Fréttir Greiningar

Vaxtahækkun í takti við spár

10.06.2015 10:52

Ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabankans um að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur á vaxtaákvörðunarfundi sínum í morgun kom ekki á óvart, en allar opinberar spár gerðu ráð fyrir þessari hækkun. Rökin fyrir hækkun nú eru, líkt og búast mátti við, horfur um þróun launakostnaðar, hækkun verðbólguvæntinga og vísbendingar um öflugan vöxt eftirspurnar.  

Verðbólguhorfur hafa versnað vegna kjarasamninga

Segir í yfirlýsingu nefndarinnar að þó að verðbólga sé enn lítil hafa verðbólguhorfur versnað verulega frá síðustu spá Seðlabankans sem birt var samhliða síðustu vaxtaákvörðun í maí sl. Er ástæðan sú, samkvæmt yfirlýsingu nefndarinnar, að nú hefur verið samið um launahækkanir sem eru meiri en gert var ráð fyrir í spá bankans. Einnig segir nefndin að til að liðka fyrir kjarasamningum hafi ríkisstjórnin kynnt aðgerðir sem munu auka ríkisútgjöld og draga úr skatttekjum. Aðgerðir þessar fela að öðru óbreyttu í sér slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum.    

Losun gjaldeyrishafta kann að auka framleiðsluspennu

Nefndin telur mikilvægt að nýkynntar aðgerðir til losunar gjaldeyrishafta muni ekki auka enn frekar á spennu í þjóðarbúskapnum, þ.e. að þær muni ekki leiða til þess að peningamagn verður virkjað sem til þessa hefur verið óvirkt. M.ö.o. telur nefndin mikilvægt að tekjum ríkissjóðs verði varið til lækkunar skulda en ekki til meiri ríkisumsvifa eða minna aðhalds ríkisfjármála. Segir nefndin að hún muni fylgjast grannt með framvindunni og grípa til aðgerða til mótvægis ef þörf krefur. 

Hagvaxtarþróun í takti við spá bankans

Nefndin segir í yfirlýsingu sinni að nýbirtar tölur Hagstofunnar um 2,9% hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi og kröftugur bati á vinnumarkaði bendi til þess að vöxtur efnahagsumsvifa sé áþekkur maíspá bankans. Hljóðaði spá bankans upp á 4,6% hagvöxt á árinu í heild og að vöxturinn yrði drifinn áfram af vexti fjárfestinga, neyslu og útflutnings. Samkvæmt spánni er komin framleiðsluspenna í hagkerfið í ár eftir slaka síðustu ár. 

Boða umtalsverða vaxtahækkun í ágúst

Nefndin boðar í yfirlýsingu sinni í morgun umtalsverða vaxtahækkun í ágúst og enn frekari hækkun á komandi misserum. Segir nefndin einsýnt að slíkt verði nauðsynlegt til að tryggja stöðugt verðlag til lengri tíma litið. Aðspurður sagði Seðlabankanstjóri á kynningarfundi vegna ákvörðunarinnar að það væri afar ólíklegt að ekki þyrfti að hækka vexti í ágúst, en hversu mikil hækkunin yrði færi m.a. eftir launaskriði næsta kastið og að hversu miklu leyti umsamdar launahækkanir fara út í verðlagið.

Miðað við yfirlýsingu nefndarinnar og það sem kom fram á kynningarfundi vegan ákvörðunarinnar virðast miklar líkur á því að nefndin muni hækka stýrivexti bankans aftur um 0,5 prósentur á næsta vaxtaákvörðunarfundi sínum 19. ágúst nk. Eru þá eftir þrír vaxtaákvörðunardagar á þessu ári, þ.e. í september, nóvember og desember, og er vel hugsanlegt að nefndin hækki vexti bankans enn frekar þá.   


 

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall