Fréttir Greiningar

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í nóvember

15.11.2013 09:17

nullVið spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,3% í nóvember frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir mun 12 mánaða verðbólga standa í stað í 3,6%. Verðbólguhorfur fyrir komandi ársfjórðunga virðast heldur hafa batnað undanfarið, þótt enn ríki veruleg óvissa um stóra áhrifaþætti á borð við kjarasamninga og aðgerðir hins opinbera. Hagstofan birtir VNV fyrir nóvember kl. 09:00 þann 27. nóvember næstkomandi.

Húsnæðisliður til hækkunar, eldsneyti til lækkunar

nullVið teljum að húsnæðisliður VNV muni vega langdrýgst til hækkunar hennar í nóvember. Vísbendingar af markaði eru á þá leið að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar þróun íbúðaverðs, muni hækka verulega og spáum við 1,1% hækkun á þeim lið. Er það viðsnúningur frá síðustu tveimur mánuðum, þar sem þessi liður hefur verið nánast óbreyttur. Í heild spáum við tæplega 0,7% hækkun á húsnæðislið VNV í nóvember (0,17% áhrif til hækkunar VNV). Þá gerum við ráð fyrir að matar- og drykkjarvöruverð hækki um tæp 0,4% á milli mánaða (0,05% í VNV). Þar munar mestu um hækkun á ávöxtum og kjöti. Á móti vegur 1,3% lækkun eldsneytisverðs milli mánaða (-0,07% í VNV), en eldsneyti hefur nú lækkað um tæp 3,6% frá júlí síðastliðnum.

Tímabundin hjöðnun verðbólgu framundan

nullVið gerum ráð fyrir nokkrum sveiflum í 12 mánaða takti verðbólgunnar næstu mánuði, enda var mikið flökt í mánaðarbreytingum VNV síðastliðinn vetur. Í desember gerum við ráð fyrir 0,4% mánaðarhækkun VNV, og gangi það eftir mun verðbólga í árslok reynast 4,0%. Það sem helst ýtir upp VNV í desember í spá okkar er hækkun á flugfargjöldum til útlanda, sem við teljum að taki loks kipp upp á við eftir umtalsverða lækkun frá júní síðastliðnum, áframhaldandi hækkun á húsnæðislið og frekari hækkun mat- og drykkjarvara. Í janúar spáum við óbreyttri VNV og í febrúar spáum við 1,1% hækkun. Að vanda munu gjaldskrárhækkanir og hækkun opinberra gjalda vega gegn útsöluáhrifum í janúar, en í febrúar vega þyngst útsölulok ásamt hækkun ferða- og flutningaliðar.

Verðbólgan fer samkvæmt spá okkar lægst í 3,1% í febrúar næstkomandi, en verður að jafnaði 3,4% á árinu 2014. Hins vegar teljum við að verðbólga aukist heldur að nýju þegar frá líður, og að hún verði að jafnaði 3,6% á árinu 2015. Að baki þeirri spá liggja þær forsendur að laun hækki að jafnaði um 5,7% á ári næstu tvö ár, íbúðaverð hækki nokkuð að raungildi og að gengi krónunnar veikist hægt. Til skemmri tíma litið er stærsti óvissuþáttur spárinnar útkoma yfirvofandi kjarasamninga, en þegar frá líður eru stærstu óvissuþættir m.a. niðurstaða í niðurfærslu verðtryggðra skulda, aðhald ríkisfjármála, þróun íbúðamarkaðar og gengisþróun krónu, svo nokkuð sé nefnt. Óvissan er heldur á þann veg að verðbólga gæti reynst meiri en hér er spáð.

Verðbólguspá fyrir nóvember

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall