Fréttir Greiningar

Væntum 13% hækkunar K-90 á árinu

21.01.2015 08:53

Útlit er fyrir að árið 2015 verði nokkuð gott ár á hlutabréfamarkaði. Gerum við ráð fyrir að hlutabréfamarkaðurinn, mældur með K-90, hækki í kringum 13% yfir árið. Hækkunin stafar að miklu leiti af framgangi eðlilegrar ávöxtunarkröfu þeirra fyrirtækja á markaði sem vísitöluna mynda auk þess sem við búumst við ákveðinni verðleiðréttingu á einstökum félögum.  

Á árinu 2014 hækkaði vísitalan K-90 um 7%

Hlutabréfamarkaðurinn hækkaði um 7% á síðasta ári mældur með K-90. Áður en árið hófst gerðum við ráð fyrir meiri hækkun enda benti verðþróun ársins 2013 til töluverðs eftirspurnarþrýstings á markaði. Á árinu 2014 gaf þessi þrýstingur hins vegar eftir enda var töluvert framboð af annars konar fjárfestingum. Þá leiddi léleg rekstrarniðurstaða ákveðinna félaga til lækkunar gengis þeirra auk þess sem einhver félög byrjuðu árið 2014 í nokkuð háu gengi og var þá innistæða fyrir ákveðinni verðleiðréttingu. 

Okkar mat er að K-90 sé góður mælikvarði á innlenda hlutabréfamarkaðinn í heild sinni sökum þeirra reiknireglna sem vísitalan byggir á. Ör breyting félaga í vísitölunni leiðir hinsvegar til þess að ekki er hagkvæmt að elta samsetningu hennar í fjárfestingarsafni.

Þrjár nýskráningar á árinu

Við gerum ráð fyrir að þrjú félög verði skráð á þessu ári þ.e. Reitir, Eik og Skipti. Skráningargengi þessara félaga og skráningartími skapar ákveðna óvissu um áætlaða verðþróun markaðarins enda gerum við ráð fyrir að öll félögin komi inn í vísitöluna í lengri eða skemmri tíma á árinu. Líkur standa til að þessi félög verið skráð fyrir sumar byrjun. 

Heildar markaðsvirði þessara félaga liggur að öllum líkindum í kringum 100 ma.kr. Markaðsvirði skráðra félag í ársbyrjun 2015 var um 640 ma.kr. og er því um töluverða viðbót að ræða. Þau félög er skráð verða eru þó að miklu leiti komin í endanlegt eignarhald og því ekki líkur á að skráning þessar félaga muni skila sér í verulegri veltuaukningu þrátt fyrir að einhverjir eigendur muni af eðlilegum ástæðum að mestu yfirgefa eigendahópinn við skráningu. 

Ýmsir óvissuþættir í loftinu

Áhætta á hlutabréf er almennt umfram áhættu skuldabréfa og bera hlutabréf því ákveðið álag sem ætlað er sem greiðsla fyrir þessa umfram áhættu. Ófyrirséðir atburðir geta þó átt sér stað með verulegum áhrifum á verð hlutabréfa. Afnám hafta gæti verið einn slíkur atburður en sýn markaðarins virðist almennt vera sú að skref til losunar hafta verði stigin varlega. Ófyrirséðir efnahagsatburðir og gengishreyfingar geta einnig haft áhrif. Þá getur markaðsstemmning á hverjum tíma haft verulega áhrif en erfitt er að spá fyrir um þróun hennar. Vextir, þróun á vinnumarkaði, olíuverð, afli og aflaverðmæti og fjöldi ferðamanna geta jafnframt haft verulega áhrif á afkomu félaganna. Áhrif sviptinga í þessum stærðum eru þó misjöfn milli félaga og ákveðin atriði sem í daglegri umræðu eru talin slæm fyrir þjóðarbúið gætu haft jákvæð áhrif á arðsemi skráðu félaganna okkar. Dæmi um slíkt væri til að mynda veiking krónu gagnvart evru sem leiddi af sér lækkun rekstrarkostnaðar hjá t.d. Marel og HB Granda. 

Þau félög sem hafa verulegan hluta tekna sinna í erlendri mynt taka á sig mynd erlendrar fjárfestingar og bera því að jafnaði lægri ávöxtunarkröfu en félög er aðeins stunda innlenda starfsemi. Ástæða þessa er að við mat á áhættulausum vöxtum er miðað við vexti í myntum til samræmis við tekjur félaganna. Lækkun vaxta í tekjumynt félags þýðir í raun að fórnarkostnaður fjárfestingar í hlutabréfum lækkar sem leiðir að öðru jöfnu til lækkunar ávöxtunarkröfu hlutabréfa. Lækkun vaxta styður þar með við hækkun verðlags hlutabréfa. Verði lágt vaxtastig eitthvað viðvarandi getur það skilað enn frekari hækkun hlutabréfaverðs. 

Erfitt að spá fyrir um markaðsstemmningu

Erfitt er að spá fyrir um áhrif markaðsstemmningar á hverjum tíma en einn mælikvarði á hana er flökt í verðlagningu á markaði. Á myndinni hér til hliðar má sjá þróun hlutabréfaverðs mælt með K-90 og þriggja mánaða flökt þeirrar vísitölu. Flökt hlutabréfamarkaðarins hefur verið að aukast talsvert. Verðlagning virðist þannig að undanförnu frekar hafa stýrst af markaðsstemningu en því að nýjar upplýsingar hafi komið fram. Sú hækkun sem var í byrjun þessa árs er gott dæmi um slíkt þó vissulega hafi verið innistæða fyrir verðleiðréttingu hjá ákveðnum félögum. Við teljum ekki ástæðu til að vænta minni hreyfinga á flökti hlutabréfamarkaðarins á árinu 2015 enda ekki útlit fyrir að markaðurinn dýpki mikið í bráð. 

Ofangreinda spá um 13% hækkun K-90 var birt í Afkomuspárriti okkar fyrir 4F 2014 og 2015 sem kom út 14. janúar sl. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall