Fréttir Greiningar

Vikan: Verðbólga, laun og vinnumarkaður

21.10.2013 11:03

Nokkrir áhugaverðir hagvísar líta dagsins ljós nú í vikunni sem margir hverjir lúta að þróun septembermánaðar. Má hér nefna vísitölur launa og kaupmáttar sem Hagstofa Íslands birtir mánaðarlega, og tölur úr vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar sem hefur að geyma ýmsar fróðlegar upplýsingar um stöðuna á vinnumarkaði. Einnig mun Hagstofan birta vísitölu neysluverðs (VNV) fyrir októbermánuð, en hún verður birt kl. 09:00 næstkomandi föstudag.

Spáum 0,3% hækkun neysluverðs í október

Eins og við greindum nýlega frá í Morgunkorni okkar þá gerum við ráð fyrir 0,3% hækkun VNV í október frá fyrri mánuði. Gangi spá okkar eftir mun 12 mánaða verðbólga standa í stað í 3,9%.

nullSpá okkar fyrir októbermánuð er 0,2 prósentum lægri en fyrri bráðabirgðaspá. Breytingin skrifast á þrjá liði sem allir vega nokkuð þungt og virðast vera að þróast með öðrum hætti en við bjuggumst við. Þar má fyrst nefna að athugun okkar bendir til þess að reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar markaðsverð á íbúðarhúsnæði, muni standa í stað eða jafnvel lækka lítillega í októbermælingu VNV, en við höfðum áður gert ráð fyrir nokkurri hækkun. Þá hefur eldsneytisverð lækkað um 1,5% (-0,09% í VNV) frá septembermælingu vísitölunnar. Í þriðja lagi gerðum við ráð fyrir verulegri hækkun flugfargjalda til útlanda í bráðabirgðaspá, en könnun okkar bendir til þess að það verði ekki raunin.

Matur og drykkur er sá liður sem mest vegur til hækkunar (0,11% í VNV) í spá okkar. Að verulegu leyti skrifast það á ríflega 3% hækkun á mjólk og mjólkurvörum sem tók gildi um síðustu mánaðamót. Auk þess er útlit fyrir hækkun á kjöti, fiski og ávöxtum. Þá teljum við að tómstundir og menning muni vega til 0,06% hækkunar VNV, og er þar að mestu um árstíðabundin áhrif að ræða. Verðhækkun á húsgögnum og heimilisbúnaði vegur svo til 0,04% hækkunar VNV í spá okkar. Aðrir þættir hafa minni áhrif.

Hægir á kaupmáttaraukningu launa

nullHagstofan mun birta launavísitölu sína fyrir septembermánuð á morgun. Í ágúst sl. hækkaði launavísitalan um 0,2% frá fyrri mánuði, en sú hækkun kom í kjölfarið á 0,1% lækkun í júlí. Frá því í ágúst í fyrra nemur hækkun launavísitölunnar 5,7%, en frá því að áhrifa kjarasamningsbundinnar hækkunar á fyrsta ársfjórðungi hætti að gæta nemur hækkun vísitölunnar einungis 0,6%. Virðist launaskrið þar með vera fremur lítið þessa dagana. Þó gæti hafa orðið dágóð hækkun á launavísitölunni í september þar sem oft koma álagsgreiðslur og annað slíkt inn í laun að nýju í þessum mánuði eftir að hafa verið í lágmarki yfir sumartímann.

Vísitala neysluverðs hafði hækkað um 0,3% í ágúst, og dróst kaupmáttur launa því saman um 0,1% í mánuðinum. Þar sem kaupmáttur launa jókst um 0,2% í sama mánuði í fyrra dró töluvert úr 12 mánaða taktinum á milli júlí og ágúst sl., en hann fór úr 1,6% í 1,3%, en svo hægur hefur takturinn ekki verið síðan í febrúar sl.

Verulegur bati á vinnumarkaði

nullHagstofan mun birta niðurstöðu úr Vinnumarkaðsrannsókn sinni á miðvikudag. Rannsókn ágústmánaðar benti til þess að mun meiri gangur hafi þá verið í vinnumarkaði nú en á sama tíma í fyrra, og virðist gangurinn í raun ekki hafa verið meiri síðan fyrir hrun. Samkvæmt könnuninni var atvinnuleysi 4,4% í ágúst sl. samanborið við 5,7% á sama tíma í fyrra. Sé tekið mið af fjölda einstaklinga án atvinnu þá voru þeir 8.300 talsins í ágúst í ár en höfðu verið 10.100 í ágúst í fyrra. Mun meiri breyting var á fjölda starfandi, en á sama tímabili fjölgaði þeim úr 166.300 í 180.000 og hlutfall starfandi óx úr 74,4% í 79,3%.

Sé tekið mið af fyrstu átta mánuðum þessa árs hefur atvinnuleysi samkvæmt könnun Hagstofunnar að jafnaði mælst 5,7% samanborið við 6,7% á sama tímabili í fyrra. Á sama tíma hefur fjöldi starfandi farið úr 169.100 í 174.400, og hlutfall starfandi úr 75,6% í 77,0%. Þessi fjölgun starfandi hefur jafnframt leitt til þess að heildarvinnustundum, sem er mælikvarði á ársverk, hefur fjölgað töluvert á milli ára. Vinnuvikan hefur hins vegar lítið breyst. Hefur heildarvinnustundum í hagkerfinu fjölgað um 3,4% á milli ára sé tekið mið af fyrstu átta mánuðum ársins, og er óhætt að segja að það sé dágóð aukning.
 

Dags.

Efni

Heimild

21.okt.13

Vísitala byggingarkostnaðar fyrir nóvember 2013

Hagstofa Íslands

21.okt.13

Vísitala lífeyrisskuldbindinga í september 2013

Hagstofa Íslands

22.okt.13

Vísitala kaupmáttar launa í september 2013

Hagstofa Íslands

22.okt.13

Mánaðarleg launavísitala í september 2013

Hagstofa Íslands

22.okt.13

Greiðslujöfnunarvísitala í nóvember 2013

Hagstofa Íslands

22.okt.13

Heildarsala skuldabréfa í verðbréfaútboðum í september 2013

Seðlabanki Íslands

22.okt.13

Vinnumarkaðsrannsókn, september 2013

Hagstofa Íslands

23.okt.13

Marel birtir uppgjör fyrir 3. ársfjórðung 2013

Marel

23.okt.13

Össur birtir uppgjör fyrir 3. ársfjórðung 2013

Össur

23.okt.13

Viðskipti með atvinnuhúsnæði í september 2013

Þjóðskrá Íslands

24.okt.13

Reikningar bankakerfis í september 2013

Seðlabanki Íslands

24.okt.13

Hagar birtir uppgjör fyrir 2. ársfjórðung 2013

Hagar

24.okt.13

Vísitala neysluverðs í október 2013

Hagstofa Íslands

25.okt.13

Efnahagsyfirlit verðbréfa-, fjárfestingar- og fagfjárfestasjóða í september 2013

Seðlabanki Íslands

25.okt.13

Efnahagsyfirlit ýmissa lánafyrirtækja í september 2013

Seðlabanki Íslands

24.okt.13

Útgáfa Hagvísa Seðlabankans

Seðlabanki Íslands

 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall