Fréttir Greiningar

Hagvísar: Kortavelta og atvinnuleysi

14.10.2013 11:54

Nokkrir mikilvægir hagvísar verða birtir í þessari viku. Mest eru þetta tölur fyrir septembermánuð, og má hér nefna tölur Seðlabanka Íslands um greiðslukortaveltu og tölur Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi. Þar að auki mun Þjóðskrá Íslands birta vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu. Einnig verður áhugavert að rýna í fundargerð peningastefnunefndar SÍ vegna vaxtaákvörðunar hennar þann 2. október sl., en hún verður birt kl. 16:00 á miðvikudag.

Óbreyttir vextir í takti við spár

nullÁ síðasta vaxtaákvörðunarfundi ákvað peningastefnunefnd SÍ að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum. Var ákvörðunin í takti við væntingar á markaði og opinberar spár, sem hljóðuðu allar upp á óbreytta vexti. Þó mátti greina harðari vaxtahækkunartón í yfirlýsingu peningastefnunefndar en verið hefur undanfarið, sem mátti tengja við komandi kjarasamninga. Sagði nefndin að verði launahækkanir í kjarasamningum í samræmi við nýjustu spá Seðlabankans sem hljóðar upp á að laun hækki um 5,5% á milli áranna 2013 og 2014, er líklegt að nafnvextir bankans muni að óbreyttu hækka í framhaldi. Þetta voru mun harðari skilboð til aðila vinnumarkaðarins en var í yfirlýsingu nefndarinnar í ágúst.

Við vaxtaákvörðunina í ágúst sl. studdu allir meðlimir peningastefnunefndar SÍ tillögu Seðlabankastjóra um óbreytta stýrivexti. Hvorki var rædd hækkun né lækkun vaxta á fundinum og enginn hefði kosið aðra niðurstöðu. Var vaxtahaukur nefndarinnar því áfram sammála öðrum nefndarmönnum um óbreytta vexti eftir að hafa síðast kosið gegn þeim í mars, en þá vildi hann 0,25 prósenta vaxtahækkun. Í ljósi þess að tóninn í nefndarmönnum var harðari en hann hefur verið að undanförnu kæmi ekki á óvart að vaxtahaukurinn hafi látið heyra í sér á ný, þó hann hafi greitt atkvæði með tillögu seðlabankastjóra.

Einkaneysluvöxtur á útivelli?

nullÍ dag kl. 16:00 mun Seðlabankinn birta tölur um kortaveltu í septembermánuði, en þær tölur gefa góða mynd af þróun einkaneyslu. Tölur frá ágústmánuði bentu til þess að lítill sem enginn vöxtur hafi verið í einkaneyslu í mánuðinum frá sama tíma í fyrra. Þannig dróst kortavelta Íslendinga innanlands saman um 0,8% að raungildi í ágúst frá sama mánuði í fyrra, en kortavelta þeirra erlendis jókst hins vegar um 7,9% á sama mælikvarða. Síðastnefndi vöxturinn vakti í raunar athygli í ljósi þess að brottförum Íslendinga af landinu í ágúst fækkaði um tæplega 1% á milli ára. Samanlagt nam raunvöxtur kortaveltu einungis 0,1% í mánuðinum frá fyrra ári.

Ofangreind þróun var í takti við það sem verið hefur, en lesa má úr tölum Seðlabankans að sá vöxtur sem mælst hefur í einkaneyslu á árinu sé að miklu leyti til kominn vegna aukinnar neyslu Íslendinga á erlendri grundu. Þannig hefur kortavelta Íslendinga á erlendri grundu vaxið um 4,9% að raunvirði það sem af er ári, en kortavelta innanlands aðeins um 0,1% á sama tíma. Þessi munur stingur enn meira í augu í ljósi þess að utanferðum Íslendinga hefur fækkað um 1% það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra.

Ekkert lát á tekjuvexti af erlendum ferðamönnum

nullKortaveltutölur Seðlabankans gefa einnig vísbendingu um þróun þjónustujafnaðar, sem er einn lykildrifkraftur vaxtar í íslensku efnahagslífi um þessar mundir. Í ágúst sl. nam heildarúttekt erlendra greiðslukorta hérlendis 14,7 mö.kr., sem var aukning upp á tæp 19% í krónum talið á milli ára. Á sama tíma nam kortavelta Íslendinga erlendis tæpum 7,4 mö.kr., og var kortaveltujöfnuður, þ.e. mismunur á kortaveltu útlendinga hér á landi og Íslendinga í útlöndum, þar með jákvæður um 7,4 m.kr. í í ágúst. Er hér að ræða um mesta afgang af kortaveltujöfnuði í ágústmánuði frá upphafi. Til samanburðar má nefna að í ágúst í fyrra var afgangurinn upp 5,9 ma.kr. af kortaveltujöfnuði, og árið þar á undan 4,8 ma.kr.

Skráð atvinnuleysi 3,9% -4,2% í september

nullUm hádegisbilið á morgun mun Vinnumálastofnun birta tölur um skráð atvinnuleysi ásamt öðrum upplýsingum um stöðuna á vinnumarkaði í september sl. Í ágúst sl. mældist skráð atvinnuleysi 4,0%, og hækkaði þar með um 0,1 prósentustig frá fyrri mánuði. Samkvæmt Vinnumálastofnun var sú hækkun vegna árstíðarsveiflu í vinnuafli.

Oftast verður lítil breyting á skráðu atvinnuleysi á milli ágúst og september. Á milli þessara mánaða í fyrra jókst það lítillega, eða úr 4,8% í 4,9%. Fyrir mánuði síðan reiknaði Vinnumálastofnun með því að þróunin á milli þessara mánaða í ár yrði með líkum hætti og hún var í fyrra, og að skráð atvinnuleysi í september yrði á bilinu 3,9%-4,2%.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði í ágúst

nullÞjóðskrá Íslands mun birta vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu fyrir september á fimmtudag. Í ágúst síðastliðnum lækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,1% frá fyrri mánuði. Var þetta í fyrsta sinn síðan í janúar sl. sem íbúðaverð lækkar, en þess má þó geta í ágúst í fyrra varð einnig lækkun á íbúðaverði. Að þessu sinni mátti rekja lækkunina til 0,2% lækkunar á verði íbúða í fjölbýli, en verð sérbýlis stóð í stað á sama tíma.

Þrátt fyrir lækkun íbúðaverðs í ágústmánuði hækkaði 12 mánaða taktur vísitölunnar frá fyrri mánuði, eða úr 6,7% í 6,8%, þar sem lækkunin í ágúst í fyrra var meiri. Þó var ekki sömu sögu að segja um þróun íbúðaverðs að raunvirði. Í ágúst síðastliðnum nam raunhækkunin yfir síðustu 12 mánuði 2,3%, en hafði verið í 2,7% í júlí. Síðastliðin tvö ár hefur dágóð hækkun orðið á vísitölunni í september, en í fyrra hækkaði hún um 0,7% frá fyrri mánuði og árið þar á undan 1,3%. Verður því forvitnilegt að sjá hvort að slík þróun hafi verið uppi á teningnum í september sl. 

Dags.

Efni

Heimild

14.okt.13

Greiðslumiðlun í september 2013

Seðlabanki Íslands

14.okt.13

Smásöluvísitalan í september 2013

Rannsóknarsetur Verslunarinnar

15.okt.13

Mannfjöldinn á 3. ársfjórðungi 2013

Hagstofa Íslands

15.okt.13

Fjármál ríkissjóðs á greiðslugrunni; stöðutölur í ágúst 2013

Hagstofa Íslands

15.okt.13

Peningalegar eignir og skuldir ríkissjóðs, stöðutölur í ágúst 2013

Hagstofa Íslands

15.okt.13

Gjaldeyrisútboð Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands

15.okt.13

Skráð atvinnuleysi í september 2013

Vinnumálastofnun

16.okt.13

Fiskafli í september 2013

Hagstofa Íslands

16.okt.13

Fundargerð Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands

Seðlabanki Íslands

16.okt.13

Efnahagsyfirlit tryggingafélaga í lok september 2013

Seðlabanki Íslands

17.okt.13

Samræmd vísitala neysluverðs í september 2013

Hagstofa Íslands

17.okt.13

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í september 2013

Þjóðskrá Íslands

18.okt.13

Verðmæti sjávarafla janúar-júlí 2013

Hagstofa Íslands

18.okt.13

Útboð ríkisbréfa

Lánamál ríkisins

18.okt.13

Upplýsingar um leiguverð íbúðarhúsnæðis í september 2013

Þjóðskrá Íslands

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall