Fréttir Greiningar

Er ferðaþjónustan að ná jafnvægi?

01.08.2018 12:17

Verulega hefur dregið úr vexti þjónustuútflutnings tengdum ferðamönnum það sem af er ári. Vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd skiluðu líklega svipuðum afgangi á fyrri hluta ársins og á sama tíma í fyrra. Horfur eru á að viðskiptaafgangur verði nokkru minni en í fyrra, en talsverður afgangur verði þó af utanríkisviðskiptum í heild.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar voru gistinætur ferðamanna á öllum tegundum gististaða tæplega 1,2 milljón talsins í júnímánuði. Var fjöldi gistinátta nánast óbreyttur frá sama mánuði í fyrra.

Athygli vekur að gistinóttum á hótelum fjölgaði um 4% í júní frá fyrra ári, en gistinóttum á öðrum tegundum gististaða fækkaði lítillega, þar með talið bókuðum gistinóttum í gegn um Airbnb og slíkar vefsíður.

Ef hinar nýju tölur Hagstofunnar eru bornar saman við tölur Ferðamálastofu um ferðir erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll kemur í ljós að síðarnefndu tölurnar sýna 5,4% fjölgun á milli ára í júní. Hugsanlegt er því að ferðamenn hafi að meðaltali dvalið heldur skemur á landinu nú í júní en í fyrra, en hafa ber í huga að gistináttatölurnar innihalda einnig Íslendinga þótt þeir séu í miklum minnihluta.

Þróun á fyrri helmingi ársins ber þess ótvíræð merki að jafnvægi virðist vera að komast á fjölda ferðamanna sem sækir Ísland heim. Brottförum erlendra farþega um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 5,5% á tímabilinu frá sama tíma í fyrra og gistinóttum á hótelum fjölgaði um 1,6%. Er þetta veruleg breyting frá síðustu árum þar sem tveggja stafa prósentutölur hafa jafnan einkennt fjölgunartaktinn í þessum tölum.

Tölur um kortaveltu erlendra ferðamanna segja áþekka sögu. Heildarvelta erlendra ferðamanna hér á landi, ef undan er skilinn liðurinn Ýmis þjónusta þar sem breytingar á þjónustukaupum frá færsluhirðum skekkja tölurnar, hefur að jafnaði aukist með sífellt hægari takti frá ársbyrjun 2017. Til gamans má nefna að í nýlegu viðtali á visir.is benti forstöðumaður RSV, sem heldur utan um skiptingu þessara talna, á að ferðamenn virtust í auknum mæli haga sér eins og hagsýnir neytendur. Hefði hlutfall dagvöru aukist umtalsvert í verslun þeirra en vöxturinn í sérvörum, lúxusvarningi og veitingaþjónustu verið hægari.

Horfur á nokkru minni viðskiptaafgangi í ár

En hvaða ályktanir má draga af þessari þróun um hvert stefnir í þjónustujöfnuði og viðskiptajöfnuði í heild? Eins og sjá má af myndinni hér fyrir neðan er allsterk fylgni milli ofangreindra hagvísa og þróunar þjónustuútflutnings eins og hann birtist í greiðslujafnaðartölum. Það er því nærtækt að draga þá ályktun að þjónustuútflutningur tengdur ferðalögum mælist svipaður, eða hugsanlega heldur meiri, á öðrum ársfjórðungi en var á sama tíma í fyrra. Þjónustuútflutningur í heild verður að sama skapi líklega á svipuðu róli á 2F og var í fyrra, en þá nam hann 163 mö.kr.

Nýlegar tölur Hagstofu leiddu í ljós að vöruskiptahalli nam ríflega 83 mö.kr. á fyrri árshelmingi í ár, samanborið við rúmlega 86 ma.kr. halla á sama tíma í fyrra. Þjónustuafgangur gæti hins vegar reynst heldur minni á tímabilinu en sá 103 ma.kr. afgangur sem mældist á þessum tíma 2017. Fljótt á litið virðist því sem samanlagt reynist afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum á fyrri árshelmingi í besta falli á svipuðum slóðum, en hugsanlega nokkru minni, en á fyrri árshelmingi 2017. Það rímar ágætlega við spá okkar fyrir viðskiptajöfnuð á árinu í heild. Í maí síðastliðnum spáðum við því að viðskiptaafgangur myndi minnka nokkuð milli ára og nema 3,0% af VLF, eða sem samsvarar ríflega 80 mö.kr., á yfirstandandi ári. Gangi spáin eftir má telja það vel viðunandi afgang eftir langa uppsveiflu og mikla hækkun raungengis krónu undanfarin ár.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall