Fréttir Greiningar

Verðbólguálag hefur hækkað á markaði

13.09.2013 11:15

nullMikið fjör var á skuldabréfamarkaði í gær og jókst verðbólguálag nokkuð á markaði. Velta markflokka nam samtals 16,6 mö.kr. og var bróðurpartur hennar í óverðtryggðum ríkisbréfum, eða 12,6 ma.kr., en velta með verðtryggð íbúða- og ríkisbréf nam tæpum 4,0 mö.kr. Krafa nær allra óverðtryggðra flokka hækkaði, langmest á RIKB14 en hún fór upp um 22 punkta innan dagsins. Annars nam hækkunin 3-9 punktum á öðrum óverðtryggðum flokkum, mest á RIKB25-flokknum. Að sama skapi lækkaði krafa flestra verðtryggðra bréfa, og var lækkunin á bilinu 1-6 punktar. Hreyfingin var raunar stærri innan dags, en gekk að einhverju leyti til baka þegar leið á daginn. Það sem af er morgni hefur sú þróun svo haldið áfram, og hefur krafa óverðtryggðra bréfa lækkað um 1-9 punkta en krafa sumra verðtryggðra bréfa hækkað lítillega.

Ýmsar skýringar á hærra álagi

Frá síðustu vaxtaákvörðun Seðlabankans þann 21. ágúst síðastliðinn hefur verðbólguálag á markaði aukist talsvert. Miðað við samanburð á vaxtaferlum íbúðabréfa og óverðtryggðra ríkisbréfa var verðbólguálag til 5 ára 4,0% og álag til 7 ára 4,2% við vaxtaákvörðunina. 5 ára álagið stendur nú í 4,24% en 7 ára álagið í 4,52%.

Við teljum að skýra megi þessa hreyfingu að hluta með hækkun á 12 mánaða takti vísitölu neysluverðs eftir ágústmælingu hennar, en talsverð fylgni virðist milli verðbólguálags á markaði og liðinnar 12 mánaða verðbólgu eins og sjá má á myndinni. Hins vegar virðast væntingar á markaði einnig hafa breyst undanfarna daga í átt til meiri verðbólgu framundan, og eru þar m.a. nefnd til sögunnar áhrif af áætlun stjórnvalda um niðurfærslu verðtryggðra skulda, sem liggja á fyrir í nóvember næstkomandi, og útkoma kjarasamninga undir lok árs. Þannig virðist viðtal við forsætisráðherra í Kastljósi á miðvikudagskvöld, þar sem m.a. var rætt um útfærslu skuldaniðurfærslu, hafa orðið kveikjan að kröfuhreyfingu gærmorgunsins á markaði og mikilli veltu.

Óvissan meiri á næsta ári

Þrátt fyrir að framangreindir þættir séu stórir óvissuþættir varðandi verðbólguþróunina til lengri tíma teljum við að  þeir muni ekki skipta sköpum um verðbólguþróun allra næstu mánuði. Kjarasamningar gætu til að mynda orðið eins konar biðleikur, þar sem vilji aðila vinnumarkaðar virðist standa til þess að gera skammtímasamninga og semja svo að nýju þegar líður á næsta ár og meiri vissa verður um aðgerðir stjórnvalda, fjárlög og fleira af því tagi. Þá er enn mikil óvissa um fyrirkomulag niðurfærslu á verðtryggðum skuldum, og hafa stjórnvöld lýst yfir vilja sínum til að takmarka verðbólguáhrif þeirrar aðgerðar eftir því sem kostur er, nú síðast í fyrrnefndu viðtali við forsætisráðherra. Líkt og fram kemur í verðbólguspá okkar hér að framan gerum við ráð fyrir að verðbólga verði í námunda við 4% næstu mánuði og misseri, en óvissan gæti þar orðið meiri þegar kemur fram á næsta ár, ekki síst vegna framangreindra atriða.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall