Fréttir Greiningar

Í það minnsta 20% fjölgun ferðmanna 2014

08.04.2014 11:46

nullMánuð eftir mánuð hefur hvert metið rekið annað í fjöldatölum erlendra ferðamanna, eða allt frá því í ársbyrjun 2012. Miðað við þær tölur sem nú liggja fyrir um fjölda erlendra ferðamanna, og áætlaða flugumferð um Keflavíkurflugvöll (KEF) á næstu mánuðum, má ætla að erlendum ferðamönnum hér á landi fjölgi í það minnsta um 20% í ár frá fyrra ári.

Stóraukin flugumferð

Brottfarir erlendra ferðamanna frá landinu um KEF eru nú þegar komnar upp í 165.200 á fyrstu þremur mánuðum ársins, sem er fjölgun upp á 35% milli ára. Tölur Isavia um úthlutuð stæði yfir tímabilið 30. mars til 25. október, benda til þess að flugumferð um KEF verði 18% meiri á því tímabili en hún var á sama tímabili í fyrra. Að því gefnu að tölur Isavia endurspegli nokkuð vel þá þróun sem verður á komum erlendra ferðamanna hingað til lands á næstu mánuðum, og að hófleg fjölgun verði einnig á síðustu tveimur mánuðum ársins, má búast við a.m.k. 20% fjölgun ferðamanna milli ára. Tölur Isavia um flugumferð um KEF telja bæði þær vélar sem bera farþega hingað til lands sem og þá farþega sem millilenda hér á landi á leið á milli Evrópu og Ameríku. Við teljum líklegt að fjölgun farþega hingað til lands vegi þungt í flugumferðartölunum, og því er ekki ósennilegt að fjölgun erlendra ferðamanna hér á landi verði umfram fyrrgreind 18% á tímabilinu.

Í þessari umfjöllun er einungis fjallað um þann fjölda sem fer um KEF, en það nær til um 98% erlendra gesta sem koma hingað til lands með flugi. Þar að auki koma erlendir ferðamenn hingað til lands með Norrænu, en þeir voru 16.600 í fyrra skv. tölum Ferðamálastofu, og svo með skemmtiferðaskipum. Farþegum sem koma hingað til lands með skemmtiferðaskipum hefur einnig fjölgað jafnt og þétt, og verða þeir sennilega yfir 100.000 á árinu. Farþegar með skemmtiferðaskipum gista um borð í skipunum og dvelja oftast í mun skemmri tíma en aðrir.  Því skila þeir þjóðarbúinu minni gjaldeyristekjum en aðrir ferðamenn og vega minna að því leyti.

Enn mun draga úr ársíðarsveiflu

Á undanförnum árum hefur erlendum ferðamönnum fjölgað hlutfallslega meira utan háannatíma. Hefur því verulega dregið úr árstíðarsveiflu í ferðamannastraumi til landsins. Af ofangreindum gögnum má ráða að slíkt verði einnig upp á teningnum í ár.

nullSé árinu skipt niður í þrjú tímabil, þ.e. janúar-maí, júní-ágúst og september-desember, má sjá að aukningin milli ára hefur verið mest á því fyrstnefnda en minnst yfir háannatímann, þ.e. júní-ágúst. Á milli áranna 2010 og 2013 fjölgaði erlendum ferðamönnum um 90% á fyrstu fimm mánuðum ársins, 52% yfir háannatímann og 86% á síðustu fjórum mánuðum ársins. Af tölum Isavia má sjá að flugumferð til landsins er að aukast mest í apríl og maí, sem bætist við þá gríðarlegu aukningu sem átti sér stað á fyrsta ársfjórðungi. Reiknum við með að fjölgun ferðamanna á milli ára verði mest á þessu tímabili, eða um 32%. Miðað við fyrrgreindar tölur Isavia reiknum við með um 15% aukningu á háannatíma og í kjölfarið aukningu um 18% á síðustu mánuðum ársins. Ef þróunin verður með þessum hætti mun 42% allra erlendra gesta koma yfir sumartímann, en það hlutfall hefur aldrei áður verið svo lágt. Árið 2013 var þetta hlutfall 44% og árið 2010 um 50%.

Minni árstíðarsveifla dregur úr fjárfestingaþörf í nærtíð

Í miklum vexti, líkt og verið hefur í ferðaþjónustu hér á landi, er jafnan þörf á umtalsverðri fjárfestingu til að standa undir vaxandi umsvifum. Sú staðreynd að töluvert af vexti ferðaþjónustunnar á sér stað utan háannartíma þýðir að minni þörf er á fjárfestingum þar sem þeir innviðir sem notaðir eru yfir þetta tímabil eru að mestu fyrir hendi aðra mánuði ársins. Það liggur samt fyrir að við nálgumst þolmörk að þessu leyti yfir háannatíma. Töluverðar fjárfestingar í hótelbyggingum hafa þó verið boðaðar og er útlit fyrir að framboð gistinátta aukist töluvert á næstu árum, og þá sérstaklega 2015.

Lággjaldaflugfélögin sækja á

nullSem fyrr segir benda tölur Isavia til þess að framboð sæta til landsins muni aukast um 18% yfir tímabilið 30. mars til 25. október frá fyrra ári. Erlend flugfélög bæta töluverðu við sitt framboð yfir þetta tímabil. Áberandi aukning er á meðal lággjaldaflugfélaga, en Easyjet, Germanwings, Norwegian og WOW air flokkast öll til slíkra flugfélaga. Framboð Icelandair trónir þó yfir erlendu félögunum og m.v. gögn Isavia má ætla að markaðshlutdeild þeirra í flugumferð um Keflavíkurflugvöll verði um 70% yfir þetta tímabil, þá að því gefnu að sætanýting verði svipuð milli ára.

Flest sæti til Bandaríkjanna

nullEf rýnt er í tölur Isavia má sjá að yfir fyrrgreint tímabil verður mest flugumferð frá Bandaríkjunum. Næstmest verður flugumferð frá Bretlandi, en töluverð samkeppni hefur verið um flug þaðan og hafa WOW air og Easyjet sótt töluvert á það markaðssvæði. Þá verður töluverð flugumferð frá frændþjóðum okkar Danmörku og Noregi ásamt Þýskalandi.

Hver verður vöxtur næstu ára?

Síðastliðin þrjú ár hefur erlendum ferðamönnum fjölgað um 18%-21% á ári og hefur vöxturinn heldur verið að færast í aukana. Á næstu árum teljum við að heldur dragi úr þessum vexti, enda þarf sífellt fleiri nulleinstaklinga til að ná sama hlutfallslegum vexti. Hvað arðsemi ferðaþjónustu og framlag hennar til landsframleiðslu varðar hlýtur hins vegar að skipta mestu máli að hámarka virðisaukann af greininni, og því skiptir æ meira máli eftir því sem fram í sækir að tekjur af hverjum ferðamanni aukist, fremur en að þeim fjölgi sem mest. Má þar benda á ákveðna hliðstæðu við sjávarútveginn, en vöxtur þeirrar greinar hefur á seinni árum byggt í ríkari mæli á aukinni hagkvæmni og hámörkun virðisauka. 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall