Fréttir Greiningar

Meiri líkur á aukinni ríkisbréfaútgáfu

14.11.2013 09:45

nullAfar dræm þátttaka var í ríkisvíxlaútboði Lánamála í gær, og lækkaði staða útistandandandi ríkisvíxla um 5,7 ma.kr. í kjölfar útboðsins. Við teljum því meiri líkur en áður á talsverðu framboði ríkisbréfa á yfirstandandi fjórðungi, eða um allt að 16 ma.kr., en alls eru þrjú útboð fyrirhuguð til ársloka. Niðurstaðan gerir það jafnframt líklegra að Lánamál tefli fram nýjum flokki fyrir árslok.

Staða ríkisvíxla snarlækkar

Í 3ja mánaða víxilinn bárust alls tilboð upp á 2.526 m.kr. að nafnverði og var tilboðum fyrir 2.076 m.kr. tekið á 3,69% flötum vöxtum. Voru vextirnir 10 punktum hærri en í víxlaútboði októbermánaðar. Þá bárust alls tilboð fyrir 260 m.kr. í 6 mánaða víxlaflokkinn, og var þeim öllum hafnað. Á gjalddaga í nóvember eru víxlar fyrir 7,8 ma.kr. og lækkar því víxlastabbinn úr 27,9 mö.kr. niður í 22,2 ma.kr. Munar því 17,8 mö.kr. á stöðu útistandandi ríkisvíxla í nóvemberlok og því sem Lánamál áætla að hafa víxlastöðuna um næstu áramót.

Víxlaeign útlendinga vart svipur hjá sjón

Erlendir aðilar eiga bróðurpart þeirra ríkisvíxla sem eru á gjalddaga nú í nóvember, og í ljósi dræmrar þátttöku í útboðinu í gær má ætla að áhugi þeirra á ríkisvíxlum sé lítill þessa dagana. Miðað við upplýsingar upp úr Markaðsupplýsingum snertu erlendir aðilar ekki við ríkisvíxlum í útboðum í september og október, og nam víxlaeign þeirra í lok október aðeins 3,4 mö.kr. samanborið 18,0 ma.kr. í lok maí síðastliðnum. Ekki liggur hins vegar fyrir hverjir kaupendur voru í útboðinu í gær.

Munu Lánamál tefla fram nýjum flokki?

nullEins og áður segir teljum við að niðurstaðan í gær auki líkur á talsverðu framboði ríkisbréfa á fjórðungnum. Staða ríkisvíxla í lok september, þegar Lánamál ákváðu að auka ríkisbréfaútgáfuna um allt að 20 ma.kr. á síðasta fjórðungi ársins, var 18,3 ma.kr. Eins og áður segir standa þeir nú í 22,2 mö.kr., og út frá því má gróflega áætla að ríkisbréfaútgáfan til ársloka gæti numið 16 mö.kr., að því gefnu að víxlastaðan verði lítið breytt eftir síðasta víxlaútboð ársins í desember. Fjárhæð víxla sem eru á gjalddaga í desember er 2,8 ma.kr., og samkvæmt Markaðsupplýsingum eru þeir allir í eigu innlendra aðila. Þrjú ríkisbréfaútboð eru fyrirhuguð til ársloka, og er næsta útboð dagsett föstudaginn 22. nóvember. Verður fróðlegt að sjá hvort Lánamál tefli þá fram nýja flokknum, RIKB20, en aðrir flokkar sem koma til greina samkvæmt ársfjórðungsáætlun eru RIKB15, RIKB22 og RIKB31.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall