Fréttir Greiningar

Spáum 0,4% hækkun neysluverðs í desember

12.12.2013 10:01

nullVið spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,4% í desember frá mánuðinum á undan. Gangi spáin eftir eykst verðbólga úr 3,7% í 4,0%, enda var VNV svo til óbreytt í desember í fyrra. Verðbólguhorfur næstu fjórðunga eru svipaðar og í síðustu spá okkar, og ríkir mikil óvissa um stóra áhrifaþætti á borð við kjarasamninga og aðhald í ríkisfjármálum . Hagstofan birtir VNV fyrir desember kl. 09:00 þann 20. desember næstkomandi.

Eldsneyti, húsnæði og flugfargjöld hækkunarvaldar

nullVið teljum að húsnæðisliður og ferða- og flutningaliður VNV muni vega langþyngst til hækkunar í desember. Vísbendingar af markaði eru um áframhaldandi hækkun íbúðaverðs, og gerum við ráð fyrir að reiknuð húsaleiga hækki um 0,8% í desember (0,11% í VNV) eftir 1,4% hækkun í nóvembermánuði. Þá virðast flugfargjöld til útlanda hafa hækkað verulega og spáum við 9% hækkun þeirra í desember (0,13% í VNV). Einnig hefur eldsneytisverð hækkað talsvert frá nóvembermælingu VNV, og vegur það til 0,08% hækkunar VNV. Aðrir þættir hafa minni áhrif, og skiptir þar ekki síst máli að krónan hefur verið að styrkjast undanfarnar vikur og því er innfluttur hækkunarþrýstingur óvenju lítill miðað vdið árstíma.

Verðbólga hjaðnar á fyrsta ársfjórðungi 2014

Við spáum samtals 1,2% hækkun VNV á fyrsta fjórðungi næsta árs. Þetta er talsvert minni hækkun en var á sama tímabili á yfirstandandi ári, og mun verðbólga samkvæmt spá okkar hjaðna niður í 3,1% í mars 2014. Í janúar næstkomandi gerum við ráð fyrir 0,2% lækkun VNV. Þar togast sem fyrr á gjaldskrárhækkanir og hækkun opinberra gjalda annars vegar, og útsöluáhrif hins vegar. Útlit er hins vegar fyrir að fyrrnefndi þátturinn verði léttvægari en oft áður þar sem Reykjavík og ýmis önnur sveitarfélög hafa áform um litla hækkun gjaldskráa sinna, auk þess sem áhrif hækkunar á óbeinum sköttum eru með minna móti. Í febrúar spáum við 1,0% hækkun VNV, að mestu fyrir tilstilli útsöluloka, auk þess sem við gerum ráð fyrir árstíðarhækkun flugfargjalda í þeim mánuði. Útsölulok koma einnig við sögu í mars, en þá gerum við ráð fyrir 0,4% hækkun VNV.

Verðbólga á svipuðum slóðum og nú næstu misseri

nullÍ kjölfar fyrsta fjórðungs næsta árs spáum við því að verðbólga aukist heldur að nýju. Gerum við ráð fyrir 3,4% verðbólgu að jafnaði á árinu 2014, og 3,7% verðbólgu á árinu 2015. Að baki þeirri spá liggja þær forsendur að laun hækki að jafnaði um 5,7% á ári næstu tvö ár, íbúðaverð hækki nokkuð að raungildi og að gengi krónunnar veikist hægt og bítandi. Til skemmri tíma litið er stærsti óvissuþáttur spárinnar útkoma yfirvofandi kjarasamninga, en þegar frá líður eru stærstu áhrifaþættir m.a. áhrif af aðgerðum stjórnvalda til lækkunar verðtryggðra skulda, aðhald ríkisfjármála, þróun íbúðamarkaðar og gengisþróun krónu, svo nokkuð sé nefnt.

Verðbólguspá fyrir desember

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall