Fréttir Greiningar

Spáum 0,8% hækkun neysluverðs í febrúar

13.02.2015 10:02

Við spáum því að vísitala neysluverðs (VNV) muni hækka um 0,8% í febrúarmánuði frá mánuðinum á undan. Ef spáin gengur eftir eykst verðbólga úr 0,8% í 0,9%, og er lægsta gildi ársverðbólgunnar þar með að baki í bili. Verðbólga er þó áfram undir neðri þolmörkum verðbólgumarkmiðs Seðla-bankans, þriðja mánuðinn í röð.  

Verðbólguþrýstingur er lítill til skemmri tíma litið. Við teljum að verðbólgan muni verða við neðri þolmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans á fyrri hluta ársins, en verða við veðbólgumarkmiðið í árslok. Í kjölfarið spáum við heldur meiri verðbólgu samhliða því að hjól hagkerfisins taka að snúast hraðar, þótt verðbólga verði áfram í grennd við verðbólgumarkmiðið. Hagstofan birtir VNV fyrir febrúar kl. 09:00 þann 26. febrúar næstkomandi.

Útsölulok á bak við helming hækkunar 

Líkt og jafnan í febrúarmánuði vega útsölulok þungt til hækkunar VNV nú. Við gerum ráð fyrir tæplega 7,0% verðhækkun á fötum og skóm í febrúar (0,29% áhrif í VNV), og að viðbættum útsölulokum í öðrum vöruflokkum eru heildaráhrif útsöluloka á VNV u.þ.b. 0,4%.

Húsnæði og ferðaliður vega til hækkunar

Húsnæðisliður VNV vegur til 0,16% hækkunar að þessu sinni í spá okkar. Þar koma þrír þættir til. Í fyrsta lagi sýnir verðkönnun okkar talsverða hækkun á íbúðaverði á mælingartímabilinu (0,09% í VNV). Í öðru lagi leiða endalok „Allir vinna“ átaksins, þar sem virðisaukaskattur af vinnu við viðhald var gefinn eftir, til 0,05% hækkunar VNV. Loks teljum við að hækkun greiddrar húsaleigu hafi áhrif til 0,03% hækkunar VNV nú.

Ferða- og flutningaliður VNV hefur áhrif til 0,13% hækkunar vísitölunnar í febrúarmánuði skv. spá okkar. Sú hækkun er að mestu annars vegar vegna u.þ.b. 2,5% hækkunar á eldsneyti (0,09% í VNV) og hins vegar vegna hækkunar á flugfargjöldum til útlanda (0,06% í VNV). Hækkun eldsneytis endurspeglar væntanlega verðhækkun á heimsmarkaði undanfarnar vikur eftir nær samfellda helmingslækkun eldsneytisverðs á seinni hluta ársins 2014. Síðarnefnda hækkunin kemur hins vegar nokkuð á óvart, þar sem samkeppni hefur aukist og eldsneytisverð lækkað verulega síðustu ársfjórðunga, þótt verð eldsneytis hafi farið hækkandi allra síðustu vikur. 

Verð á mat og drykk stendur í stað

Eftir 2,6% hækkun í janúar teljum við að verð á mat og drykkjarvörum haldist nánast óbreytt í febrúar. Reyndar kemur nokkuð á óvart að sumir undirliðir þessa flokks skuli ekki lækka svo neinu nemi samkvæmt verðathugun okkar. Má þar nefna brauðmeti, en Myllan tilkynnti á dögunum að verð á vörum fyrirtækisins til smásala hefði verið lækkað á bilinu 1,5 – 3,2% vegna lækkunar evru gagnvart krónu. Þá virðist afnám sykurskattsins um síðustu áramót enn ekki hafa skilað sér nema að hluta í verði á sætmeti. Þó sýnist okkur að sykurinn sjálfur hafi lækkað myndarlega í verði í matvöruverslunum frá áramótum.

Áfram lítil verðbólga næsta kastið

Við spáum 0,3% hækkun VNV í mars, 0,2% hækkun í apríl og 0,2% hækkun í maí. VNV hækkar samkvæmt því um 0,4% á 1. fjórðungi ársins, og verðbólga verður að jafnaði 0,9% á fjórðungnum. Í mars munu áhrif útsöluloka verða töluverð að vanda. Að öðru leyti gerum við ráð fyrir tiltölulega litlum verðsveiflum næstu mánuði, a.m.k. svo fremi innlendur kostnaður aukist ekki verulega í kjölfar komandi kjarasamninga.

Verðbólga við 2,5% verðbólgumarkmiðið í árslok 2015 

Eftir því sem líður á árið 2015 gerum við ráð fyrir því að verðbólga vaxi jafnt og þétt. Spáum við því að verðbólga í árslok mælist í 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Árið 2016 mun verðbólga aukast enn frekar að okkar mati, og spáum við 2,8% verðbólgu yfir það ár. Ástæður aukinnar verðbólgu eru allhröð hækkun launa á vinnumarkaði á komandi misserum, áframhaldandi hækkun húsnæðisverðs og öllu meiri innflutt verðbólga en verið hefur undanfarið. Verðbólga verður þó nærri verðbólgumarkmiði Seðlabankans í lok spátímans, og gangi spáin eftir verður um að ræða lengsta tímabil lágrar og stöðugrar verðbólgu í hálfan annan áratug. 

Óvissan í spánni liggur þó fremur þannig að verðbólga muni aukast hraðar en hér er spáð. Kemur það einkum til af tvennu. Annars vegar gæti niðurstaða kjarasamninga á komandi mánuðum leitt til enn hraðari hækkunar nafnlauna en við gerum ráð fyrir. Hins vegar er sú forsenda sett í spá okkar að gengi krónu haldist nærri núverandi gildum, enda hefur krónan verið afar stöðug undanfarna ársfjórðunga. Það gæti þó breyst ef skref verða stigin til afléttingar hafta sem hafa í för með sér auknar gengissveiflur og meiri hættu á umtalsverðu gjaldeyrisútflæði, a.m.k. tímabundið.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall