Fréttir Greiningar

Meiri vöxtur en vænst var á fyrri árshelmingi

06.09.2013 12:23

nullHagvöxtur mælist 2,2% á fyrri helmingi yfirstandandi árs samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Hér er um jákvæðar tölur að ræða, og hagvöxtur í ár gæti reynst meiri en nýlegar spár gera ráð fyrir. Myndin er hins vegar nokkuð blendnari þegar rýnt er nánar í tölurnar. Vöxturinn er að stórum hluta borinn uppi af afar hagstæðri þróun þjónustuviðskipta, að miklu leyti vegna spútnikvaxtar í ferðaþjónustu. Undirliggjandi bati í innlendri eftirspurn er hins vegar hægur. Þá endurskoðaði Hagstofan hagvaxtartölur fyrir árin 2012 og 2011 niður á við til 0,4% minni vaxtar samanlagt.

Hagvöxtur á fyrri hluta ársins er drifinn áfram af 4,7% vexti í þjónustuútflutningi og 4,6% samdrætti í þjónustuinnflutningi. Aukninguna í þjónustuútflutningi má að miklu leyti þakka þeim geysihraða vexti í ferðaþjónustu sem verið hefur á tímabilinu og birst hefur m.a. í tölum um fjölda erlendra ferðamanna hér á landi og gistinátta undanfarið. Meira kemur á óvart að innflutningur þjónustu sé að dragast verulega saman á sama tíma. Að hluta er hér líklega um grunnáhrif að ræða, enda mældist afar hraður vöxtur í þjónustuinnflutningi á fyrri hluta síðasta árs. Það er því ólíklegt að þjónustuviðskiptin skili jafn miklum vexti á síðari hluta ársins.

Blendin mynd að ferðaþjónustu slepptri

Að þjónustuviðskiptum slepptum er myndin hins vegar ekki eins jákvæð. Vöxtur einkaneyslu mælist þannig 1,2% á fyrri hluta ársins, sem er helmingi hægari vöxtur en árið 2012. Þá vex samneysla einnig hægt, eða um 1,1%, enda er beltið enn nokkuð þétt hert í ríkisrekstrinum. Myndin er hins vegar flóknari þegar kemur að fjárfestingu. Samdráttur í fjárfestingu mældist 13% á fyrri helmingi ársins frá sama tíma í fyrra. Þar ræður miklu að mun minna var fjárfest í skipum og flugvélum á fyrri helmingi þessa árs en á sama tíma í fyrra, og sé slík fjárfesting undanskilin jókst fjárfesting um 4,1% á fyrstu sex mánuðum ársins. Þessar tölur eru raunar spegilmynd af þróuninni árið 2012, þegar vöxtur mældist í fjármunamyndun að skipum og flugvélum meðtöldum, en samdráttur þegar slík fjármunamyndun er undanskilin. Það má svo deila um hvor mælikvarðinn er réttari til að leggja mat á undirliggjandi þróun, sér í lagi þegar gera má ráð fyrir að hinn hraði vöxtur í ferðaþjónustu kalli á aukna fjárfestingu í flutningatækjum. Loks dróst vöruútflutningur saman um 0,8% á tímabilinu, en vöruinnflutningur dróst þó enn meira saman eða um 4,3% og framlag vöruviðskipta til hagvaxtar var því jákvætt.

Minni hagvöxtur undanfarin ár

nullHagstofan birti einnig í morgun endurskoðaða þjóðhagsreikninga fyrir fyrri ár. Kemur þar fram að hagvöxtur árið 2012 mælist nú 1,4% í stað 1,6% vaxtar í fyrri tölum, og hagvöxtur árið 2011 mælist nú 2,7% í stað 2,9% áður. Samanlagt mælist því hagvöxtur síðustu ára 0,4% hægari en áður var talið. Má segja að Hagstofan hafi að einhverju leyti búið til hagvöxtinn á fyrri helmingi þessa árs með endurskoðun fyrri talna, þar sem hraðari vöxtur það sem af er ári er að hluta kominn til af því að verið er að fara úr lægri upphafsstöðu. Hægari vöxtur í fyrra skrifast á minni vöxt þjóðarútgjalda, nánar tiltekið meiri samdrátt í samneyslu og minni vöxt einkaneyslu, en vöxtur fjárfestingar mælist hins vegar nokkru meiri, og samdráttur fjárfestingar að skipum og flugvélum undanskildum að sama skapi minni.

Vöxtur í ár gæti reynst meiri

Hinar nýbirtu tölur gætu bent til þess að vöxtur á árinu reynist nokkru meiri en spár okkar og annarra hafa bent til. Er það fyrst og fremst vegna þróunar þjónustuviðskipta eins og að framan er rakið, en einnig vegna grunnáhrifa af minni vexti árin á undan. Reikna má með að einkaneysla og fjárfesting rétti nokkuð úr kútnum á seinni hluta ársins, og einnig mun vöruútflutningur væntanlega aukast í magni mælt. Á móti er líklegt að vöruinnflutningur aukist talsvert, ekki síst innflutningur almennra fjárfestingarvara sem skrapp saman á fyrri hluta árs á skjön við mældan vöxt fjárfestingar án skipa og flugvéla. Einnig teljum við ólíklegt að þjónustuviðskipti skili jafn ríflegu framlagi til vaxtar á seinni hluta árs, bæði vegna minni vaxtar í þjónustuútflutningi og vegna grunnáhrifa í þjónustuinnflutningi.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall