Fréttir Greiningar

Kortaveltujöfnuður aldrei hagstæðari

15.10.2013 12:40

nullKortaveltutölur Seðlabankans fyrir september sýna enn og aftur að ekkert lát er á tekjuvexti af erlendum ferðamönnum, og bendir allt til þess að ferðaþjónusta hafi skilað meiri gjaldeyristekjum nettó á 3. ársfjórðungi en nokkru sinni fyrr.

Heildarúttekt erlendra greiðslukorta hérlendis nam 8,2 mö.kr. í septembermánuði sem jafngildir aukningu upp á tæp 22% á milli ára, í krónum talið. Í sama mánuði nam kortavelta Íslendinga erlendis 6,9 mö.kr. og var kortaveltujöfnuður, þ.e. mismunur á kortaveltu útlendinga hérlendis og Íslendinga erlendis, þar með jákvæður um rúmlega 1,3 ma.kr. í mánuðinum. Er hér um langmesta afgang sem verið hefur á kortaveltujöfnuði í septembermánuði. Í raun hefur kortaveltujöfnuður aðeins tvisvar sinnum áður komið út með jákvæðum formerkjum í september, en í fyrra hljóðaði afgangurinn upp á 163 m.kr. og árið 2009 þegar utanlandsferðir Íslendinga voru í lágmarki eftir hrun hljóðaði hann upp á 392 m.kr. Vart þarf að nefna að fyrir hrun var kortaveltujöfnuður ávallt í halla hvern einasta mánuð ársins.

Jákvætt fyrir gengi krónunnar

nullÞróunin á kortaveltutölunum var einnig mjög hagstæð bæði í júlí og ágúst síðastliðnum, og bendir því allt til þess að metafgangur sé í uppsiglingu á þjónustujöfnuði vegna ferðalaga á 3. ársfjórðungi nú í ár. Alls hafa útlendingar straujað kortin sín fyrir rúma 37,9 ma.kr. hér á landi á fjórðungnum á sama tíma og kortavelta Íslendinga í útlöndum nemur 20,8 mö.kr. Hljóðar afgangurinn af kortaveltujöfnuði á 3. ársfjórðungi þannig upp á 17,1 ma.kr. samanborið við 13,1 á sama tímabili í fyrra og 9,5 ma.kr. árið þar á undan.

Á fyrri helmingi ársins nam afgangur af þjónustujöfnuði 19,9 mö.kr. en hafði á sama tímabili í fyrra verið 2,0 ma.kr. Allt árið 2012 nam afgangurinn af þjónustujöfnuði 26,3 mö.kr. Miðað við að 3. ársfjórðungur er ávallt langhagstæðastur hvað þjónustujöfnuð varðar bendir allt til þess að afgangur af þjónustujöfnuði á árinu í heild verði umtalsvert meiri en í fyrra. Eru það mjög jákvæð tíðindi fyrir gjaldeyrisflæði til og frá landinu, sem ræður gengi krónunnar og er þessi þróun sérstaklega mikilvæg í ljósi þess að vöruskiptaafgangur lítur út fyrir að verða nokkru minni í ár en í fyrra.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall