Fréttir Greiningar

Versnandi verðbólguhorfur á komandi misserum

15.05.2015 10:22

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,3% í maí frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir eykst verðbólga úr 1,4% í 1,6%. Verðbólga er því áfram nokkuð undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans samkvæmt spánni.

Verðbólguhorfur hafa versnað verulega frá síðustu spá, að mestu vegna endurskoðunar á launaforsendu spárinnar en einnig vegna hraðari hækkunar húsnæðisverðs í spánni. Við teljum að verðbólgan muni verða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans stærstan hluta ársins, en fara yfir markmiðið á síðasta fjórðungi ársins. Horfur eru á vaxandi verðbólgu í kjölfarið, en hún verður þó samkvæmt spánni rétt innan þolmarka verðbólgumarkmiðsins næstu ár. Hagstofan birtir VNV fyrir maí kl. 09:00 þann 28. maí næstkomandi.

Eldsneyti og húsnæðisliður helstu hækkunarvaldar í maí

Hækkun eldsneytisverðs og húsnæðisliðar VNV skýrir tvo þriðju hluta hækkunarinnar í maí. Þrátt fyrir að verkfall lögfræðinga hjá hinu opinbera hafi að mestu komið í veg fyrir þinglýsingu kaupsamninga frá aprílbyrjun bendir könnun okkar til þess að reiknuð húsaleiga (sem byggir á 3ja mánaða hlaupandi meðaltali íbúðaverðs í kaupsamningum að mestu) muni hækka um u.þ.b. 0,5% í maí (0,07% áhrif í VNV). Að viðbættum áhrifum af hækkun greiddrar húsaleigu og viðhaldskostnaðar hefur húsnæðisliðurinn áhrif til 0,1% hækkunar VNV í maí.

Eldsneytisverð hefur hækkað talsvert frá aprílmælingu VNV, og nemur hækkunin um 2,4% skv. mælingu okkar (0,09% í VNV). Hækkunin kemur í kjölfar hækkunar eldsneytisverðs á alþjóðamörkuðum, en frá ársbyrjun hefur verð á Brent-olíu í Bandaríkjadollurum t.a.m. hækkað um 16%.

Af öðrum liðum sem hafa áhrif til hækkunar VNV nú má nefna að við spáum ríflega 7% hækkun á verði gistingar, nú þegar háannatíminn fer í hönd í ferðaþjónustunni. Hefur sú hækkun, ásamt lítilsháttar hækkun á verðlagningu veitingahúsa, áhrif til 0,04% hækkunar VNV. Þá spáum við 0,2% verðhækkun á mat og drykk (0,03% í VNV). Flugfargjöld munu hinsvegar lækka um 1,4% samkvæmt spánni (-0,02% í VNV). Aðrir þættir hafa minni áhrif, en vega samanlagt til 0,05% hækkunar VNV að þessu sinni.

Bætir í verðbólgutaktinn á næstunni

Við teljum að 12 mánaða taktur verðbólgunnar hafi náð lágmarki á fyrsta fjórðungi ársins, og að hann muni aukast allhratt það sem eftir lifir árs. Að hluta til er raunar um grunnáhrif að ræða, enda var verðbólguþróunin á seinni hluta síðasta árs óvenjulega hagfelld. Komu þar til bein og óbein áhrif af helmings lækkun olíuverðs á alþjóðamörkuðum ásamt fyrirfram áhrifum af yfirvofandi niðurfellingu vörugjalda og lækkun efra þreps VSK um síðustu áramót. VNV lækkaði þannig um 0,1% á síðari hluta ársins 2014, en undangengin 4 ári hafði vísitalan að jafnaði hækkað um 1,1% á síðari árshelmingi.

Horfur fyrir næstu mánuði hafa breyst til heldur meiri hækkunar VNV. Við teljum að vísitalan muni hækka um 0,4% í júní, lækka um 0,2% í júlí og hækka um 0,4% í ágúst. Gangi spáin eftir mun verðbólga mælast 1,8% í ágústmánuði. Í júní gerum við ráð fyrir að reiknuð húsaleiga hækki talsvert, að því gefnu að aftur verði farið að þinglýsa kaupsamningum á höfuðborgarsvæðinu. Þá áætlum við að flugfargjöld hækki talsvert í júní og júlí, en lækki að sama skapi í ágúst. Í júlí munu svo útsöluáhrif lita niðurstöðu VNV-mælingar Hagstofunnar að vanda, og á móti vega útsölulok til hækkunar VNV í ágúst.

Auk fyrrnefndra grunnáhrifa mun vaxandi hækkunarhraði VNV lita verðbólguþróunina á komandi misserum. Langtímaspá okkar gerir nú ráð fyrir mun meiri verðbólgu komandi 24 mánuði en raunin var í aprílspánni. Þar munar mestu að við höfum hækkað launaforsenduna í spánni umtalsvert í ljósi framvindu kjarasamninga undanfarnar vikur. Gerum við nú ráð fyrir 8,5% hækkun launavísitölu á yfirstandandi ári, og 7,5% hækkun yfir næsta ári. Þessi forsenda jafngildir því að samningsbundin laun hækki að jafnaði um 6,5–7,0% á þessu ári og 5,5–6,0% á því næsta. Þá höfum við einnig hækkað nokkuð spá okkar fyrir þróun íbúðaverðs í ljósi breyttrar launaforsendu og nýjustu hagtalna. 

Við spáum því að verðbólga fari yfir verðbólgumarkmið Seðlabankans á síðasta fjórðungi þessa árs, og mælist 3,2% í árslok. Enn mun bæta í verðbólguna á næsta ári, og gerum við ráð fyrir 3,8% verðbólgu í lok ársins 2016. Verðbólga verður samkvæmt spánni við efri mörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans stærstan hluta næsta árs, og ljóst að ekki þarf mikið til að hún fari yfir þolmörkin. Virðist okkur því sem það tækifæri sem gafst til að festa í sessi lága og stöðuga verðbólgu á Íslandi í kjölfar kjarasamninga í ársbyrjun 2014 hafi farið forgörðum og framundan sé gamalkunnugt tímabil meiri verðbólgu en samrýmist innri og ytri stöðugleika hagkerfisins til lengri tíma litið.

Verðbólguspá fyrir maí

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall