Fréttir Greiningar

Spáum óbreyttum stýrivöxtum 30. september nk.

24.09.2015 10:54

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ákveða að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum 30. september nk. Mun nefndin að okkar mati rökstyðja ákvörðunina með því að  benda á að verðbólguhorfur hafi batnað talsvert frá síðasta fundi nefndarinnar vegna hækkunar á gengi krónunnar og fleiri þátta. Á móti vegur m.a. kröftugur hagvöxtur, talsverð undirliggjandi kostnaðarverðbólga og minna aðhald í ríkisfjármálum á næsta ári en á þessu ári samkvæmt frumvarpi til fjárlaga. 

Spá okkar er í samræmi við þá framsýnu leiðsögn sem lesa má úr yfirlýsingu og fundargerð peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar. Eftir fundinn í september eru tveir vaxtaákvörðunarfundir eftir á árinu. Að okkar mati er ekki að vænta þess að peningastefnunefndin ákveði að hækka stýrivexti bankans enn frekar á þeim fundum.

Verðbólguhorfur hafa batnað mikið samhliða styrkingu krónunnar

Samhliða hækkun á gengi krónunnar undanfarið hafa verðbólguhorfur litið til næstu mánaða batnað til muna. Einnig koma þar til áhrif vegna lægra eldsneytis- og hrávöruverðs á alþjóðamörkuðum, auk þess sem afnám tolla á fatnað og skó um næstu áramót gæti haft tímabundin áhrif til minni verðbólgu. Samkvæmt okkar nýjustu verðbólguspá sem birt var 10. september sl. mun verðbólgan þó aukast næsta kastið, en ekki jafn mikið og áður var talið. Mun verðbólgan fara yfir 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans fyrir árslok, en haldast nálægt markmiðinu fram yfir mitt næsta ár. Mun hún aukast í kjölfarið, en engu að síður haldast undir 4,0% efri þolmörkum verðbólgumarkmiðsins á árinu 2017. 

Verðbólguhorfur eru að okkar mati mun betri en nýjasta verðbólguspá Seðlabankans sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í ágúst hljóðar upp á. Sú spá var að okkar mati of svartsýn á áhrif kjarasamninga á verðbólgu næsta kastið, en auk þess hefur gengi krónunnar þróast með allt öðrum hætti en gert var ráð fyrir í spánni. Byggir spá bankans á því að gengisvísitalan haldist föst út spátímabilið frá spádegi í 205,4 stigum. Nú er gengisvísitalan hins vegar 194,5 stig, og hefur gengi krónunnar því styrkst um 5,6% á þann kvarða frá því að Seðlabankinn gerði verðbólguspá sína. Hefur þetta umtalsverð áhrif á verðbólguþróunina vegna þess hvað stór hluti neyslukörfunnar er innfluttur beint eða óbeint.   

Kröftugur hagvöxtur á fyrri helmingi ársins

Kröftugur hagvöxtur mældist á fyrri árshelmingi samkvæmt bráðabirgðatölum sem Hagstofan birti 11. september sl. Samkvæmt tölunum mældist hagvöxturinn 5,2%, en svo mikill  hefur hagvöxtur ekki mælst á fyrri árshelmingi síðan á hinu umdeilda ári 2007. Er vöxturinn talsvert umfram það sem Seðlabankinn spáir fyrir árið í heild í sinni nýjustu hagspá, en í spánni sem hann birti samhliða vaxtaákvörðuninni í ágúst gerði hann ráð fyrir 4,2% hagvexti í ár. Kröftugur vöxtur í útflutningi á fyrri helmingi árs skýrir mestan muninn á spá Seðlabankans og niðurstöðu fyrri árshelmings. Ljóst er að peningastefnunefndin mun taka tillit til þessa þegar hún kemur saman í næstu viku til að ákvarða stýrivexti bankans. Ein af rökum nefndarinnar fyrir hækkun stýrivaxta undanfarið hefur verið að framleiðsluspenna sé nú komin í hagkerfið eftir slaka síðustu ára. 

Aðhaldið í ríkisfjármálum að minnka

Gert er ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs mælt út frá heildar- og frumjöfnuði muni aukast á milli áranna 2015 og 2016 samkvæmt fjárlagafrumvarpi sem lagt var fram á Alþingi þann 7. september sl. Reiknað er með því að frumjöfnuður án óreglulegra liða fari úr 3,7% af landsframleiðslu í ár í 4,1% á næsta ári. Framleiðsluspennan eykst hins vegar á sama tíma. Metur Seðlabankinn í sinni þjóðhagsspá að framleiðsluspennan verði 0,9% af framleiðslugetu á næsta ári samanborið við 0,0% í ár. Samkvæmt þessu virðist minna aðhald felast í fjárlagafrumvarpinu á næsta ári en stefnir í á þessu ári. Virðist því sama gamla sagan ætla að endurtaka sig, þ.e. að ríkisfjármálastefnan er ekki að ganga í takt við peningastefnuna, eða það sem peningastefnunefndin vill sjá ríkisfjármálin gera um þessar mundir. Reikna má með því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni horfa til þessa þegar hún ákvarðar vexti bankans í næstu viku. 

Tónninn mildaður í ágúst

Tíðindin í yfirlýsingu peningastefnunefndar vegna síðustu vaxtaákvörðunar voru þau að vaxtahækkunartónninn varðandi næstu skref í peningamálum var mildaður. Var hin framsýna leiðsögn, sem fyrir ákvörðunina var eindregið til hækkunar, minna afdráttarlaus í þá veru. Þannig sagði í yfirlýsingu nefndarinnar í júní að einsýnt þætti nefndinni að hækka þyrfti vexti  umtalsvert í ágúst og frekar á komandi misserum. Mun mildari yfirlýsing var í ágúst og talar nefndin þar um að aukist verðbólga í framhaldi af kjarasamningum eins og spáð er, mun peningastefnunefnd þurfa að hækka vexti enn frekar eigi verðbólgumarkmiðið að nást til lengri tíma litið. Virðist nefndin þarna ekki vera sannfærð um að verðbólgan muni aukast jafn hratt og reiknað er með í verðbólguspá bankans sem birt var samhliða ákvörðuninni, og er það að milda tón hennar. 

Þá bætir peningastefnunefndin við þessari setningu: “Vaxtaferillinn mun einnig ráðast af því hvort öðrum stjórntækjum verður beitt til þess að halda aftur af eftirspurnarþrýstingi á komandi misserum.“ Þessi hluti er nýlunda hjá nefndinni, og er mikilvægt að útskýrt verði hver þessi önnur stjórntæki eru, og hvenær og hvernig þeim kunni að verða beitt. Berast böndin þar t.a.m. að auknu peningalegu aðhaldi sem færir virka vexti nær miðju vaxtagangsins, t.d. í kjölfar slita búa gömlu bankanna. 

Einn nefndarmaður kaus að hækka vexti um 0,75 prósentur

Á síðasta fundi peningastefnunefndar Seðlabankans lagði seðlabankastjóri til 0,5 prósenta hækkun stýrivaxta bankans. Allir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögunni fyrir utan einn sem greiddi atkvæði gegn henni og kaus frekar að hækka vexti um 0,75 prósentur. Kemur þetta fram í fundargerð frá síðasta fundi nefndarinnar. 

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar kom ekki á óvart. Rifja má upp að í atkvæðagreiðslunni vegna vaxtaákvörðunarinnar í júní sl. greiddi einnig einn nefndarmaður gegn tillögu seðlabankastjóra um 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta, og vildi fremur hækka vexti um 1,0 prósentur. Auk þess hefði annar heldur kosið að hækka vexti um 0,75 prósentur í júní en taldi sig engu að síður geta fallist á tillögu seðlabankastjóra. Virðist þar með ögn meiri sátt hafa verið um vaxtaákvörðunina nú í ágúst en í júní, auk þess sem greina má mildari vaxtahækkunartón meðal nefndarmanna.

Spáum hækkun stýrivaxta á næsta ári 

Við reiknum með því að peningastefnunefndin bregðist við aukinni verðbólgu, vaxandi spennu í efnahagslífinu og minnkandi peningalegu aðhaldi með hækkun stýrivaxta á næsta ári. Spáum við 0,5 prósentustiga hækkun stýrivaxta á árinu 2016. Því til viðbótar kemur væntanlega aukið peningalegt aðhald þegar virkir stýrivextir bankans færast nær miðju vaxtagangsins. Ástæða þess er að fjármögnun bankanna mun í auknum mæli færast í skammtíma lántökur í Seðlabankanum samhliða uppgjöri slitabúa gömlu bankanna og losun aflandskróna úr hagkerfinu. Mun peningastefnunefndin taka það með í reikninginn þegar hún setur peningastefnuna, en hækkun vaxta á millibankamarkaði sem af þessum breytingum hlýst og afleidd áhrif hennar til hækkunar aftur eftir vaxtaferlinum er ígildi hækkunar stýrivaxta. Mun sú breyting  verða að okkar mati ígildi um 0,75 prósentustiga hækkunar. Aðhaldsstig peningamála, mælt út frá muninum á virkum stýrivöxtum bankans og verðbólgu, mun þrátt fyrir þessar hækkanir ekki aukast mikið á tímabilinu þar sem svo mikið mun bæta í verðbólguna á sama tímabili. 

Líkt og áður er mikil óvissa um þróun krónunnar næstu misseri í ljósi óvissu um uppgjör búa föllnu fjármálafyrirtækjanna og fyrirhugaðar tilslakanir gjaldeyrishafta. Má segja að þetta sé einn af stærstu óvissuþáttum stýrivaxtaspár okkar og í leiðinni spár okkar um verðbólguþróun. Spá okkar um stýrivexti byggir á því að þær tilslakanir sem gerðar verða á gjaldeyrishöftum á spátímabilinu verði framkvæmdar þannig að þær munu ekki raska stöðugleikanum á gjaldeyrismarkaðinum og ekki kalla á hækkun stýrivaxta til að tryggja þann stöðugleika. Áætlun um losun hafta, sem kynnt var að hluta í júní sl., styður við þessa forsendu okkar enda er þar lögð áhersla á að takmarka sveiflur á gengi krónu og lágmarka hættu á greiðslujafnaðaráfalli eftir því sem losun hafta vindur fram.

Stýrivaxtaspá okkar má nálgast hér.



Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall