Fréttir Greiningar

Útlit fyrir myndarlegan vöxt einkaneyslu

15.09.2014 11:37

Ef marka má kortaveltutölur er útlit fyrir að vöxtur einkaneyslu á 3. fjórðungi ársins verði myndarlegur, þótt heldur hægi á honum frá fyrri árshelmingi. Þetta má sjá í tölum sem Seðlabankinn birti nýverið tölur um greiðslukortaveltu til og með ágústmánuði síðastliðnum. Þar kemur fram að 1,5% samdráttur varð á heildarveltu innlendra debetkorta að nafnvirði í ágúst, en veltan nam alls 36,8 mö. kr. Hins vegar jókst heildarvelta kreditkorta um 10,6% að nafnvirði á milli ára á sama tíma, en slík velta nam alls 35,2 mö. kr.

Hraður vöxtur veltu utan landsteina

Að raungildi jókst kortavelta einstaklinga milli ára um 5,4% í ágústmánuði. Þar af jókst kortavelta innanlands að raungildi um 4,2% en kortavelta erlendis um 14,7%. Er það áframhald á þróun sem hefur verið ríkjandi undanfarið, en það sem af er ári hefur kortavelta erlendis aukist um ríflega 19% að raungildi frá fyrra ári á meðan kortavelta innanlands hefur aukist um 3,2% á sama tíma. Þessi hraði vöxtur kortaveltu erlendis er væntanlega bæði til kominn vegna mikils vaxtar í viðskiptum við erlendar netverslanir og aukinna utanlandsferða landsmanna. Á fyrstu átta mánuðum ársins fjölgaði utanlandsferðum Íslendinga til að mynda um 8,7% frá fyrra ári.

Dregur lítillega úr vextinum

Það sem af er 3. ársfjórðungi nemur raunvöxtur kortaveltu 3,5% frá sama tíma í fyrra. Til samanburðar var vöxturinn  5,3% á fyrri árshelmingi . Hefur því  heldur hægt á vextinum á þennan kvarða, en rétt er að hafa í huga að talsverðar sveiflur eru í þessum tölum á milli mánaða. Það sem af er ári nemur kortaveltuvöxturinn 4,8% frá fyrra ári. Vöxtur kortaveltu að raungildi gefur ágæta vísbendingu um vöxt einkaneyslu, enda fer meginhluti neysluútgjalda landsmanna um greiðslukortin. Má gera því skóna, miðað við kortaveltutölurnar, að vöxtur einkaneyslu reynist allhraður á yfirstandandi ári. Í þjóðhagsspá okkar sem út kom í maí síðastliðnum spáðum við 4,2% vexti einkaneyslu á þessu ári, og styðja kortaveltutölurnar það sem af er ári við þá spá.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall