Fréttir Greiningar

Hægari hagvöxtur á veikari grunni

08.12.2017 12:36

 

Þróun landsframleiðslu á yfirstandandi ári ber með sér að toppi hagsveiflunnar er náð og framundan er hægari hagvöxtur. Innflutningur hefur vaxið mun hraðar en útflutningur það sem af er ári, og einkaneysla dregur í vaxandi mæli vagninn hvað hagvöxt varðar. Framlag ferðaþjónustu til hagvaxtar minnkar jafnt og þétt eftir því sem dregur úr fjölgun ferðamanna hingað til lands. Hagvöxtur mælist þó enn allmyndarlegur og teljum við sem fyrr góðar líkur á að hagkerfið nái jafnvægi með tiltölulega mjúkum hætti.

Hægari hagvöxtur en mikill gangur í þjóðarútgjöldum

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar nam hagvöxtur á Íslandi 3,1% á 3. ársfjórðungi 2017. Vöxturinn hefur ekki verið hægari frá síðasta fjórðungi ársins 2015. Það sem dregur vöxt fjórðungsins niður er að stærstum hluta verulega neikvætt framlag utanríkisviðskipta, en þjóðarútgjöld (samtala innlendrar neyslu og fjárfestingar) uxu hins vegar hratt á 3F. Mesta athygli vekur að þjónustuútflutningur jókst ekkert á fjórðungnum frá sama tíma í fyrra miðað við tölur Hagstofunnar, þrátt fyrir metsumar hvað varðar fjölda ferðamanna. Virðist sem hápunktinum sé náð varðandi framlag vaxtar ferðaþjónustunnar til hagvaxtar, en ævintýralegur vöxtur í þeim geira hefur verið einn helsti drifkraftur hagvaxtar undanfarin misseri.

Ársfjórðungstölur Hagstofu fyrir þjóðhagsreikninga eru gjarnan býsna kvikar milli fjórðunga og taka einnig oft verulegum breytingum við endurskoðun. Því er gagnlegra að horfa í samanlagðar tölur fyrstu 9 mánaða ársins til að átta sig á hagþróun hérlendis. Samkvæmt þeim var hagvöxtur 4,3% á fyrstu þremur fjórðungum ársins. Er það aðeins ríflega helmingur hagvaxtarhraðans á síðasta ári (7,4%). Líkt og á 3F bera 9 mánaða tölurnar þess merki að verulega hefur dregið úr útflutningsvexti á meðan þjóðarútgjöld og innflutningur vex enn allhratt. Þannig jókst útflutningur vöru og þjónustu um 3,9% á tímabilinu frá sama tíma í fyrra, en innflutningur vöru og þjónustu jókst hins vegar um 10,7%. Til samanburðar nam vöxtur útflutnings tæplega 11% í fyrra, en vöxtur innflutnings nam tæplega 15%. Það hefur því dregið úr vexti bæði útflutnings og innflutnings, en þó töluvert hraðar hvað útflutning varðar.

Óhagstæðari samsetning hagvaxtar

Verulegur gangur er í innlendri eftirspurn það sem af er ári. Einkaneysla óx um 7,7% á fyrstu 9 mánuðum ársins miðað við fyrra ár, og fjárfesting um tæplega 12% á sama tíma. Til samanburðar óx einkaneysla um 7,1% í fyrra en fjárfesting um nærri 23%. Í heild jukust þjóðarútgjöld um 7,4% á fyrstu þremur ársfjórðungum 2017, sem er  nokkru hægari vöxtur en á síðasta ári (8,9%). Framlag einkaneyslu til hagvaxtar fer því stigvaxandi á meðan framlag fjárfestingar og útflutnings minnkar. Má segja að samsetning hagvaxtarins sé að verða talsvert óhagstæðari að þessu leyti, líkt og oft vill verða þegar líður á hagsveifluna hérlendis. Hér eru ekki síst áhrif af háu raungengi farin að segja til sín, en hátt raungengi hvetur til meiri einkaneyslu vegna mikils kaupáttar gagnvart útlöndum, á sama tíma og það dregur úr samkeppnishæfni þjóðarbúsins á alþjóðavísu.

Hagkerfið í aðflugi til vonandi mjúkrar lendingar

Þó er rétt að halda til haga að ofangreind þróun er fremur til marks um aðlögun þjóðarbúsins eftir afar myndarlegt vaxtarskeið en bakslag í einhverjum skilningi. Hagvöxtur er enn allmyndarlegur í alþjóðlegum samanburði, og fá merki eru um ójafnvægi og óstöðugleika af því tagi sem ógnað gæti vaxtarhorfum hagtkerfisins til meðallangs tíma. Íslenskt hagkerfi hefur dafnað afar vel síðustu misserin. Verkefni komandi fjórðunga verður væntanlega fyrst og fremst að varðveita þann árangur sem þegar hefur náðst og aðlaga atvinnulíf og innviði að hóflegri og stöðugari vexti til framtíðar.
 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall