Fréttir Greiningar

Hægari kaupmáttaraukning í mars

26.04.2017 11:24

Frá áramótum hefur hægt talsvert á hækkun launavísitölu og aukningu kaupmáttar launa. Við teljum að aftur muni bæta í hækkunartakt þessara stærða þegar líður á árið, þótt hækkunin verði að jafnaði hóflegri í ár en í fyrra.

Samkvæmt nýlega birtum tölum Hagstofunnar hækkaði launavísitala um 0,4% í mars. Árs hækkunartaktur vísitölunnar í marsmánuði mældist 5,0% og hefur ekki verið hægari í tvö ár. Á alþjóðlegan kvarða er hins vegar hækkun launa hröð hér á landi. Má þar til dæmis nefna að OECD áætlar að launatekjur á hvern launþega hafi aukist um 1,9% að jafnaði í fyrra í aðildarríkjunum, og muni að jafnaði vaxa um 2,8% í ár. 
 
Kaupmáttur launa jókst um 0,3% í marsmánuði, enda hækkaði vísitala neysluverðs (VNV) um 0,1% í mánuðinum. Líkt og með launavísitöluna hefur hægt talsvert á aukningu kaupmáttar launa undanfarið, og mældist 12 mánaða hækkunartakturinn 3,3% í mars. Það er hægasta aukning kaupmáttar í tæp tvö ár.

Mismunandi dreifing samningsbundinna launahækkana

Ástæða þess að nú hægir á hækkun launa, og þar með aukningu kaupmáttar, liggur að verulegu leyti í mismunandi dreifingu samningsbundinna launahækkana á almennum vinnumarkaði á milli ára. Stærstur hluti launþega á almennum markaði fékk myndarlega hækkun launa á fyrsta fjórðungi ársins 2016. Sú hækkun datt því út úr 12 mánaða taktinum í febrúar síðastliðnum. Næsta samningsbundna hækkun þessa hóps kemur til skjalanna í maí næstkomandi, þegar flestir innan hans fá 4,5% hækkun launa sinna. Mun sú hækkun endurspeglast í myndarlegri hækkun launavísitölu og vísitölu kaupmáttar launa á komandi mánuðum. Meiri óvissa er um launaþróun opinberra starfsmanna, en stórir hópar innan þeirra raða eru með lausa samninga á seinni hluta ársins. Má því einnig búast við talsverðri launahækkun á þeim hluta vinnumarkaðar þegar lengra líður á árið. Við teljum þó að hækkun launa verði að jafnaði mun hóflegri í ár en í fyrra, enda var árið 2016 ár sögulega hraðrar hækkunar launa. Á síðasta ári hækkaði launavísitalan þannig að jafnaði um 11,4% en við gerum ráð fyrir 6,4% hækkun hennar að jafnaði í ár.

Hraðari kaupmáttaraukning þegar líður á árið

Kaupmáttaraukning mun einnig taka við sér að nýju þegar líður á árið, enda gerum við ráð fyrir hóflegri verðbólgu út yfirstandandi ár. Við áætlum að kaupmáttur launa muni að jafnaði vaxa um 4,4% í ár frá síðasta ári. Það er vissulega talsvert hægari kaupmáttaraukning en var að jafnaði í fyrra (9,5%) en engu að síður nægur vöxtur til að styðja við myndarlega aukningu einkaneyslu í ár. Í fyrra mældist vöxtur einkaneyslu talsvert hægari en kaupmáttaraukning launa, en í ár má gera ráð fyrir að sú fylgni sem alla jafna hefur verið á milli þróunar þessara stærða verði allsterk.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall