Fréttir Greiningar

Næsta breyting stýrivaxta verður til hækkunar

21.05.2014 11:38

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum að þessu sinni. Spár hljóðuðu ýmist upp á óbreytta vexti eða 0,25 prósentu lækkun. Spáðum við lækkun um 0,25 prósentur. Nefndin segir að það fari eftir framvindu verðbólgu og verðbólguvæntinga hvort tilefni verður til að breyta nafnvöxtum bankans á næstunni. Ekki er gefið í skyn hvort það yrði til lækkunar eða hækkunar. Við teljum þó að næsta breyting stýrivaxta verði til hækkunar.

Raunstýrivextir þurfa að hækka á komandi misserum

nullNefndin segir í yfirlýsingu sinni að líklegt sé að aukinn vöxtur innlendrar eftirspurnar á komandi misserum muni að öðru óbreyttu krefjast þess að raunvextir Seðlabankans hækki frekar. Ef raunstýrivextir eru metnir út frá verðbólguþróuninni og verðbólgan þróast í takti við spá Seðlabankans eða okkar er ljóst að næsta stýrivaxtabreyting verður til hækkunar. Við teljum að peningastefnunefndin muni halda stýrivöxtum bankans óbreyttum út þetta ár en hækka þá á næsta og þarnæsta ári.

Slakinn horfinn

Miðað við núverandi verðbólgu mælast raunvextir bankans um 3% en 2,3% ef miðað er við meðaltal nokkurra mælikvarða á verðbólgu og skammtíma verðbólguvæntingar. Samhliða hjöðnun verðbólgunnar hafa raunvextir bankans hækkað undanfarið. Segir í yfirlýsingu peningastefnunefndarinnar að slakinn í taumhaldi peningastefnunnar sé líklega horfinn. Einnig segir bankinn að framleiðsluslakinn í hagkerfinu sé nánast horfinn. Þróunin undanfarið er því í takti við þann tón sem hefur verið í peningastefnunefndinni síðustu misserin, en hún hefur ítrekað hefur sagt að eðlilegt sé að slakinn hverfi úr peningastefnunni samhliða því að slakinn hverfi úr hagkerfinu. 

Reikna með meiri hagvexti

nullSeðlabankinn birtir nýja þjóðhagsspá með vaxtaákvörðuninni nú. Spáir bankinn nú 3,7% hagvexti í ár sem er hækkun um heilt prósentustig frá síðustu vaxtaákvörðun. Spá þeir síðan 3,9% hagvexti á næsta ári en reiknuðu áður með 3,7% hagvexti. Er þetta öllu meiri hagvöxtur en við spáum, en við reiknum með 3,2% hagvexti í ár og 3,3% á næsta ári. Meiri hagvöxtur í spá SBÍ fyrir 2014 nú er að mestu vegna meiri fjárfestingar, einkum atvinnuvegafjárfestingar.

Hafa lækkað verðbólguspánna

Verðbólguspá bankans hefur verið lækkuð frá síðustu spá hans. Nú reiknar bankinn þannig t.d. með því að verðbólgan á þessu ári verði 2,5% að meðaltali en hann spáði síðast 2,7% verðbólgu í ár.  Þá spáir bankinn verðbólgu upp á 3,1% að jafnaði á næsta ári í stað 3,4% í fyrri spá. Verðbólguspá Seðlabankans er samt enn heldur fyrir ofan okkar á meirihluta spátímans. Ætti það ekki að koma á óvart í ljósi hagvaxtarspárinnar. Verðbólgan samkvæmt spá bankans er yfir verðbólgumarkmiðinu mestan hluta spátímabilsins, en verður þó talsvert undir 4% efri vikmörkum markmiðsins.

Breytingar gerðar á stjórntækjum Seðlabankans

Samhliða vaxtaákvörðuninni nú tilkynnti Seðlabankinn um breytingar á stjórntækjum sínum. Markmið breytinganna er að auka virkni lausafjárstýringar bankans og stuðla eftir því sem mögulegt er að meiri hagkvæmni út frá efnahag hans. Þá eiga þær að búa í haginn fyrir þær breytingar sem munu verða á umhverfi peningastefnunnar við fyrirhugaða eignasölu Eignarhaldsfélags Seðlabanka Íslands (ESÍ) og losun fjármagnshafta.  Sagði Már Guðmundsson Seðlabankastjóri á kynningarfundi bankans í morgun að von væri á frekari breytingum á þessum stjórntækjum á næstunni. Mat okkar er að þessar breytingar séu ígildi lítils háttar vaxtalækkunar á markaði, og má segja að þær hafi því að hluta komið í stað þess að lækka stýrivexti að þessu sinni.

Viðbrögð á skuldabréfamarkaði

Krafa óverðtryggðra ríkisbréfa hækkaði við opnun markaða um allt að sjö punkta. Hækkunin hefur hins vegar gengið til baka að stærstum hluta eftir því sem hefur liðið á morguninn. Velta hefur verið talsverð með flokka á miðju vaxtarófsins, en lítil að öðru leyti. Þessar hreyfingar benda til þess að einhverjar væntingar hafi verið um vaxtalækkun á markaði, en að skoðun markaðarins á raunvaxtastiginu næsta kastið hafi lítið breyst þegar farið var að rýna nánar í aðgerðir og orð Seðlabankamanna. Þar má einnig nefna að á kynningarfundinum lagði Már Seðlabankastjóri talsverða áherslu á óvissuna sem ríkti um slaka eða spennu í hagkerfinu, og þar með um hvert eðlilegt raunvaxtastig væri á næstunni.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall