Fréttir Greiningar

111 milljarða vöruskiptahalli á fyrstu átta mánuðum ársins

06.09.2018 11:42

Vöruskiptahalli er heldur minni það sem af er ári en hann var á fyrstu tveimur þriðjungum ársins 2017. Hagstæð verðþróun útflutningsvara og aukning í útfluttu magni sjávarafurða vegur þar gegn verðhækkun olíu og súráls ásamt auknu magni innflutnings. Útlit er fyrir að vöruskiptahalli verði svipaður í ár og í fyrra, en afgangur af þjónustujöfnuði verði þó öllu meiri en vöruskiptahallinn og því muni hóflegur afgangur verða af utanríkisviðskiptum.

Samkvæmt nýbirtum bráðabirgðatölum Hagstofunnar nam vöruskiptahalli í ágúst 14,5 mö.kr. Er það í takti við meðaltal undanfarinna 12 mánaða (13,8 ma.kr. halli). Bæði vöruútflutningur og -innflutningur voru með svipuðu móti og að jafnaði hefur verið undanfarið. Útfluttar vörur skiluðu 50,9 mö.kr. tekjum í ágústmánuði en innfluttar vörur kostuðu landsmenn 65,4 ma.kr. á sama tíma.

Útflutningur sjávarafurða í uppsveiflu

Það sem af er ári nemur halli á vöruskiptum tæplega 111 mö.kr. Það er lítið eitt minni halli en var á sama tímabili í fyrra (114 ma.kr.) en þar þarf að taka með í reikninginn að útflutningur sjávarafurða á fyrsta fjórðungi ársins 2017 litaðist af áhrifum sjómannaverkfalls. Alls voru fluttar út vörur fyrir ríflega 388 ma.kr. á tímabilinu samanborið við 330 ma.kr. á sama tíma í fyrra.

Verðmæti útfluttra sjávarafurða á fyrstu átta mánuðum ársins var ríflega fimmtungi meira en á sama tímabili í fyrra, reiknað á föstu gengi. Þar kemur þrennt til: Fiskverð á erlendum mörkuðum hefur hækkað, sjómannaverkfall setur mark sitt á tölurnar í fyrra og kvóti var aukinn á nýliðnu fiskveiðiári frá árinu áður. Alls voru fluttar út sjávarafurðir fyrir ríflega 152 ma.kr. frá ársbyrjun til ágústloka, sbr. við 124 ma.kr. á sama tímabili í fyrra. Hér er um jákvæða þróun að ræða, sem hjálpar til að milda áhrifin af sterku raungengi á utanríkisviðskiptin þessa dagana.

Hægari vöxtur í innflutningi neysluvara 

Vöruinnflutningur á tímabilinu janúar-ágúst nam alls 499 mö.kr., sem jafngildir 53 ma.kr. aukningu í krónum talið á milli ára. Á föstu gengi munar hvað mestu um aukinn eldsneytisinnflutning, sem skýrist að stórum hluta af hækkun heimsmarkaðsverðs á olíu og tengdum vörum, aukningu á innflutningi hrá- og rekstrarvara sem skrifast að verulegu leyti á verðhækkun súráls, og vöxt í innflutningi fjárfestingarvara að farartækjum undanskildum. Athygli vekur hins vegar að samdráttur er í innflutningi flutningatækja á tímabilinu og vöxtur í innflutningi neysluvara (3,6% á föstu gengi) hefur verið mun hægari það sem af er ári en raunin var í fyrra. Er þessi þróun til marks um að innlend eftirspurn vex nú hægar en síðustu misseri.

Útlit er fyrir að vöruskiptahalli í ár verði á svipuðum slóðum og í fyrra. Bráðabirgðaspá okkar hljóðar upp á 180-190 ma.kr. halla á vöruskiptum í ár, en í fyrra var vöruskiptahallinn 176 ma.kr. Halli á vöruskiptum mun skv. því nema u.þ.b. 7% af vergri landsframleiðslu (VLF). Afgangur af þjónustujöfnuði mun hins vegar væntanlega verða öllu meiri og vega þyngst í að skila hóflegum afgangi af utanríkisviðskiptum í ár.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall