Fréttir Greiningar

Verðbólga áfram undir verðbólgumarkmiði

28.05.2015 11:50

Verðbólga er enn nokkuð undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans eftir 0,3% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í maí. Þróunin í maí var í stórum dráttum í takti við væntingar. Gera má ráð fyrir að verðbólgan verði áfram undir 2,5% verðbólgumarkmiðinu fram á haustið, en færist í aukana eftir það.

Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði um 0,28% í maí skv. nýbirtum tölum Hagstofunnar. Mæling VNV í maí er í samræmi við spá okkar og í miðgildi m.v. spár á markaði. Við spáðum 0,3% hækkun VNV milli mánaða en spár voru á bilinu 0,2%-0,4% hækkun. Verðbólga mælist nú 1,6%, en var 1,4% í apríl síðastliðnum. Árstaktur verðbólgunnar eykst því lítillega. Verðbólga hefur þó verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í 16 mánuði samfleytt. Sé litið til VNV án húsnæðis mælist hins vegar 0,3% verðbólga undanfarna 12 mánuði, og er það í fyrsta sinn síðan í október síðastliðnum að ekki mælist verðhjöðnun á þann mælikvarða. 

Verkföll hafa áhrif á húsnæðislið

Húsnæðisliður VNV hefur skýrt stærstan hluta hækkunar hennar undanfarna 12 mánuði. Hins vegar hækkaði liðurinn aðeins um 0,15% í maí (0,04% áhrif í VNV), og hefur ekki hækkað minna síðan í nóvember síðastliðnum. Ástæðan er væntanlega fyrst og fremst verkfall lögfræðinga hjá Sýslumanni höfuðborgarsvæðis, sem veldur því að engum kaupsamningum hefur verið þinglýst frá páskum. Það hefur svo aftur í för með sér að ekki koma nýjar íbúðaverðmælingar inn í reiknaða húsaleigu í VNV, þótt elstu mælingarnar detti út milli mánaða. Reiknaða húsaleigan hækkaði aðeins um 0,1% (0,01% í VNV) í maí, sem var nokkuð undir spá okkar. Greidd húsaleiga hækkaði hins vegar um 0,5% (0,03% í VNV). 

Talsverð hækkun á matarverði

Verð á mat og drykk hækkaði um tæpt prósentustig í maí, og skýrir sú hækkun helming hækkunar VNV (0,14% áhrif). Þetta er talsvert meiri hækkun en við höfðum vænst, og skýrist munurinn að stórum hluta af mun meiri hækkun á kjöti og grænmeti en við höfðum reiknað með. Hvað kjötið varðar má leiða að því líkur að kjötskortur vegna verkfalla hafi verið meginástæða að svo mikil hækkun hafi orðið. Við höfum hins vegar ekki handbæra skýringu á hækkun grænmetis, sem hefur ekki hækkað eins mikið á fyrstu fimm mánuðum árs og nú í ár síðan 2010. Þá hækkaði eldsneytisliðurinn um 2,3% (0,08% í VNV). Er það í takti við okkar spá, og skýrist af hækkun eldsneytis á heimsmarkaði.

Verð á veitinga- og gistiþjónustu hækkaði um 0,9% (0,05% í VNV), sem er að stærstum hluta vegna 9,6% verðhækkunar á gistingu. Var það í takti við væntingar okkar, enda fer háannatími ferðaþjónustu nú í hönd. Enn fremur hækkaði verð á fötum og skóm um 0,8% (0,04% í VNV). Var það heldur meiri hækkun en við áttum von á.

Af helstu lækkunarliðum má nefna að húsgögn og heimilisbúnaður lækkaði um 0,65% (-0,03% í VNV). Þar höfðum við spáð óverulegum breytingum. Þá lækkaði verð á flutningum í lofti um 4,0% (-0,06% í VNV), fyrst og fremst vegna ríflega 5% lækkunar á flugfargjöldum til útlanda. Er það heldur meiri lækkun en við spáðum.

Verðbólga hófleg fram á haustið

Verðbólguhorfur fyrir næstu mánuði eru svipaðar og fyrr að mati okkar. Þó gæti hækkun húsnæðisliðar orðið meiri í júní, ef fljótlega semst við BHM og kaupsamningar gerðir í apríl og maí detta inn í mælingu Hagstofunnar á reiknaðri húsaleigu. Eldsneytisverð hefur einnig þegar hækkað um tæpa prósentu frá maímælingu VNV (0,03% í VNV). Þessir þættir vega þó ekki nægilega þungt til að breyta júníspá okkar enn sem komið er, og einnig gæti komið t.d. komið til verðlækkunar á kjöti ef greiðist úr vinnudeilum á komandi vikum.

Bráðabirgðaspá okkar nú gerir ráð fyrir að VNV hækki um 0,4% í júní, lækki um 0,2% í júlí en hækki að nýju um 0,4%í ágúst. Verðbólga verður skv. spánni 1,8% í ágúst 2015. Eftir það teljum við að verðbólgutakturinn færist í aukana, og fer verðbólga líklega yfir 2,5% markmið Seðlabankans á síðasta fjórðungi yfirstandandi árs. Þar koma bæði til grunnáhrif vegna óvenju hagstæðrar verðlagsþróunar á seinni hluta síðasta árs, en einnig öllu hraðari hækkun verðlags milli mánaða.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall