Fréttir Greiningar

Óbreytt verðbólga í desember

22.12.2015 11:05

Desembermæling Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs (VNV) var í samræmi við væntingar okkar. VNV hækkaði um 0,33% í desember frá fyrri mánuði. Við spáðum 0,3% hækkun VNV milli mánaða, en spár voru á bilinu 0,2 - 0,3% hækkun. Verðbólga mælist nú 2,0% og er 12 mánaða taktur hennar óbreyttur frá nóvember sl. Miðað við VNV án húsnæðis mælist hins vegar 0,4% verðbólga undanfarna 12 mánuði, en verðbólga var 0,3% á þennan mælikvarða í nóvember.

Flugfargjöld og húsnæðisliður vega þyngst í hækkun

Líkt og við bjuggumst við hafði árstíðarbundin hækkun flugfargjalda veruleg áhrif í VNV-mælingunni nú. Í heild hækkuðu flugfargjöld um 17,6% á milli mánaða (0,22% í VNV), en þar af hækkuðu flugfargjöld til útlanda um tæp 17% og flugfargjöld innanlands um ríflega 22%. Hækkunin nú kemur í kjölfar 35% lækkunar þessa liðar frá júlí síðastliðnum. Við eigum svo von á að flugfargjöld lækki að nýju eftir hátíðirnar.

Þá hækkaði húsnæðisliður VNV um 0,4% í desember (0,12% í VNV). Þar vó þyngst 0,4% hækkun á reiknaðri húsaleigu (0,06% í VNV), sem endurspeglar að mestu þróun markaðsverðs á íbúðarhúsnæði. Einnig hækkaði greidd húsaleiga um 1,0% í desember (0,05% í VNV). Þá hækkaði verð á húsgögnum og heimilisbúnaði um 0,9% (0,04% í VNV).

Fataverð hækkar í aðdraganda tollalækkunar..

Þvert á væntingar okkar hækkaði verð á fötum og skóm í desember en frá árinu 2010 hefur þessi liður ávallt lækkað í desembermánuði. Nam hækkunin 0,4% á milli mánaða (0,02% í VNV). Framundan er afnám á 15% vörugjöldum á föt og skó sem innflutt er frá löndum utan EES-svæðisins. Í fyrra voru skýr merki um verðlækkun á raftækjum í aðdraganda afnáms vörugjalda á innflutning þeirra fyrir síðustu áramót. Þótt einhverjar búðir hafi auglýst afslátt á fötum í aðdraganda afnáms vörugjalda nú virðast áhrif þess tiltölulega lítil á heildina litið ef horft er til þróunar þessa liðar í VNV. Gætu áhrifin af vörugjaldabreytingunni sjálfri því orðið sterkari á fyrsta fjórðungi næsta árs.

..en eldsneyti og matvara lækkar í jólamánuðinum

Af lækkunarliðum í VNV nú munaði mestu um 1,9% lækkun á eldsneytisverði (-0,06% í VNV), en eldsneytis hefur fylgt alþjóðlegri þróun undanfarnar vikur. Þá lækkaði verð á mat og drykkjarvörum um 0,3% (-0,04% í VNV) og vó þar þungt myndarleg verðlækkun á grænmeti og ávöxtum. Aftur á móti hækkaði jólasteikin nokkuð í verði, hafi neytendur ekki verið nægilega forsjálir til að kaupa hana í nóvembermánuði. Alls hækkaði verð á kjötvörum um 1,4% á milli mánaða, og var hækkunin mest á svínakjöti og fuglakjöti. Það má því segja að aðalrétturinn á jólaborðum Íslendinga hafi hækkað í verði en meðlætið lækkað frá síðasta mánuði.

Verðbólga áfram undir markmiði Seðlabankans

Horfur fyrir þróun VNV næstu mánuði eru svipaðar og við áætluðum í nýjustu verðbólguspá okkar. Þó hefur eldsneytisverð lækkað meira frá desembermælingu Hagstofunnar en við gerðum ráð fyrir í spánni fyrir janúar, eða um 2,3% (-0,07% í VNV). Krónutöluhækkun opinberra gjalda um áramótin gæti  hins vegar vegið nokkuð á móti. Einnig gæti lækkun á flugfargjöldum til útlanda orðið minni í janúar en við gerðum ráð fyrir eftir hóflegri hækkun en við væntum í desember. 

Bráðabirgðaspá okkar nú gerir ráð fyrir að VNV lækki um 0,6% í janúar, en hækki að nýju um 0,6% í febrúar og um 0,5% í mars. Verðbólga verður skv. spánni 1,5% í mars 2016. Verðbólga verður því nokkuð minni næsta kastið en spáð var af Seðlabankanum í nóvember, og verður raunar undir 2,5% markmiði Seðlabankans fram yfir mitt næsta ár, gangi spáin eftir. Teljum við raunar vísbendingar um að sú mikla hækkun launa sem varð hjá þorra launþega á árinu hafi enn sem komið er talsvert hóflegri áhrif á innlent vöru- og þjónustuverð en margir bjuggust við. Innlendur kostnaðarþrýstingur fer þó vaxandi jafnt og þétt, og mun hann að mati okkar þrýsta verðbólgu upp fyrir verðbólgumarkmiðið næsta haust.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall