Fréttir Greiningar

Verðbréfasjóðir fyrirferðarmiklir í útboðum

01.04.2014 12:12

nullEftir að hafa minnkað stöðu sína í ríkisbréfum talsvert í fyrra virðist áhugi verðbréfa- og fjárfestingasjóða á slíkum bréfum hafa glæðst að nýju. Af stærstu eigendum ríkisbréfa hafa verðbréfa- og fjárfestingasjóðir bætt mest við sig í ríkisbréfum á árinu, sem er viðsnúningur frá þeirri þróun sem átti sér stað á síðastliðnu ári. Þannig nam eign þeirra í markaðshæfum ríkisbréfum, að verðbréfalánum meðtöldum, 53,3 mö.kr. í upphafi árs, en í lok febrúar sl. var hún komin upp í 60,7 ma.kr. Jókst eign þeirra þar með um 7,4 ma.kr., en þess má geta að í þessum tölum er RIKH18 flokkurinn og gjaldeyrisútboðsflokkarnir tveir (RIKS30 og RIKS33) undanskildir.

Svo virðist sem sjóðirnir hafi verið talsvert fyrirferðarmiklir í útboðum Lánamála, enda hafa þeir mest bætt við sig bréfum í nýja ríkisbréfaflokknum RIKB20 (4,0 ma.kr.). Eru þeir jafnframt stærstu eigendur þessa flokks með eignarhlutdeild upp á 43%, sem ætti kannski ekki að koma á óvart enda hafa fjárfestingar sjóðanna hingað til að mestu beinst að miðbiki vaxtarófsins. Eign þeirra jókst einnig nokkuð í RIKB16 (0,9 ma.kr.) sem Lánamál héldu einnig útboð í á undangreindu tímabili. Jafnframt virðast þeir hafa verið talsvert fyrirferðarmiklir á eftirmarkaði með skuldabréf, en eign þeirra hefur aukist talsvert í RIKB19 (2,6 ma.kr.) og RIKB22 (1,3 ma.kr.) frá síðustu ármótum.

... en útlendingar draga saman seglin

Eign erlendra aðila í ríkisbréfum hefur á hinn bóginn skroppið talsvert saman á árinu, sem er í reynd framhald af þeirri þróun sem átti sér stað á síðastliðnu ári. Þannig nam eign erlendra aðila í markaðshæfum ríkisbréfum 163,8 mö.kr. um síðustu áramót, en var komin niður í 156,6 ma.kr. í lok febrúar sl. Skrapp eign þeirra þar með saman um rúma 7,2 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins, og reiknum við með að hún hafi minnkað enn frekar í marsmánuði, þá einna helst vegna þess að þeir voru stærstu eigendur RIKB14-flokksins sem var á gjalddaga um miðjan mars.

Af einstökum ríkisbréfaflokkum hefur eign erlendra aðila skroppið mest saman í RIKB19-flokknum (3,3 ma.kr.) en minni breyting hefur orðið á eign þeirra í öðrum flokkum. Ljóst er að erlendir aðilar voru ekki fyrirferðamiklir í útboðum Lánamála í febrúar, enda dróst eign þeirra í RIKB16 saman um 1,1 ma.kr. á fyrstu tveimur mánuðum ársins og eign þeirra í RIKB20 nam aðeins 11 m.kr. í lok febrúar sl.

Lífeyrissjóðir langstærstir

nullEkki varð mikil breyting á ríkisbréfaeign lífeyrissjóða á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Nam ríkisbréfaeign þeirra 200,7 mö.kr. í lok febrúar sl., sem er aukning upp á 0,9 ma.kr. frá áramótum. Ein skýring þessa er væntanlega að ekki var boðið upp á lengsta ríkisbréfaflokkinn, RIKB31, í útboðum á fyrsta ársfjórðungi, en lífeyrissjóðir hafa helst áhuga á lengstu flokkum ríkisbréfa. Lífeyrissjóðirnir eru stærstu lánadrottnar ríkissjóðs, með eignarhlutdeild upp á rúmlega 39% í markaðshæfum ríkisbréfum. Næststærsti eigendahópurinn eru erlendir aðilar, með eignarhlutdeild upp á 31% og þar á eftir koma verðbréfa- og fjárfestingasjóðir með eignarhlutdeild upp á tæp 12%.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall