Fréttir Greiningar

Verðbólga óbreytt í febrúar

27.02.2017 12:00

Febrúarmæling Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs (VNV) var í samræmi við flestar spár, en ýmsir undirliðir hreyfðust þó með óvæntum hætti. Verðbólga er óbreytt í 1,9%, og útlit er fyrir að verðbólgan verði áfram undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans enn um sinn.

Samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar hækkaði VNV um 0,71% í febrúar. Opinberar spár hljóðuðu ýmist upp á 0,7%, sem m.a. var okkar spá, eða 0,8% hækkun. Kom niðurstaðan því ekki á óvart. Verðbólga mælist nú 1,9%, þriðja mánuðinn í röð. VNV án húsnæðis hækkaði um 0,59% í febrúar og m.v. þá vísitölu mælist 1,0% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði, enda hefur hækkun húsnæðisliðar vísitölunnar haft langmest að segja um hækkun hennar undanfarið.

Óvænt dreifing á útsöluáhrifum

Áhrif útsöluloka á VNV eru ávallt veruleg í febrúar, og var einnig svo að þessu sinni. Á heildina voru þessi áhrif í takti við það sem við höfðum búist við. Þeir vöruflokkar þar sem þessi áhrif eru sterkust hegðuðu sér hins vegar með nokkuð óvæntum hætti. Annars vegar hækkaði undirliðurinn húsgögn, heimilisbúnaður o.fl. langt umfram okkar væntingar. Hækkun hans nam 7,6% að þessu sinni (0,29% áhrif í VNV). Vó þar þungt hækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði um 8,8% (0,11% í VNV) og 19,3% hækkun raftækja (0,12% í VNV). Síðastnefnda hækkunin kemur mjög á óvart, enda er hún langt umfram lækkun þess liðar í janúar auk þess sem styrking krónu ætti öðru jöfnu að dempa verðhækkunina eftir útsölur á þessum vörum.

Hins vegar hækkuðu föt og skór óvenju lítið í verði miðað við þennan mánuð síðustu ár. Hækkunin nam einungis 0,72% á heildina litið (0,03% í VNV), og er miklu minni en við áttum von á. Þar ræður miklu að skór lækkuðu í verði um 3,9% í febrúar (-0,03% í VNV), en það hefur ekki gerst í þessum mánuði síðustu fimm árin. Þá var verðhækkun á fötum með hóflegasta móti miðað við síðustu ár, en hún nam 1,7% (0,05% í VNV). Hér gæti styrking krónu verið að skila sér, auk þess sem samkeppni í þessum geira fer nú harðnandi.

Húsnæðisliður VNV hækkaði um tæpa prósentu í febrúarmánuði (0,30% í VNV). Þessi mikla hækkun kemur okkur nokkuð á óvart, en hún skýrist af 1,7% hækkun reiknaðrar húsaleigu (0,29% í VNV). Sá liður endurspeglar fyrst og fremst breytingar á markaðsverði íbúðarhúsnæðis, og hafði athugun okkar bent til þess að hækkun hans yrði hófleg að þessu sinni. Annað kom svo á daginn, og var hækkunin sér í lagi mikil á landsbyggðinni. Miðað við mælingar Hagstofu hefur íbúðaverð á landsbyggðinni hækkað um 19% undanfarið ár, fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu um nærri 16% og sérbýli á höfuðborgarsvæði um ríflega 14%. Virðist sem nú bæti jafnt og þétt í hækkunartaktinn á íbúðaverði á sama tíma og hægir á kaupmáttaraukningu heimilanna. Þetta hlýtur að teljast nokkuð áhyggjuefni, því hingað til hefur verið allgott samræmi milli þessara stærða sem gefa til kynna hvort samræmi sé milli greiðslugetu heimilanna og verðþróunar íbúðarhúsnæðis.

Af öðrum liðum sem hækkuðu að þessu sinni í VNV má nefna að verð á flugfargjöldum hækkaði um 3,9% (0,04% í VNV) og eldsneytisverð hækkaði um tæpa prósentu (0,04% í VNV). Aftur á móti lækkaði verð á póst- og símaþjónustu um 3,1% (-0,08% í VNV). Lækkunin er alfarið vegna símaþjónustu, sem lækkar um 3,9%, en þessi liður hefur nú lækkað um ríflega fimmtung undanfarið ár.

Gengisstyrking og hækkun húsnæðisverðs togast á næsta kastið

Horfur eru á að verðbólgutakturinn breytist ekki verulega næstu mánuði, enda eigum við von á að hækkun VNV verði á svipuðum nótum í mánuði hverjum fram á vorið og var í fyrra. Sem fyrr togast á áhrif styrkingar krónu og hækkunar húsnæðisverðs í vísitölumælingunum næsta kastið. Mikill hraði hefur verið á styrkingu krónunnar frá febrúarbyrjun, og m.v. gengisvísitölu hefur krónan ekki verið sterkari frá því um miðjan júlí 2008, nokkru áður en gjaldeyrishöftin voru innleidd. Verði ekki lát á þessari hreyfingu mun hún skila sér í meiri verðlækkun á erlendum vörum, fyrst vörum á borð við eldsneyti og matvöru sem hafa mikinn veltuhraða en í kjölfarið á öðrum innfluttum neysluvörum.  Verðbólga gæti því þokast niður á við með hækkandi sól ef ekki dregur úr styrkingarhraða krónunnar á næstunni. Hér má nefna að IKEA tilkynnti í síðustu viku um 10% meðalverðlækkun á vörum sínum vegna gengisþróunar krónu. Verslunin hefur verulega markaðshlutdeild í húsgögnum, heimilisbúnaði, ýmsum vefnaðarvörum o.fl., og gæti lækkun hennar ein og sér vegið til allt að 0,1% minni hækkunar VNV í mars en við spáðum.

Á móti er svo ekki á vísan á róa hvernig húsnæðisliður VNV mun þróast á næstunni eftir þann mikla gang sem verið hefur á hækkun fasteignaverðs undanfarið. Kraftarnir tveir sem helst togast á um verðbólguþróunina gætu því tekist á af auknum krafti næsta kastið, og verður fróðlegt að sjá hvort hefur þar vinninginn.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall