Fréttir Greiningar

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í október

13.10.2017 10:00

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% í október frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst verðbólga úr 1,4% í 1,7% í september.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa heldur batnað frá síðustu spá, þar sem áhrif af aukinni samkeppni halda aftur af verðbólguþrýstingi næstu mánuði. Er nú útlit fyrir að verðbólga haldist undir verðbólgu-markmiði Seðlabankans út þetta ár, en verði síðan að jafnaði 2,7% næstu tvö ár.

Húsnæði og ferðakostnaður til hækkunar

Eins og fyrri daginn vegur húsnæðisliður VNV þyngst til hækkunar hennar í október skv. spá okkar. Könnun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu markaðsverð íbúðarhúsnæðis, muni hækka um 0,9% milli mánaða (0,18% áhrif í VNV). Þá hækkar viðhaldshluti húsnæðisliðar um 1,7% (0,05% í VNV), að mestu vegna talsverðrar verðhækkunar á innlendu byggingarefni.

Flugfargjöld til útlanda lækkuðu umtalsvert í september, og gerum við ráð fyrir að þau hækki á nýjan leik í október. Könnun okkar gefur til kynna að þessi liður muni vega til 0,10% hækkunar VNV. Auk þess teljum við að bifreiðaverð muni hækka þriðja mánuðinn í röð (0,03% í VNV). Þá spáum við u.þ.b. 1% hækkun á eldsneytisverði í október (0,02% í VNV). Loks má nefna að við teljum að lyf og læknisþjónusta muni vega til 0,02% hækkunar VNV í október.

Matur og gisting til lækkunar

Vaxandi samkeppni á dagvörumarkaði virðist hafa vegið þyngra en veiking krónu yfir sumarmánuðina í þróun matvöruverðs undanfarið. Matvælaverð lækkaði um 1,3% í september, og teljum við að það muni lækka áfram í október (-0,06% í VNV). Þá er háannatíminn að baki í ferðaþjónustunni og teljum við að verð á gistingu muni lækka í október (-0,02% í VNV). Auk þess eigum við von á einhverri verðlækkun fatnaðar og raftækja, sem alls gæti vegið til u.þ.b. 0,03% lækkunar VNV í mánuðinum.

Bætir heldur í verðbólgu næstu mánuði

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aukast eitthvað næstu mánuðina. Við spáum 0,1% hækkun VNV í nóvember og 0,4% hækkun í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,1% í árslok.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,2% í mánuði hverjum að jafnaði. Það eru þó talsvert minni áhrif en á fyrri helmingi ársins. Í desember gerum við svo ráð fyrir árstíðabundinni hækkun flugfargjalda.

Verðbólga nærri markmiði næstu ár

Útlit er fyrir hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði í stórum dráttum á svipuðum slóðum á spátímanum og það hefur verið að meðaltali síðustu mánuði. Þá gerum við ráð fyrir að jafnt og þétt dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs og launa eftir því sem líður á spátímann.

Við teljum að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á fyrri hluta næsta árs, en aukist lítillega í kjölfarið og verði 2,8% í árslok 2018. Árið 2019 spáum við 2,7% verðbólgu að jafnaði. Það má því segja að miðað við spá okkar verði verðbólga í næsta nágrenni við markmið Seðlabankans fram til ársloka 2019.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall