Fréttir Greiningar

Spáum 0,5% hækkun VNV í desember

07.12.2017 09:09

 

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,5% í desember frá fyrri mánuði. Miðað við þá spá eykst 12 mánaða verðbólga úr 1,7% í 2,1%.

Verðbólguhorfur til meðallangs tíma hafa lítið breyst á heildina litið frá síðustu spá. Á móti meiri hækkun VNV næstu mánuði vegur að við drögum nokkuð úr hækkun íbúðaverðs í langtímaspá okkar í ljósi nýrra gagna af íbúðamarkaði. Hagstofan birtir VNV fyrir desember kl.9 þann 21. þessa mánaðar. 

Tekur flugið flugið á aðventunni?

Óvæntu tíðindi desembermælingarinnar verða að okkar mati veruleg hækkun á flugfargjöldum. Mæling okkar gefur til kynna að liðurinn muni hækka um ríflega þriðjung í mánuðinum (0,33% áhrif í VNV) og raunar gætu áhrifin orðið enn meiri miðað við sumar vísbendingar. Þessi áhrif verða þó tímabundin og munu ganga að miklu leyti til baka mánuðina á eftir. Í heild vegur liðurinn Ferðir og flutningar til 0,39% hækkunar VNV í spá okkar, og bætast þar við flugfargjöldin áhrif af lítilsháttar hækkun á bifreiðaverði, eldsneytisverði og viðhaldskostnaði.

Að ferða- og flutningaliðnum slepptum mun reiknuð húsaleiga væntanlega hafa mestu áhrifin (0,10% í VNV) til hækkunar í desember, en könnun okkar gefur til kynna u.þ.b. 0,5% hækkun á þessum lið. Í heild vegur húsnæðisliðurinn til 0,13% hækkunar VNV skv. spá okkar.

Að öðru leyti er spáin fremur tíðindalítil, og fátt sem vegur til lækkunar að þessu sinni. Þó gerum við ráð fyrir að lækkun lyfjaverðs vegi til 0,02% lækkunar VNV í desember, verð á raftækjum ýmiskonar til 0,02% lækkunar, og lækkun á fataverði og símaþjónustu til 0,01% lækkunar VNV hvor liður.

Verðbólga stefnir í verðbólgumarkmið á næstu mánuðum

Útlit er fyrir að bæta muni í verðbólgu næstu mánuðina. Við spáum 0,4% lækkun VNV í janúar nk., 0,7% hækkun í febrúar og 0,4% hækkun í mars. Verðbólga mun samkvæmt því mælast 2,6% í mars 2018.

Húsnæðisliðurinn leggur mest til hækkunar VNV á tímabilinu, eða 0,16% í mánuði hverjum að jafnaði. Við höfum þó dregið úr hækkunartakti íbúðaverðs í spá okkar, bæði til skemmri og lengri tíma, í ljósi nýlegra vísbendinga af íbúðamarkaði. í janúar munu að vanda togast á árviss áhrif af hækkun opinberra krónutölugjalda og ýmissa verðskráa annars vegar, og lækkunaráhrif af útsölum hins vegar. Einnig mun hækkun flugfargjalda ganga að verulegu leyti til baka í janúar skv. spá okkar. Útsölulok munu svo að vanda setja svip sinn á mælingu febrúar og mars. 

Verðbólga nærri markmiði næstu ár

Útlit er fyrir hóflega verðbólgu hérlendis á spátímabilinu svo lengi sem gengi krónu gefur ekki verulega eftir. Við gerum ráð fyrir að gengi krónu verði í stórum dráttum á svipuðum slóðum á spátímanum og það hefur verið að jafnaði síðustu mánuði. Þá gerum við ráð fyrir að jafnt og þétt dragi úr hækkunartakti íbúðaverðs og launa eftir því sem líður á spátímann, og höfum við sem fyrr segir dregið nokkuð úr hækkun íbúðaverðs í spá okkar fyrir komandi misseri, sér í lagi á árinu 2018.

Við teljum að verðbólga verði við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans á fyrri hluta næsta árs, en aukist í kjölfarið og verði 3,1% í árslok 2018. Árið 2019 spáum við 2,9% verðbólgu að jafnaði. Það má því segja að miðað við spá okkar verði verðbólga að jafnaði í næsta nágrenni við markmið Seðlabankans fram til ársloka 2019.

Nokkur óvissa er um þróun íbúðaverðs næstu fjórðunga í ljósi breytinga á íbúðamarkaði undanfarið. Liggur þar helsti óvissuþáttur til lækkunar frá spánni að okkar mati. Á móti gæti hröð hækkun launakostnaðar reynst þrálátari þegar frá líður en við gerum ráð fyrir. Þróun krónu er svo óvissuþáttur líkt og ávallt er raunin, en þar er óvissan í stórum dráttum samhverf að mati okkar.

Verðbólguspá desember 2017

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall