Fréttir Greiningar

Útlit fyrir hraðan einkaneysluvöxt á 2. ársfjórðungi

16.07.2014 09:50

Raunvöxtur kortaveltu einstaklinga í júní síðastliðnum nam 7,3% frá sama mánuði í fyrra samkvæmt tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun. Þar af jókst kortavelta innanlands að raungildi um 5,6% en kortavelta erlendis um 20,6%. Vöxturinn er á svipuðum nótum og hann var í maí sl., og bendir allt til þess að vöxtur einkaneyslu muni mælast umtalsverður á 2. fjórðungi ársins. 


Að jafnaði óx kortavelta einstaklinga um 5,1% að raungildi á 2. ársfjórðungi 2014 frá sama tíma árið áður. Þar af jókst kortavelta innanlands um 3,4% en kortavelta erlendis um 19,0%. Aðrar vísbendingar um neyslu heimilanna eru á sama veg. Þannig var gríðarleg fjölgun á nýskráningum bifreiða samkvæmt tölum frá Samgöngustofu, en bifreiðakaup eru stór hluti þeirrar einkaneyslu sem ekki er greidd með greiðslukortum. Einnig má nefna að Væntingavísitala Gallup (VVG) tók heldur betur við sér í júní sl., og fór upp fyrir 100 stigin og jafnframt í sitt hæsta gildi frá því í febrúar 2008. Sömu sögu má segja af nýjustu ársfjórðungsmælingu stórkaupavísitölu Gallup, sem birt var samhliða VVG í júnímánuði, sem náði einnig sínu hæsta gildi frá september 2008. Þýðir það m.ö.o. að íslenskir neytendur eru líklegri til þess að ráðast í stórkaup nú en þeir hafa verið frá hruni, þ.e. að festa kaup á húsnæði eða bifreið á næstu 6 mánuðum, eða ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum. Í þessu sambandi má nefna að tölur Ferðamálastofu hafa sýnt mikla fjölgun í utanlandsferðum, og í raun höfðu ekki jafn margir Íslendingar haldið erlendis í einum mánuði og í júní sl. síðan fyrir hrun. 

Talsverður vöxtur einkaneyslu á árinu 

Sé tekið mið af fyrri helming ársins þá hefur kortavelta einstaklinga aukist um 5,3% að raunvirði frá sama tímabili í fyrra. Við teljum líkt og aðrir að einkaneyslan muni vega mun þyngra í hagvexti þetta árið en hún gerði í fyrra þegar utanríkisviðskipti, þá sér í lagi gríðarlegur vöxtur ferðaþjónustunnar, drógu hagvaxtarvagninn að langmestu leyti. Ríma því tölur fyrir þróunina það sem af er ári ágætlega við spá okkar um 4,2% einkaneysluvöxt á árinu í heild, en þar gerðum ráð fyrir að eitthvað myndi hægja á vexti einkaneyslunnar eftir því sem liði á árið. 


Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall