Fréttir Greiningar

Spáum 0,2% hækkun neysluverðs í september

12.09.2014 09:53

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,2% í september. Gangi spáin eftir mun 12 mánaða taktur verðbólgu hjaðna lítillega, eða úr 2,2% í 2,1%. 

Verðbólguhorfur eru sem fyrr ágætar út yfirstandandi ár, og hafa raunar batnað nokkuð. Við gerum ráð fyrir að verðbólgan muni verða undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans út árið. Í kjölfarið spáum við aukinni verðbólgu samhliða því að meiri þróttur færist í efnahagslífið, þótt verðbólga verði áfram í hóflegra lagi á íslenskan mælikvarða. Hagstofan birtir VNV fyrir september kl.09:00 þann 25. september næstkomandi.

Útsölulok og húsnæði til hækkunar..

Að vanda munu útsölulok vega talsvert til hækkunar VNV í september. Þó hækkaði verð á fatnaði nokkuð meira í ágúst en að jafnaði hefur gert í þeim mánuði, og teljum við því að áhrif útsöluloka verði heldur minni nú en verið hefur í septembermánuði síðustu ár. Gerum við ráð fyrir að útsölulok vegi samtals til u.þ.b. 0,25% hækkunar VNV og að þar af vegi fata- og skóliðurinn til tæplega 0,2% hækkunar.

Þá gerum við ráð fyrir að hækkun á húsnæðisliðnum hafi áhrif til 0,14% hækkunar VNV í september. Vísbendingar eru af markaði um að mánaðarhækkun á reiknaðri húsaleigu muni mælast svipuð í september og í ágústmánuði, þegar hún var 0,6%. Loks teljum við að árviss hausthækkun á tómstunda- og íþróttaiðkun sem og afþreyingu hafi áhrif til 0,07% hækkunar VNV.

..en ferðaliður til lækkunar 

Hins vegar lítur út fyrir að ferða- og flutningaliður VNV muni lækka talsvert í september (-0,26% áhrif í VNV), annan mánuðinn í röð. Þar vegur lækkun flugfargjalda þyngst (-0,25% í VNV), en könnun okkar bendir til að veruleg lækkun hafi orðið á flugfargjöldum til útlanda milli mánaða. Einnig gerum við ráð fyrir verðlækkun á eldsneyti, nýjum bifreiðum og reiðhjólum (samtals -0,04% í VNV).  Aðrir liðir hafa minni áhrif, og vega samanlagt til óverulegrar hækkunar VNV í spá okkar.

Verðbólga undir markmiði út árið 

Við teljum að VNV hækki samtals um 0,7% á síðasta fjórðungi ársins. Í október og nóvember gerum við ráð fyrir 0,2% hækkun VNV í hvorum mánuði, og í desember spáum við 0,3% hækkun VNV. Samkvæmt þeirri spá mun verðbólga mælast 1,9% í árslok. Ýmsir þættir skýra lítinn skammtíma verðbólguþrýsting. Má þar nefna að innflutt verðbólga er afar lítil, enda krónan stöðug og verð á ýmsum vörum á borð við matvæli og eldsneyti hefur fremur lækkað en hitt erlendis undanfarið. Þá er kostnaðarþrýstingur vegna launa enn tiltölulega hóflegur, og má segja að þar sé hófsemi í nafnlaunahækkunum í kjarasamningum í upphafi árs að skila sér í minni verðþrýstingi.

Á næsta ári spáum við að verðbólga aukist nokkuð frá yfirstandandi ári. Aukinn gangur í efnahagslífinu mun væntanlega endurspeglast í hraðari hækkun launa og áframhaldandi raunhækkun fasteignaverðs. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði að jafnaði 3,0% á árinu 2015 og 3,1% á árinu 2016. 

Helstu forsendur langtímaspár okkar eru að íbúðaverð hækki um 5% - 7% á hverju ári út spátímann, laun muni hækka hraðar á næstu misserum samhliða aukinni spennu á vinnumarkaði og að litlar breytingar verði á gengi krónu. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall