Fréttir Greiningar

Væntingar neytenda snarlækka

28.10.2014 11:54

Íslenskir neytendur hafa ekki verið svartsýnni en nú á stöðu og horfur í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar síðan í nóvember í fyrra ef marka má Væntingavísitölu Gallup (VVG) sem birt var nú í morgunsárið. Þannig lækkaði vísitalan um tæp 13 stig milli september og október og stendur gildi hennar nú í 75,9 stigum. Eins og kunnugt er mælir vístalan væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins, og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir. 

Allar undirvísitölur lækka í október frá fyrri mánuði. Mest lækkar vísitalan sem mælir mat neytenda á atvinnuástandandi (19 stig) og mælist hún nú 89 stig, en minnst lækkar mat neytenda á núverandi ástandi (8 stig) en sú vísitala mælist rúm 51 stig. Einnig er töluverð lækkun á mati neytenda á efnahagslífinu (18 stig) sem og væntingum þeirra til aðstæðna í efnahags- og atvinnumálum eftir 6 mánuði (16 stig). Mælist fyrrnefnda vísitalan rúm 54 stig en sú síðarnefnda rúm 92 stig.

Árviss haustlægð?

Það að þróunin á VVG sé í þessa átt kemur okkur ekki á óvart, enda hefur vísitalan langoftast lækkað á milli september og október. Á hinn bóginn kemur okkur á óvart hversu mikil lækkunin er þar sem fjölmörg teikn eru um að hagur neytenda fari batnandi, og þá að vísitalan mælist ekki hærri en  raunin er. Má hér benda á tölur af vinnumarkaði sem benda til þess að ágætis gangur sé í  honum, og virðist staðan þar ekki hafa verið betri síðan fyrir hrun. Jafnframt hefur kaupmáttur launa aukist allhratt að undanförnu, og nam árs hækkunartaktur kaupmáttarins 4,3% í september sl. samkvæmt tölum Hagstofunnar. Við höfum áður velt því upp hvort umræða tengd upphafi haustþings, og sér í lagi fjárlagafrumvarpinu, hafi hugsanlega neikvæð áhrif á íslenska neytendur. Í haust hefur umræða um hækkun virðisaukaskatts á matvæli verið fyrirferðarmikil, og þá hefur vaxandi órói á vinnumarkaði undanfarið hugsanlega einnig sett mark sitt á hugarfar landans í októbermánuði. Einnig kann óþreyja eftir skuldalækkun stjórnvalda og dvínandi væntingar um hversu mikil lækkunin verði að hafa áhrif. Loks er ekki loku fyrir það skotið að neikvæðar fréttir af Ebólufaraldri, harðnandi bardögum á átakasvæðum úti í hinum stóra heimi og mengun vegna eldgoss slái á væntingar íslenskra neytenda um þessar mundir.

Mikill munur á þróuninni eftir tekjum

Ólík þróun var á væntingum hjá þeim sem eru í tekjulægsta hópnum (lægri tekjur en 250 þús. á mánuði) annars vegar, og hjá þeim sem eru í tekjuhæsta hópnum (hærri en 550 þús. á mánuði) hins vegar. Undirvísitala væntinga hjá fyrrnefnda hópnum hækkaði um tæp 14 stig en hjá hinum síðarnefnda lækkaði vísitalan um 9 stig. Þrátt fyrir þessa þróun er undirvísitala tekjulægsta hópsins mun lægri en tekjuhæsta hópsins, eða rúm 52 stig á móti 96 stigum. Það er þó síður en svo nýtt á nálinni enda hefur slíkt verið upp á teningnum í 150 mælingum af 164, eða 91% tilvika, og virðast þeir tekjulægstu kerfisbundið hafa mun minni væntingar um efnahags- og atvinnulífið en þeir tekjuhæstu. Þó hefur þróunin á undanförnu verið nokkuð sérstök í því tilliti að væntingar þeirra tekjulægstu hafa verið að lækka en væntingar hinna tekjuhæstu að hækka. M.ö.o. þá hefur fyrrnefndi hópurinn orðið stöðugt svartsýnni á sama tíma og hinn hópurinn hefur orðið bjartsýnni. Erfitt er að segja hvað veldur þessu, en alla jafna hafa væntingar þessa hópa sveiflast til sömu áttar eftir því hvernig vindar blása í efnahagslífinu.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall