Fréttir Greiningar

Víxlaeign erlendra aðila vart svipur hjá sjón

10.10.2013 11:57

nullErlendir krónueigendur hafa minnkað eign sína í ríkisvíxlum mikið á síðustu mánuðum. Nemur hún nú aðeins ríflega fjórðungi af því sem hún var í maí síðastliðnum. Á móti hafa erlendir aðilar aukið talsvert við eign sína í ýmsum ríkisbréfaflokkum með lengri líftíma. Þá hafa lífeyrissjóðir haldið áfram að bæta við sig í lengstu ríkisbréfaflokkunum undanfarið, og eru þeir nú stærstu eigendur ríkisbréfa með u.þ.b. 235 ma.kr. eign í slíkum bréfum. Þetta er meðal þess sem lesa má úr nýbirtum Markaðsupplýsingum Lánamála fyrir septembermánuð.

Úr 60 milljörðum í tæpa 5 milljarða

Samkvæmt Markaðsupplýsingum nam ríkisvíxlaeign erlendra aðila  4,7 mö.kr. í septemberlok. Hafði hún þá minnkað um  4,0 ma.kr. í mánuðinum, enda keyptu erlendir aðilar ekkert í víxlaútboði mánaðarins. Til samanburðar má nefna að ríkisvíxlaeign erlendra aðila nam 18,0 mö.kr. í lok maí síðastliðins og hefur hún því minnkað um 13,3 ma.kr. á fjórum mánuðum. Ríkisvíxlaeign útlendinga varð hins vegar mest u.þ.b. 60 ma.kr. í upphafi árs 2010, og er núverandi eign því einungis lítið brot af því sem mest varð eftir hrun. Á móti minnkandi ríkisvíxlaeign juku erlendir aðilar við eign sína í ríkisbréfaflokkunum RIKB22 og RIKB15. Mest munaði um 3,2 ma.kr. aukningu í eign þeirra í fyrrnefnda flokknum í kjölfar útboðs, en útlendingar eiga nú 9,9 ma.kr. í þeim flokki. Er það athyglisvert í ljósi þess að lokagjalddagi hans er eftir 9 ár, og teljum við framangreindar hreyfingar allar til marks um aukna þolinmæði aflandskrónueigenda, líkt og við höfum áður fjallað um.

Lífeyrissjóðirnir eru stærsti eigendahópur ríkisbréfa. Eign þeirra í septemberlok nam 235,1 mö.kr. og hafði þá aukist um 5,0 ma.kr. í mánuðinum. Þar af voru sjóðirnir atkvæðamiklir í útboði mánaðarins á lengsta óverðtryggðra ríkisbréfaflokknum, RIKB31, og keyptu þeir slík bréf fyrir 2,2 ma.kr. í útboðinu. Auk þess virðast sjóðirnir hafa verið virkir í kaupum á eftirmarkaði.

Útlendingar í styttri bréfum, lífeyrissjóðir í þeim lengri

nullSem fyrr er enn nokkuð skýr munur á eignarhlutdeild stærstu fjárfestahópanna í óverðtryggðum ríkisbréfum eftir tímalengd. Þannig áttu erlendir aðilar í septemberlok lungann úr stystu ríkisbréfaflokkunum þremur, auk 45% hlutar í millilanga flokknum RIKB19. Þeir eru því fyrirferðamestir á styttri hluta vaxtaferilsins, þrátt fyrir að þeir hafi jafnt og þétt seilst aftur eftir honum upp á síðkastið. Lífeyrissjóðir áttu hins vegar bróðurpartinn af lengstu ríkisbréfaflokkunum tveimur, og tæpan helming af þriðja lengsta flokknum. Verðtryggði ríkisbréfaflokkurinn RIKS21 sker sig svo nokkuð úr, en verðbréfasjóðir voru atkvæðamestir í  þeim flokki með tæp 38% útistandandi bréfa.

Lánamál tilkynntu í septemberlok að til stæði að gefa út allt að 20 ma.kr. af ríkisbréfum á síðasta fjórðungi ársins, og er útgáfa í venjulegum útboðum áætluð í flokkunum RIKB15, RIKB22 og RIKB31. Auk þess mun nýjum flokki, RIKB20, hugsanlega verða hleypt af stokkunum. Væntanlega munu erlendir aðilar að mestu einbeita sér að kaupum á fyrstnefndu flokkunum tveimur, auk hins nýja flokks, en lífeyrissjóðir hafa mestan áhuga á RIKB22 og RIKB31 í útboðum fjórðungsins.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall