Fréttir Greiningar

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í desember

11.12.2014 09:53

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) hækki um 0,3% í desembermánuði frá mánuðinum á undan. Gangi spáin eftir hjaðnar verðbólga úr 1,0% í 0,8%, og fer þar með undir neðri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans. Hefur verðbólga ekki verið minni síðan í september 1998 ef spáin rætist.  

Verðbólguþrýstingur er nú með minnsta móti til skemmri tíma litið, og eigum við von á lágum verðbólgutölum næstu mánuðina. Við teljum raunar að verðbólgan muni verða undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans út næsta ár. Í kjölfarið spáum við aukinni verðbólgu samhliða því að hjól hagkerfisins taka að snúast hraðar, þótt verðbólga verði áfram í grennd við markmið Seðlabankans. Hagstofan birtir VNV fyrir desember kl.09:00 þann 19. desember næstkomandi.

Veruleg hækkun flugfargjalda

Helsti hækkunarliður VNV að þessu sinni er flugfargjöld til útlanda, og raunar stæði vísitalan í stað milli mánaða ef ekki kæmu til 0,34% hækkunaráhrif vegna þessa liðar. Athugun okkar bendir til þess að það kosti umtalsvert meira að fljúga milli landa í jólamánuðinum en næstu mánuði á undan, en hins vegar gengur sú hækkun að verulegu leyti til baka strax í janúar að okkar mati. 

Eldsneyti lækkar, og meiri lækkun væntanleg

Eldsneyti hefur lækkað talsvert í verði á undanförnum vikum, enda hefur heimsmarkaðsverð á olíu hrapað um ríflega fimmtung í krónum talið frá nóvemberbyrjun, og verð tengdra afurða lækkað í svipuðum takti erlendis. Hefur verðlækkun eldsneytis -0,13% áhrif í VNV í desember að okkar mati.

Við gerum í kjölfarið ráð fyrir enn frekari lækkun eldsneytisverðs á komandi mánuðum, enda teljum við þar enn vera svigrúm til töluverðrar verðlækkunar í ljósi þróunar og horfa erlendis. Þar við bætist að olíugjöld munu ekki hækka um næstu áramót og virðisaukaskattur á eldsneyti lækkar. Eldsneytisverð hefur reyndar þegar lækkað um u.þ.b. 1,3% frá mælingu Hagstofunnar fyrir desembergildi VNV, og eigum við von á að verðið lækki frekar á næstu vikum. Teljum við að eldneytisliðurinn hafi samtals áhrif til u.þ.b. 0,2% lækkunar VNV í janúar og febrúar á næsta ári, en sú spá er byggð á tiltölulega hóflegri viðbótarlækkun eldsneytisverðs og gætu áhrifin hæglega orðið meiri.

Lækkunaráhrif af íbúðaverði og afnámi vörugjalda

Reiknuð húsaleiga, sem endurspeglar að mestu íbúðaverð, lækkaði nokkuð óvænt í nóvember. Við teljum að liðurinn lækki að nýju í desember (-0,04% áhrif í VNV), og byggjum þar á verðathugun okkar. Síðustu mánuði hefur orðið nokkur viðsnúningur í þessum lið, og verður fróðlegt að sjá hvernig þróun hans verður á nýju ári þótt líklegt sé að hagstæðara vaxtaumhverfi og áhrif af skuldalækkun stjórnvalda muni styðja við íbúðaverð á næstunni.

Við teljum ljóst að frekari áhrif vegna fyrirhugaðs afnáms almennra vörugjalda muni koma fram í verði heimilis- og raftækja í desember (-0,03% í VNV), og einnig gerum við ráð fyrir nokkurri verðlækkun á fötum og skóm (-0,02%). Hins vegar gerum við ráð fyrir að matvara hækki nokkuð í jólamánuðinum (0,02% í VNV). Aðrir liðir hafa minni áhrif að þessu sinni.

Lítil hækkun VNV á fyrsta fjórðungi 2015

Við spáum 0,8% lækkun VNV í janúar 2015, 0,5% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun í mars. VNV hækkar því um 0,1% yfir ársfjórðunginn í heild. Líkt og jafnan munu vegast á útsöluáhrif annars vegar, og hækkun gjaldskráa hins vegar í janúarmælingu VNV. Því til viðbótar hafa breytingar á virðisaukaskatti og vörugjöldum talsverð áhrif í næsta mánuði. Þótt töluverður hluti áhrifa af afnámi almennra vörugjalda verði þegar kominn fram um áramót teljum við að á heildina litið hafi skattbreytingarnar lítils háttar áhrif til lækkunar VNV í janúar. Þá gerum við ráð fyrir verulegri lækkun flugfargjalda þegar hátíðarverðskrá flugfélaganna víkur fyrir hversdagsverði að nýju. Loks koma til áhrif af lækkun eldsneytisverðs, líkt og við nefndum að framan.

Í febrúar og mars munu áhrif útsöluloka verða töluverð líkt og fyrri ár, en að gefnum þeim forsendum að gengi krónu haldist stöðugt og ekki verði komin fram kostnaðaráhrif af nýjum kjarasamningum á almennum vinnumarkaði verður annar verðþrýstingur í hóflegra lagi í mánuðum tveimur.

Verðbólga undir markmiði Seðlabankans út árið 2015

Samkvæmt spá okkar mun verðbólga að jafnaði mælast 0,6% á 1. fjórðungi ársins 2015. Í kjölfarið bætir jafnt og þétt í verðbólgutaktinn, og gerum við ráð fyrir að verðbólga verði 2,1% í lok næsta árs. Árið 2016 mun svo bæta í verðbólguna að okkar mati, og spáum við 2,8% verðbólgu yfir það ár. Ástæður aukinnar verðbólgu eru allhröð hækkun launa á almennum vinnumarkaði, áframhaldandi raunhækkun húsnæðisverðs og öllu meiri innflutt verðbólga en verið hefur undanfarið. Verðbólga verður þó nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans í lok spátímans, og haldi fram sem horfir verður um að ræða lengsta tímabil lágrar og stöðugrar verðbólgu í hálfan annan áratug.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall