Fréttir Greiningar

Verðbólga áfram 1,9% í janúar

27.01.2017 11:42

Verðbólga í janúar mælist 1,9% og er óbreytt frá síðasta mánuði samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga hefur verið undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans í þrjú ár samfleytt, og er útlit fyrir að svo verði enn um sinn. Styrking krónunnar síðustu misseri skýrir þessa þróun nær alfarið og þróun krónu mun ráða hvað mestu um hvort verðbólga helst áfram hófleg eða eykst á komandi fjórðungum. 

Vísitala neysluverðs (VNV) lækkaði um 0,57% í janúar. Mælingin var í takti við spá okkar, en opinberar spár lágu á bilinu 0,5% - 0,6% lækkun. Þar sem lækkun VNV var svipuð nú og í fyrra helst 12 mánaða verðbólgutakturinn óbreyttur í 1,9%. VNV án húsnæðis lækkaði hins vegar um 1,20% og miðað við þá vísitölu mælist 0,9% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Af þessu má sjá að verðbólguáhrif húsnæðis eru langt umfram verðbólguna sjálfa, og hefur bilið á milli verðbólgu miðað við VNV annars vegar, og verðbólgu m.v. VNV án húsnæðis hins vegar, breikkað talsvert.

Útsöluáhrif og krónustyrking helstu lækkunarvaldar

Líkt og við bjuggumst við höfðu útsölur veruleg lækkunaráhrif á VNV í janúar. Má þar nefna að föt og skór lækkuðu í verði um 10,0% (-0,42% áhrif í VNV), húsgögn og heimilisbúnaður um 10,3% (-0,15% í VNV), raftæki um 14,9% (-0,11%) og sjónvörp, myndbönd og tölvur um 5,6% (-0,07% í VNV). Þó voru útsöluáhrifin talsvert minni á fötum og skóm en við höfðum vænst, og í raun hefur lækkun þessar liðar aðeins einu sinni verið minni í janúar síðasta áratuginn. Á hinn bóginn var verðlækkun á heimilisbúnaði og raftækjum óvenju mikil nú í janúar, og sú mesta sem orðið hefur á þessari öld. Mikil styrking krónunnar frá miðju síðasta ári hefur að okkar mati ýtt undir myndarlega lækkun á síðarnefndu liðunum. Hún er einnig helsta skýring 3,4% lækkunar á bifreiðaverði á milli mánaða (-0,20% í VNV), en verð á nýjum bílum hefur nú lækkað um 7,3% frá ársbyrjun 2016.

Af öðrum lækkunarliðum má nefna að flugfargjöld til útlanda lækkuðu í verði um 12,2% (-0,13%), verð á þjónustu pósts og síma lækkaði um tæp 3,2% (-0,08% í VNV) og lyf og lækningavörur lækkuðu í verði um 1,2% (-0,02% í VNV).

Húsnæðisliður helsti hækkunarvaldur

Ýmsir undirliðir VNV höfðu þó áhrif til hækkunar í janúarmánuði. Eins og fyrri daginn vó húsnæðisliðurinn þar þyngst. Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar þróun íbúðaverðs að mestu leyti, hækkaði um 1,3% (0,22% í VNV) og í heild hafði húsnæðisliðurinn áhrif til 0,35% hækkunar VNV í janúar. Húsnæðisliðurinn hefur verið megin drifkraftur verðbólgu undanfarin misseri eins og endurspeglast glöggt í muninum á verðbólgunni miðað við VNV (1,9%) og VNV án húsnæðis (-0,9%). Af þessu má sjá að áhrif húsnæðis á verðbólgu eru 2,8%, og hafa þau færst verulega í aukana síðustu misserin.

Þá hækkaði eldsneytisverð um tæp 3,8% (0,14% í VNV) og er skýringanna á því bæði að leita í hækkun opinberra gjalda um áramót og í verðhækkun innflutningsverðs í krónum talið. Opinber gjöld skýra líka hækkun á áfengis- og tóbaksverði um 3,7% (0,12% í VNV), en þar af hækkaði tóbak í verði um 7,5% sem væntanlega má rekja til mikillar verðhækkunar á neftóbaki. Einnig hækkaði verð hótela og veitingastaða um tæp 0,8% (0,04% í VNV). Matvælaverð var hins vegar nánast óbreytt á milli mánaða í janúar, þar sem áhrifin af verðlækkun á ávöxtum og kjöti vógu á móti verðhækkun á mjólkurvörum.

Hófleg verðbólga svo lengi sem krónan styrkist

Horfur eru á að verðbólgutakturinn breytist ekki verulega næstu mánuði. Við spáum til bráðabirgða 0,6% hækkun VNV í febrúar, 0,5% hækkun í mars og 0,3% hækkun í apríl. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,1% í apríl næstkomandi.

Húsnæðisliðurinn leggur að jafnaði mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,18% í mánuði hverjum að jafnaði. Í febrúar og mars ganga útsöluáhrif til baka að mestu, en við gerum þó ráð fyrir að verð innfluttra vara á borð við föt, húsgögn og raftæki verði almennt lægra í lok ársfjórðungsins vegna styrkingar krónu og afnáms tolla á hluta þessara vara. Þá gerum við ráð fyrir að flugfargjöld lækki í febrúar, en hækki heldur að nýju í mars og apríl.

Framhald verðbólguþróunar mun að mati okkar ráðast að mestu leyti af gengisþróun krónu. Taki krónan að styrkjast að nýju með hækkandi sól má gera ráð fyrir að verðbólgan verði áfram undir markmiði Seðlabankans svo lengi sem áhrifa styrkingarinnar varir. Hins vegar getur slegið fljótt í bakseglin ef langt hlé verður á styrkingu krónu, eða hún tekur jafnvel að veikjast að ráði á nýjan leik. Innlendur kostnaðarþrýstingur vegna mikillar hækkunar launa og fasteignaverðs er verulegur, og mun hann fljótt segja til sín í verðbólguþróun ef innflutt verðhjöðnun verður ekki lengur til staðar eins og verið hefur undanfarin þrjú ár.

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall