Fréttir Greiningar

Hópuppsagnir orðnar fleiri í ár en í fyrra

03.10.2013 10:35

nullEin tilkynning barst Vinnumálastofnun um hópuppsagnir í septembermánuði þar sem sagt var upp 32 manns. Samkvæmt fréttatilkynningu frá stofnuninni sem birt var í gær var um að ræða fyrirtæki í fiskivinnslu, og var árstíðarbundin hráefnaskortur meðal annars ástæða uppsagnanna. Sé litið á þróunina það sem af er ári hafa fleiri misst vinnuna í hópuppsögnum en á sama tímabili í fyrra. Þannig hafa Vinnumálastofnun borist alls 6 tilkynningar um hópuppsagnir á fyrstu 9 mánuðum ársins þar sem 147 manns hefur verið sagt upp störfum. Á sama tímabili í fyrra höfðu stofnuninni borist 4 tilkynningar sem náðu til 132 manns.

... en þó eru mörg batamerki á lofti

nullTölur um hópuppsagnir eru til marks um að aðstæður á vinnumarkaði séu enn viðkvæmar, en engu að síður teljum við að mun fleiri batamerki á lofti en veikleika og að ástandið þar haldi áfram að batna. Þannig bendir vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar, sem við fjölluðum nýlega um í Morgunkorni Greiningar, til þess að staðan á vinnumarkaði hafi ekki verið betri en nú en síðan fyrir hrun, en t.d. hefur dregið töluvert úr atvinnuleysi og mikil fjölgun hefur orðið á starfandi. Einnig má hér benda á niðurstöður könnunar Capacent Gallup á meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sem framkvæmd var í maí síðastliðnum og fjallað var um nýjasta hefti Peningamála sem Seðlabanki Íslands gefur út. Benti könnunin til þess að vinnuaflseftirspurn væri að verða almennari þar sem í fyrsta skipti frá miðju ári 2007 vildu fleiri fyrirtæki í öllum atvinnugreinum fjölga starfsmönnum á næstu 6 mánuðum en fækka þeim. Um 21% fyrirtækja vildu fjölga starfsmönnum en 10% fækka þeim. Þessi hlutföll voru 20% á móti 18% á sama tíma í fyrra.

Breytingin einna mest í byggingarstarfsemi

nullKönnun Capacent bendir jafnframt til þess að breytingin hafi orðið einna mest á meðal fyrirtækja í byggingarstarfsemi, en sem kunnugt er varð sú atvinnugrein einna verst úti við hrunið. Í maí síðastliðnum vildi um helmingur fyrirtækja í slíkri starfsemi fjölga starfsmönnum á sama tíma og 13% þeirra vildu fækka. Er þetta veruleg breyting frá afstöðu þeirra á sama tíma í fyrra, en þá vildu um 29% fjölga starfsmönnum en 21% vildu fækka. Batamerkin eru einnig augljós ef litið er á fjölda atvinnulausra í greininni en í ágúst sl. voru þeir 357 talsins, sem er helmingi færri en þeir voru á sama tíma í fyrra. Af öðrum atvinnugreinum má hér nefna fyrirtæki í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu, en þar vildu 36% fyrirtækja fjölga starfsmönnum en 4% þeirra fækka starfsmönnum. Á sama tíma í fyrra voru þessi hlutföll 16% á móti 10%.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall