Fréttir Greiningar

Hægari kaupmáttarvöxtur á fyrsta fjórðungi ársins

24.04.2018 11:35

Nokkuð hefur dregið úr vexti kaupmáttar launa síðustu mánuði vegna aukinnar verðbólgu. Kaupmáttarvöxtur er þó enn allmyndarlegur og meiri en gengur og gerist meðal nágrannaríkja. Hægari vöxtur kaupmáttar er ein meginástæða þess að við gerum ráð fyrir hægari vexti einkaneyslu, og þar með hægari hagvexti, í ár en undanfarin ár.

Samkvæmt nýbirtri launavísitölu Hagstofunnar hækkuðu laun í landinu almennt um 0,3% í mars frá mánuðinum á undan. Er það áþekkur hækkunartaktur og verið hefur síðustu mánuði. 12 mánaða hækkunartaktur launa miðað við launavísitölu mældist 7,1% í mars og hefur sá taktur raunar verið í kring um 7% allt frá miðju síðasta ári.

Heldur dró úr kaupmætti launa í mars þar sem verðlag á mælikvarða vísitölu neysluverðs hækkaði um 0,6% í mánuðinum. Kaupmáttur launa minnkaði því um 0,3% milli mánaða á þann kvarða. Frá sama tíma árið 2017 hefur kaupmáttur launa hins vegar aukist um 4,2%. Hefur kaupmáttarvöxturinn ekki verið hægari á þennan kvarða frá apríl 2017, en engu að síður er um allmyndarlegan vöxt kaupmáttar að ræða í sögulegu og alþjóðlegu ljósi. Að jafnaði óx kaupmáttur launa um 4,6% á fyrsta fjórðungi ársins frá sama tíma í fyrra. Má geta þess til samanburðar að ráðgjafarfyrirtækið Korn Ferry, sem sérhæfir sig í alþjóðlegum mannauðsmálum, áætlar að kaupmáttur launa muni aukast um 1,5% að jafnaði á heimsvísu í ár.

Hægja heimilin á neysluvextinum?

Kaupmáttarþróun er lykilbreyta í þróun einkaneyslu. Ef einkaneysla þróast í samræmi við þróun kaupmáttar, að teknu tilliti til mannfjöldabreytinga, gefur það til kynna að heimilin séu hvorki að auka við sparnað sinn né skuldsetja sig fyrir neysluútgjöldum í verulegum mæli. Mikill munur hefur verið á sambandi kaupmáttar og einkaneyslu á núverandi hagvaxtarskeiði og því síðasta. Á árunum 2004-2008 var einkaneysluvöxturinn lengst af umtalsvert hraðari en vöxtur kaupmáttar, enda jókst skuldsetning heimila hröðum skrefum á því tímabili. Það sem af er þessum áratug hefur aftur á móti lengst af verið gott samræmi milli kaupmáttarþróunar og einkaneyslu. Sé tekið tillit til fólksfjölgunar hefur einkaneyslan raunar vaxið hægar en sem nemur heildarvexti launatekna landsmanna að raungildi. Svo virðist því sem sparnaðarhneigð íslenskra heimila sé töluvert meiri en hún var fyrir áratug síðan, enda hefur fjárhagsleg staða þeirra að jafnaði batnað umtalsvert undanfarin ár. 

Á síðasta ári náði vöxtur einkaneyslu hámarki á sama tíma og hægja tók á kaupmáttarvextinum. Einkaneysla óx um 7,8% árið 2017 en kaupmáttur launa um 5,1% að jafnaði á sama tíma. Hins vegar var fólksfjölgun veruleg á landinu á síðasta ári. Samkvæmt tölum Hagstofu fjölgaði landsmönnum um 3% árið 2017. Virðist því allgott samræmi hafa verið milli vaxtar einkaneyslu annars vegar, og kaupmáttarvaxtar og fólksfjölgunar samanlagt hins vegar.


Útlit er fyrir hægari einkaneysluvöxt í ár. Kemur það bæði til af því að við gerum ráð fyrir hægari vexti kaupmáttar í ár, og einnig eru horfur á minni fólksfjölgun þetta árið en raunin var í fyrra. Nýjasta spá okkar fyrir verðbólgu og launaþróun hljóðar upp á 3,1% vöxt kaupmáttar launa að jafnaði í ár samanborið við 5,1% kaupmáttarvöxt í fyrra. Þá gerir mannfjöldaspá Hagstofu ráð fyrir að landsmönnum fjölgi um 2,2% í ár. Það er því ekki úr vegi að áætla að vöxtur einkaneyslu gæti orðið í námunda við 5% í ár. Þess má geta að í þjóðhagsspá okkar í febrúar spáðum við 4,7% vexti einkaneyslu fyrir yfirstandandi ár. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall