Fréttir Greiningar

Mun minni verðbólga í júní en vænst var

28.06.2016 11:25

Hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í júní var mun minni en vænst var, en samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,18% í júní frá fyrri mánuði. Hjaðnar verðbólga þar með lítillega frá fyrri mánuði, en verðbólga mælist nú 1,6% en var 1,7% í maí sl. Minni hækkun var á VNV án húsnæðis, eða sem nemur um 0,10% á milli mánaða í júní, og á þann kvarða er vísitalan óbreytt undanfarna 12 mánuði. Eins og áður segir er hækkun VNV á milli mánaða mun minni en vænst var, en spár voru á bilinu 0,4% til 0,5% hækkun VNV milli mánaða þar sem við spáðum 0,5% hækkun. 

Flugfargjöld, eldsneyti og húsnæði hækka ....

Liðurinn ferðir og flutningar var sá undirliður sem vó drýgst til hækkunar VNV í júní líkt og við bjuggumst við. Þó var hækkunin aðeins minni en við gerðum ráð fyrir og skýrist sá munur einna helst af minni hækkun á flugfargjöldum. Hækkaði liðurinn í heild sinni um 1,6% (0,25% áhrif í VNV) og var það að mestu vegna 7,9% hækkunar á flugfargjöldum (0,10% í VNV) og 2,5% hækkunar á eldneyti (0,09% í VNV). Húsnæðisliðurinn hækkaði einnig talsvert en sú hækkun var í samræmi við spá okkar. Hækkaði liðurinn í heild um 0,35% á milli mánaða í júní (0,10% í VNV), og mátti þá hækkun nánast alfarið rekja til 0,66% hækkunar á reiknaðri húsaleigu (0,10% í VNV). Áhrif annarra liða til hækkunar voru mun minni. Má kannski helst nefna að hótel og veitingastaðir hækkuðu um 0,55% á milli mánaða (0,03% í VNV) og föt og skór um 0,39% (0,02% í VNV).

... en símaþjónusta og matvara lækka

Veigamesti lækkunarliðurinn í júnímánuði var símaþjónusta sem lækkaði um 4,0% á milli mánaða (-0,10% í VNV). Þessi mikla lækkun kom okkur nokkuð á óvart enda er þetta tíundi mánuðurinn í röð sem þessi liður lækkar á milli mánaða. Þar að auki var talsverð lækkun á mat- og drykk, eða sem nemur um 0,55% (-0,08% í VNV), þar sem margir undirliðir þar innan að lækka talsvert. Mér hér m.a. nefna rúmlega 0,8% verðlækkun á kjöti (-0,02% í VNV) og tæplega 1,4% lækkun á sykri og sælgæti (-0,02% í VNV). Aðrir liðir sem vógu nokkuð drjúgt til lækkunar á VNV í júní voru húsgögn (-0,05% í VNV) og pakkaferðir (-0,04%). 

Áfram hófleg verðbólga næsta kastið

Við reiknum með að húsnæðisliðurinn vegi áfram einna þyngst til hækkunar VNV á komandi mánuðum, en þar spáum við að jafnaði um 0,7% hækkun í mánuði hverjum. Í júlí gerum við ráð fyrir óbreyttri VNV en þar vega útsöluáhrif upp hækkun húsnæðisliðar og árstíðarbundna hækkun flugliðar. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir að VNV hækki um 0,4% í ágúst og um 0,1% í september. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 1,8% í lok 3. ársfjórðungs. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall