Fréttir Greiningar

Væntingar landsmanna hófstilltari á öðrum ársfjórðungi

28.06.2018 10:10

Minnkandi væntingar íslenskra neytenda til stöðu og framtíðarhorfa í efnahags- og atvinnulífinu benda til þess að draga muni úr einkaneysluvexti á komandi fjórðungum. Landsmenn virðast síður hyggja á bifreiðakaup á næstunni en verið hefur undanfarin misseri, en þeim fjölgar hins vegar sem eru að huga að húsnæðiskaupum þessa dagana.

Nýlega birt Væntingavísitala Gallup (VVG) fyrir júní mælist 104,1 stig, sem er lægsta gildi hennar frá haustdögum 2015. Lækkun hennar um þrjú stig frá síðasta mánuði skýrist að stórum hluta af lækkandi væntingum til stöðu efnahags- og atvinnulífsins eftir 6 mánuði, en mat á núverandi ástandi er enn býsna hátt. Samspil þessara tveggja undirvísitalna er nokkuð skýrt merki um að íslenskir neytendur telji hagsveifluna komna í seinni hálfleik, þar sem góðæri ríkir en útlit er fyrir að úr því dragi á komandi tíð. 

Talsverð fylgni er milli þróunar VVG og einkaneyslu til meðallangs tíma litið. Á 2. ársfjórðungi var meðalgildi VVG 109,2 stig og hefur vísitalan ekki mælst lægri á þann kvarða síðan á 3F 2015. Það, ásamt öðrum nýlegum hagvísum sem tengjast einkaneyslu, bendir að mati okkar til þess að þessa dagana sé að hægja á einkaneysluvexti og að vöxturinn reynist hægari í ár en undanfarin tvö ár.

Fleiri hyggja á húsnæðiskaup en færri á bílakaup

Gallup birti einnig nýverið ársfjórðungslega mælingu á  stórkaupavísitölu sinni. Í heild mælist stórkaupavísitalan ríflega 68 stig, sem er tæpum fjórum stigum lægra en á sama tíma fyrir ári. Gildið er þó fremur hátt í sögulegu samhengi.

Undirvísitala fyrirhugaðra húsnæðiskaupa hækkar um 0,7 stig og mælist nú 8,7 stig sem er hæsta gildi hennar síðan á 1F 2017. Alls telja 6% aðspurðra líklegt að þeir hyggi á húsnæðiskaup á komandi 12 mánuðum. Verulega hefur hægt á hækkunartakti íbúðaverðs hér á landi frá síðasta sumri en framangreind þróun gæti bent til þess að aukið líf sé að færast í íbúðamarkað að nýju, a.m.k. hvað veltu varðar.

Vísitala fyrirhugaðra utanlandsferða lækkar lítillega milli mælinga, en samt sem áður telja 77% þjóðarinnar líklegt að þeir bregði sér út fyrir landsteinana á komandi 12 mánuðum.

Loks mælist vísitala fyrirhugaðra bifreiðakaupa óbreytt frá síðustu mælingu, en þá var gildi hennar það lægsta frá 3F 2016. Hyggjast 15% svarenda festa kaup á bifreið á komandi mánuðum samkvæmt mælingu Gallup. Mikil aukning hefur verið í bílasölu undanfarin misseri, en það sem af er ári hefur dregið talsvert úr vexti í þeim geira. 

Á heildina litið segir því stórkaupavísitalan og undirvísitölur hennar áþekka sögu og VVG: Íslenskir neytendur ætla að rifa seglin nokkuð hvað neysluvöxt varðar, en horfur eru þó sem fyrr á því að vöxturinn verði allmyndarlegur og standi að baki verulegum hluta hagvaxtar eins og hann er reiknaður í ráðstöfunaruppgjöri þjóðhagsreikninga Hagstofunnar.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall