Fréttir Greiningar

Verðbólga tvöfaldast í september

29.09.2016 12:08

12 mánaða taktur verðbólgunnar tvöfaldaðist í september samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Vísitala neysluverðs (VNV) hækkaði milli mánaða um tæp 0,5%, langt umfram allar opinberar spár. Ein helsta ástæða þessa er leiðrétting stofnunarinnar á mistökum hennar fyrr á árinu, sem urðu til þess að 12 mánaða taktur verðbólgunnar hefur verið umtalsvert vanmetinn undanfarið hálft ár.

Verðbólga í september mælist 1,8% eftir 0,48% mánaðarhækkun VNV frá fyrri mánuði. Í ágúst var verðbólgutakturinn hins vegar 0,9%. VNV án húsnæðis lækkaði aftur á móti um 0,10% í september og miðað við þá vísitölu mælist 0,4% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði. Greiningaraðilar höfðu flestir spáð óbreyttri VNV milli mánaða, en ein spá hljóðaði þó upp á 0,3% hækkun.

Afdrifarík mistök Hagstofu

Reiknuð húsaleiga, sem að mestu endurspeglar verðþróun á íbúðamarkaði, hækkaði um 3,3% í september (0,51% áhrif í VNV). Er það mesta hækkun á þessum lið frá því í apríl 2005. Samkvæmt frétt Hagstofu er skýringin að hluta leiðrétting á mistökum sem gerð voru í mars síðastliðnum, og hafa fylgt öllum mælingum þessa liðar þar til nú. Því er í rauninni verið að taka saman tveggja mánaða hækkun á þessum lið í tölunni nú, þar sem Hagstofan endurskoðar aldrei fyrri mælingar á VNV. Hér er um afdrifarík mistök að ræða, þar sem þau hafa orðið til þess að allar verðtryggðar fjárskuldbindingar hafa í raun verið gerðar upp miðað við ranga VNV undanfarið hálft ár. Að sama skapi hafa bæði hagstjórnaraðilar og aðilar á fjármálamarkaði unnið út frá röngum forsendum um verðbólguþróun á tímabilinu. Má þar nefna Seðlabankann, sem byggði ákvörðun sína um vaxtalækkun í ágúst síðastliðnum á forsendum um verðbólgu, verðbólguvæntingar og raunvexti sem hafa nú reynst bjagaðar vegna skekkju Hagstofunnar. Brýnt er að okkar mati að Hagstofan fari yfir verklag sitt við útreikning VNV, svo slík mistök verði síður gerð í framtíðinni.

Leiðréttar tölur Hagstofu, ásamt nýjustu gögnum um þróun íbúðaverðs, gefa hins vegar einnig nokkuð aðra mynd af undirliggjandi verðbólguþrýstingi frá húsnæðislið en fyrri tölur. Samkvæmt þeim hefur reiknuð húsaleiga hækkað um ríflega 1,6% að jafnaði í hverjum mánuði frá miðju ári. Þessi þróun minnir nokkuð á þróunina árið 2005, þegar húsnæðisverð fór hækkandi á sama tíma og krónan styrktist, og húsnæðisþáttur VNV stóð því alfarið að baki hækkun hennar á þeim tíma. Þá, eins og nú, var hækkun húsnæðisliðarins hins vegar birtingarmynd vaxandi þenslu í hagkerfinu sem braust í kjölfarið út í aukinni verðbólgu þegar krónan hætti að styrkjast.

Hvað varð um kostnaðarlækkun í fataverslun?

Áhrif útsöluloka voru talsverð í septembermælingu Hagstofu, þótt þau hafi fallið í skuggann af hinni miklu hækkun húsnæðisliðar. Föt og skór hækkuðu í verði um ríflega 4,7% milli mánaða. Þegar horft er á þriðja ársfjórðung í heild nemur lækkun þessa liðar 0,5%. Til samanburðar má geta þess að frá júnílokum til septemberbyrjunar styrktist gengi krónu um tæp 6%, og má ætla að innkaupsverð nýrra fata í búðum ætti að endurspegla þá hreyfingu í meiri mæli. Munurinn verður enn meira sláandi ef horft er til undanfarinna 12 mánaða. Á því tímabili hefur verð á fötum og skóm lækkað um 4,5% samkvæmt tölum Hagstofunnar. Á sama tíma hafa 15% tollar á föt og skór verið afnumdir og gengi krónu hækkað um nærri 13% að jafnaði. Það er að okkar mati með nokkrum ólíkindum að slík lækkun á kostnaðarverði hafi ekki skilað meiri verðlækkun á fatnaði og skóm, og verður fróðlegt að sjá hvort aukin samkeppni frá væntanlegum verslunarrisum í innlendri fataverslun muni ýta við þeim búðum sem fyrir eru að bæta úr þessu á komandi mánuðum.

Að ofangreindum liðum slepptum þróuðust helstu undirliðir VNV í stórum dráttum í samræmi við væntingar okkar. Árstíðaráhrif komu þannig fram í tæplega 16% lækkun á flugfargjöldum (-0,23% í VNV) og nærri 5% verðlækkun á gistingu (-0,02% í VNV), og að sama skapi í ríflega 1% hækkun á kostnaði við tómstundir og menningu (0,11% í VNV). Þá lækkuðu ýmsar innfluttar vörur á borð við bifreiðar (-0,04% í VNV) og húsgögn (-0,03%) vegna styrkingar krónu, og krónuþróunin átti einnig hvað stærstan þátt í 0,2% lækkun matvælaverðs (-0,03% í VNV) í september. 

Útlit fyrir fremur hóflega verðbólgu á næstunni

Útlit er fyrir að VNV hækki fremur lítið til áramóta, og má að mestu þakka það styrkingu krónu sem við eigum von á að haldi áfram næsta kastið, þótt nokkuð dragi úr styrkingarhraðanum að mati okkar. Þó teljum við rétt að benda á að hækkun húsnæðisliðar kann að vera vanmetin í skammtímaspá okkar miðað við þá öru hækkun sem mælst hefur undanfarna mánuði skv. tölum Hagstofu. Bráðabirgðaspá okkar gerir ráð fyrir að verðbólga reynist áfram svipuð og nú, og mælist 2,0% í árslok.



Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall