Fréttir Greiningar

Mikill áhugi á 50/50 leið í gjaldeyrisútboði

04.12.2013 11:50

nullGjaldeyrisútboð Seðlabankans í gær var af stærri gerðinni, og virðist verulegur áhugi hafa verið á að koma krónum inn í landið til fjárfestinga í gegn um hina svokölluðu 50/50 leið. Hefur ekki komið meira fé inn í landið í gegn um 50/50 leiðina í einu útboði síðan í fyrsta útboðinu eftir að hún var kynnt til sögunnar, en það var í febrúar 2012. Hins vegar var óvenju lítið selt af verðtryggðum ríkisbréfum í útboðinu. Þetta síðasta gjaldeyrisútboð ársins gekk annars ágætlega og minnkaði það stöðu aflandskróna um 8,7 ma.kr., en aflandskrónueigendur nutu hagstæðustu kjara sem þeir hafa fengið frá apríl síðastliðnum.

Verulegt gjaldeyrisinnflæði vegna fjárfestingarleiðar

Í fyrri hluta útboðsins, þar sem Seðlabankinn keypti evrur, námu tilboð alls 52,6 m. evra. Seðlabankinn tók tilboðum fyrir 39,8 m. evra á genginu 210 kr. fyrir hverja evru. Þetta gengi hefur fest sig í sessi í innlegg gjaldeyrisútboðanna, enda hefur það verið óbreytt frá apríl síðastliðnum. Athygli vekur að öllum tilboðum samkvæmt 50/50 leiðinni var tekið, en þau námu 39,3 m. evra. Við gjaldeyrisinnflæði vegna 50/50 leiðar í útboðinu bætist svo sama upphæð í evrum í gegn um hinn almenna gjaldeyrismarkað, og því hefur heildarinnflæði gjaldeyris vegna þeirra leiðar tengt útboði gærdagsins numið 78,6 m. evra. Hins vegar var nánast öllum tilboðum samkvæmt ríkisbréfaleið hafnað. Þau tilboð námu 13,3 m. evra, en aðeins var tekið tilboðum fyrir 0,5 m. evra, sem er lægsta upphæð í ríkisbréfaleiðinni frá upphafi útboðanna.

Kjör aflandskrónueigenda batna

nullÍ seinni hluta útboðsins, þar sem Seðlabankinn seldi aflandskrónueigendum gjaldeyri, námu heildartilboð 11,0 mö.kr. og var tilboðum tekið fyrir 8,7 ma.kr. á genginu 216 kr. á evru. Þetta var raunar sterkasta gengi krónu gagnvart evru frá apríl síðastliðnum, og sömuleiðis hefur bilið milli gengisins í inn- og útlegg útboðanna ekki verið minna síðan þá. Eftirspurn aflandskrónueigenda var hóflegri en búast hefði mátt við eftir miklar hræringar á skuldabréfamarkaði undanfarnar vikur. Má segja að þeir hafi einnig notið góðs af miklum áhuga á 50/50 leiðinni í útboðinu nú.

Á árinu 2013 losuðu gjaldeyrisútboðin 47,8 ma.kr. af aflandskrónum. Alls hefur Seðlabankinn keypt 117.8 ma.kr. af aflandskrónum í gjaldeyrisútboðunum frá því þau hófu göngu sína sumarið 2011. Aflandskrónur nema nú u.þ.b. 324 mö.kr., og er rúmlega helmingur þeirra ávaxtaður í ríkisbréfum, en afgangurinn er að mestu leyti innstæður í bönkum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall