaldeyrismarkaði. Þriðja ástæðan er síðan eflaust sú að árstíðarbundnar sveiflur í gjaldeyrisstraumum vegna ferðamanna eru minni í ár en í fyrra vegna mikils vaxtar í ferðamennsku utan hins hefðbundna ferðamannatíma. 

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall