Fréttir Greiningar

Sviptivindar á hlutabréfamarkaði

03.03.2014 10:39

nullTöluverðir sviptivindar hafa einkennt hlutabréfamarkaðinn á þessu ári. Á fyrsta viðskiptadegi ársins hækkaði vísitala Greiningar K-90 um 2,3% og eftir þrjá fyrstu viðskiptadagana höfðu markaðir hækkað um 3,4% skv. vísitölunni. Upp úr miðjum janúarmánuði lækkaði vísitalan síðan skarpt og er ljóst að í kringum þetta leiti virðast því væntingar markaðsaðila hafa breyst nokkuð.

Eftirspurnarþrýstingur minnkar

Við teljum líklega ástæðu fyrir lækkun á mörkuðum þá að ekki er útlit fyrir að jafn mikil umfram eftirspurn verði á hlutabréfamarkaði í ár og á síðasta ári. Stærsta ástæða þess er fyrirhugaðar skráningar félaga á Aðalmarkað Kauphallarinnar þetta árið en við búumst við því að allt að sex félög verði skráð á árinu. Nú þegar hefur HB-Grandi boðað skráningu í apríl en markaðsvirði þess félags á First North er nú um 43 ma.kr. Það er því mun verðmætara en mörg félög sem nú skipa Aðallista Kauphallarinnar. Skráning HB-Granda er í raun sérstök að því leiti að einungis einn lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður verslunarmanna, er nú í hópi stærstu hluthafa og hann á einungis 2,2% hlut í félaginu. HB-Grandi gæti því fyllt nokkuð vel eftirspurnarþörf lífeyrissjóðanna á hlutabréfamarkaði í nærtíð.

Djúp dýfa eftir sölu Hagamels

Síðast liðinn mánudag, á fyrsta degi stærstu uppgjörsviku ársins, seldi Hagamelur stærstan hluta eignar sinna í Högum. Titringur fór um markaðinn í kjölfarið þar sem fjöldi félaga lækkaði. Lækkunin átti þó vísast einnig rætur sínar að rekja til væntinga um niðurstöður uppgjöra félaganna. Markaðurinn snéru þó aðeins við eftir þessa stærstu uppgjörsviku ársins. K-90 hefur nú lækkað um 3,8% frá ársbyrjun.

Misvísandi skilaboð um afnám hafta auka á óvissu

Misvísandi skilaboð um afnám hafta hafa einnig aukið sviptingarnar á hlutabréfamarkaði. Fjármálaráðherra sagði nýverið að þegar væri unnið í samræmi við slíka áætlun en þingmaður stjórnarandstöðu sem starfar í nefnd um afnám hafta kannaðist ekki við slíka áætlun. Á sama tíma boðar forsætisráðherra að áætlun um afnám hafta yrði ekki gerð opinber. Hvort sú staðreynd bætti samningsstöðu ríkisins við kröfuhafa föllnu bankanna skal ósagt látið. Hitt er hins vegar staðreynd að óopinberar aðgerðaráætlanir er varðar markaði getur ýtt undir óeðlilegar hreyfingar á mörkuðum sérstaklega ef markaðsaðilar hræðast að ekki sitji allir við sama borð um aðgengi að upplýsingum um áætlunina og framgang hennar. 

Gæti orðið ár sviptivinda á hlutabréfamarkaði

Ekki eru allir sammála um umfang þeirra markaðsútboða sem farið verður í á árinu né hvort öll þau félög er boðað hafa skráningu munu ná henni fyrir árslok. Það á því enn eftir að skýrast hvort framboð og eftirspurn muni falla jafn vel hvort að öðru og okkur sýnist útlit fyrir á þessu ári. Þess fyrir utan mun allt tal um afnám hafta hafa veruleg áhrif á hlutabréfamarkað og þá einkum það er lítur að hlut lífeyrissjóðanna í þeim sökum umfangs eignarhalds þeirra á íslenskum hlutabréfamarkaði. Þetta ár gæti því áfram einkennst af töluverðum sviptivindum.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall