Fréttir Greiningar

Myndarlegur hagvöxtur á fyrri árshelmingi

07.09.2018 11:53

Hagvöxtur hefur undanfarið verið kröftugri en útlit var fyrir. Sér í lagi hefur framlag utanríkisviðskipta til vaxtar þróast á hagfelldan hátt það sem af er ári, en á móti hefur hægt á vexti einkaneyslu. Mikil aukning í byggingu íbúðarhúsnæðis vegur þyngst í vexti fjárfestingar á fyrri helmingi ársins. Samsetning vaxtarins var tiltölulega jákvæð á fyrri hluta ársins og ber þess vitni að hagkerfið leiti nú í betra jafnvægi en verið hefur.

 

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands jókst verg landsframleiðsla (VLF) um 6,6% á öðrum fjórðungi ársins. Er það sterkari hagvöxtur en við áttum von á, og skýrist munurinn að mestu af myndarlegum fjárfestingarvexti og jákvæðu framlagi utanríkisviðskipta.

Þar sem ársfjórðungstölur þjóðhagsreikninga eru býsna sveiflukenndar og breytast talsvert við endurskoðun er gagnlegra að horfa í fyrri árshelming samanlagt til að fá skýrari mynd af nýlegri hagþróun. Þar er þróunin í stórum dráttum keimlík og nefnt er hér að ofan. Hagvöxtur var 6,4% á H1 sem aftur er myndarlegri vöxtur en við væntum.

Hægari vöxtur einkaneyslu

Hægt hefur á vexti einkaneyslu frá síðasta ári. Á fyrri helmingi ársins jókst einkaneysla að raunvirði um 5,3% samanborið við fyrri helming ársins 2018. Vöxturinn var þar að auki nokkru hægari á 2F (5,1%) en á 1F (5,6%) og er það í ágætu samræmi við þróun helstu hagvísa sem gefa tóninn fyrir einkaneysluna. Í fyrra óx hins vegar einkaneysla um 7,9%, og var það mesti einkaneysluvöxtur frá því herrans ári 2007. Virðist sem íslensk heimili vilji hafa borð fyrir báru um þessar mundir og fá merki eru enn sem komið eru um að vöxtur einkaneyslu sé fjármagnaður með skuldsetningu líkt og gerðist í vaxandi mæli eftir því sem leið á uppsveifluna á fyrsta áratug aldarinnar. 

Íbúðafjárfesting sækir í sig veðrið

Íbúðafjárfesting er einn helsti burðarásinn í 7,6% vexti fjárfestingar á 1H 2018 frá sama tíma í fyrra. Fjárfesting í íbúðarhúsnæði óx um ríflega 24% á milli ára, en á sama tíma jókst fjárfesting atvinnuvega um tæplega 6% og fjárfesting um 0,2%. Þessi myndarlegi vöxtur íbúðafjárfestingar hlýtur að teljast af hinu góða enda hefur framboðsskortur á nýju íbúðarhúsnæði sett svip sinn á íbúðamarkað síðustu misserin. Nú eru hins vegar teikn á lofti um að sá markaður sé að nálgast betra jafnvægi og eru þessar tölur m.a. til marks um það að sú þróun muni líklega halda áfram á næstunni.

Viðsnúningur í framlagi vöruviðskipta til hagvaxtar á stærstan þátt í að framlag utanríkisviðskipta til vaxtar var jákvætt um 0,2% á fyrri helmingi ársins. Undanfarin ár hafa utanríkisviðskiptin vegið til minni vaxtar þrátt fyrir myndarlegan viðskiptaafgang, þar sem innflutningsvöxtur hefur haft vinninginn yfir vöxt útflutnings. Vöruútflutningur jókst um ríflega 6% og þjónustuútflutningur um rúm 3% á tímabilinu. Á sama tíma dróst vöruinnflutningur saman um 1% á milli ára meðan þjónustuinnflutningur jókst um tæp 13%. Útflutningur óx á heildina litið um 4,5% en innflutningur um 4,1% á fyrri helmingi ársins frá sama tíma í fyrra.

Jákvæð teikn á lofti í hagkerfinu

Í heild má segja að hinar nýju þjóðhagsreikningatölur séu að mörgu leyti jákvæðari en vænta mátti. Einkaneysluvöxtur er að róast, jafnvægi utanríkisviðskipta er meira en ætla mætti miðað við hátt raungengi og það hversu uppsveiflan hefur staðið lengi. Þá veit vöxtur íbúðafjárfestingar á gott varðandi húsnæðismarkað á komandi fjórðungum. Loks má nefna að hóflegur vöxtur atvinnuvegafjárfestingar ætti að vera til marks um að hætta á offjárfestingu í vaxtargreinum á borð við ferðaþjónustu sé minni en ella. 

Flest bendir til þess að íslenskt hagkerfi leiti nú jafnvægis eftir myndarlega og langa uppsveiflu. Við eigum von á að hagvöxtur verði talsvert hægari á seinni hluta ársins vegna hægari vaxtar einkaneyslu, neikvæðara framlags utanríkisviðskipta og líklega nokkurs samdráttar í fjárfestingu atvinnuvega. Engu að síður verður hagvöxtur hér á landi allmyndarlegur í ár að okkar mati, og horfur eru enn sem fyrr á að hagkerfið lendi með mýkra mótinu eftir undangengið vaxtarskeið.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall