Fréttir Greiningar

Verðbólga eykst meira en vænst var í október

27.10.2017 12:36

Óvænt og umtalsverð hækkun matvöruverðs er helsta ástæða þess að vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði talsvert meira en vænst var í október. Ekki vekur þó síður athygli að á mælikvarða Hagstofunnar lækkaði íbúðaverð lítillega milli mánaða. Útlit er fyrir að verðbólga verði undir markmiði Seðlabankans út árið, en verðbólgumælingin í dag flækir þó líklega nokkuð myndina fyrir vaxtaákvörðun bankans í næsta mánuði.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,47% í október skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga mælist nú 1,9% en var 1,4% í september. Hefur verðbólga ekki mælst meiri frá apríl síðastliðnum, þótt hún sé vissulega mjög hófleg í sögulegu ljósi. VNV án húsnæðis hækkaði hins vegar um 0,63% í október og miðað við þá vísitölu mælist 2,3% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Það dregur því heldur saman með verðbólgumælikvörðunum með eða án húsnæðis.

Mæling októbermánaðar er talsvert yfir birtum spám.  Við spáðum 0,3% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,2 – 0,3% hækkun milli mánaða.  Munurinn á spá okkar og niðurstöðu Hagstofu liggur að mestu í verulegri hækkun matvælaverðs en við spáðum lækkun þessa liðar. Þá kom lítilsháttar lækkun reiknaðrar húsaleigu okkur á óvart og vó talsvert á móti hækkandi matarverði. 

Mesta mánaðarhækkun matarverðs frá VSK-hækkun

Matur og drykkur hækkaði í verði um 1,9% í október (0,24% áhrif í VNV). Svo mikið hefur matvælaverð ekki hækkað milli mánaða frá ársbyrjun 2015, þegar VSK á matvörur hækkaði úr 7% í 11%. Við höfðum spáð 0,5% lækkun matvælaverðs og kom þessi hækkun því okkur verulega á óvart. Hækkunin nær til allra helstu undirliða, og er hér um snarpan viðsnúning að ræða eftir viðstöðulitla lækkunarleitni undanfarna 12 mánuði. Þrátt fyrir hækkunina nú hefur matvælaverð lækkað um 2,2% undanfarið ár.

Undanfarið hafa borist fréttir af því að verslunin CostCo, sem haft hefur mikil áhrif á matvörumarkað frá því hún opnaði í vor, hafi hækkað verð á ýmsum vörum. Þótt verslunin sjálf sé ekki inni í verðmælingu Hagstofu enn sem komið er teljum við að aðrir aðilar á matvörumarkaði gætu hugsanlega hafa brugðist við framangreindum fréttum með því að hækka verð eftir lækkunarhrinu undanfarinna fjórðunga.

 

Íbúðaverð lækkaði í október

Húsnæðisliður VNV hefur vegið langþyngst í hækkun hennar undanfarin misseri. Í október brá hins vegar svo við að liðurinn hélt aftur af hækkun vísitölunnar milli mánaða. Í heild hækkaði húsnæðiliðurinn um 0,11% (0,04% í VNV). Hins vegar lækkaði reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, um 0,22% í október (-0,04% í VNV). Reiknaða húsaleigan hefur ekki lækkað frá júní 2015, en undanfarið hefur dregið úr hækkunartakti liðarins.

0,2% lækkun á verði fjölbýlis á höfuðborgarsvæði vó þyngst í lækkun reiknuðu húsaleigunnar, en aðrir undirliðir lækkuðu einnig lítillega. Lækkandi raunvextir á íbúðalánum vógu einnig til lítilsháttar lækkunar á reiknuðu húsaleigunni.

Á mælikvarða Hagstofunnar hefur markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkað um tæp 19% undanfarna 12 mánuði. 12 mánaða takturinn hefur ekki verið hægari frá mars síðastliðnum, en engu að síður er hér auðvitað um mikla árshækkun að ræða. Það verður svo býsna forvitnilegt að fylgjast með þróun þessa liðar á komandi mánuðum, en hafa ber í huga að talsverðar sveiflur geta verið í honum milli mánaða.

Flugfargjöld hækka en pakkaferðir lækka í verði

Þótt framangreindir þættir hafi verið ráðandi í októbermælingu VNV voru ýmsir aðrir liðir sem höfðu nokkur áhrif til ýmist hækkunar eða lækkunar hennar í mánuðinum. Af hækkunarliðum má t.d. nefna flugfargjöld, sem hækkuðu um 6,9% í októbermánuði (0,08% í VNV). Einnig hækkaði eldsneytisverð um 0,8% (0,01% í VNV) og bifreiðaverð hækkaði um 0,2% (0,01% í VNV). Verð á snyrtingu og snyrtivörum hækkaði um 1,8% (0,04% í VNV) og verð á lyfjum og lækningavörum um 1,4% (0,02% í VNV).

Á móti lækkaði verð á varahlutum í bifreiðar um 2,4% (-0,04% í VNV). Þá lækkaði gisting í verði um 0,6% (-0,01% í VNV), verð á pakkaferðum lækkaði um 1,1% (-0,02% í VNV) og kostnaður við símaþjónustu lækkaði um 1,2% (-0,02% í VNV).

Hvernig túlkar Seðlabankinn verðbólguþróunina?

Útlit er fyrir að verðbólgutakturinn muni aukast eitthvað næstu mánuðina þótt verðbólga verði áfram hófleg að mati okkar. Við spáum 0,1% hækkun VNV í nóvember og 0,4% hækkun í desember. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,3% í árslok.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,2% í mánuði hverjum að jafnaði. Það eru þó talsvert minni áhrif en á fyrri helmingi ársins. Í desember gerum við svo ráð fyrir árstíðabundinni hækkun flugfargjalda.

Fróðlegt verður að sjá hvernig peningastefnunefnd Seðlabankans metur þróun VNV við næstu vaxtaákvörðun þann 15. nóvember næstkomandi. Í rökstuðningi við óvænta vaxtalækkun í októberbyrjun tiltók nefndin að mælikvarðar á undirliggjandi verðbólgu bentu til “enn minni og hjaðnandi verðbólgu” en þau 1,4% sem verðbólga mældist þá. Snörp almenn hækkun matvælaverðs í október kemur óþægilega þvert á þessar hugleiðingar nefndarmanna, þótt vissulega mælist enn umtalsverð verðhjöðnun þegar húsnæðislið VNV sleppir. Þá hafa raunstýrivextir lækkað frá ákvörðun nefndarinnar miðað við liðna verðbólgu, þótt raunvextirnir séu meira og minna óbreyttir á aðra kvarða.

Á móti má benda á að væntingar nefndarinnar í októberbyrjun um að hægja tæki á hækkunartakti íbúðaverðs eru að ganga hressilega eftir miðað við októbertölur Hagstofunnar, í bili að minnsta kosti. Hér þarf þó að hafa í huga að reiknuð húsaleiga á það til að hlaupa út undan sér í einstökum mánuðum, og teljum við að VNV-mælingar næstu mánaða muni varpa mun skýrara ljósi á hvort hækkunarskeið íbúðaverðs er á enda runnið í bili eður ei. Verði sú raunin gæti verðbólga hjaðnað talsvert að nýju á komandi mánuðum.

Verðbólgumælingin nú flækir því nokkuð þá mynd sem peningastefnunefndin dró upp í upphafi mánaðar. Þar hjálpar heldur ekki til að framsýn leiðsögn nefndarinnar hefur reynst gagnslítil undanfarið og mat hennar á innbyrðis vægi helstu áhrifaþátta hefur að mati okkar sveiflast töluvert frá einum tíma til annars.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall