Fréttir Greiningar

Minni afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum í fyrra

01.03.2018 15:00

Töluvert dró úr afgangi af vöru- og þjónustuviðskiptum á árinu 2017 miðað við árið á undan. Ástæðan er stóraukinn vöruskiptahalli vegna mikils innflutningsvaxtar á sama tíma og afgangur af þjónustuviðskiptum jókst mun hóflegar en undanfarin ár. Líklega dró að sama skapi talsvert úr viðskiptaafgangi á árinu 2017 og horfur eru á að viðskiptaafgangurinn minnki áfram næstu misserin. Viðvarandi viðskiptaafgangur undanfarinna ára er þó afar ánægjuleg nýmæli í íslensku hagkerfi, og ekkert sem bendir sérstaklega til þess að halli verði á utanríkisviðskiptum í næstu framtíð.

Hægari aukning þjónustuafgangs

Hagstofan birti í morgun tölur um þjónustujöfnuð á síðasta fjórðungi ársins 2017, ásamt bráðabirgðatölum fyrir árið í heild og brúartöflu vöru- og þjónustuviðskipta. Á lokafjórðungi síðasta árs nam afgangur af þjónustuviðskiptum  53,4 mö.kr. Á sama fjórðungi 2016 var afgangurinn 41,1 ma.kr., og skýra auknar þjónustutekjur af ferðamönnum aukinn afgang að stærstum hluta. Á móti vegur þó að ferðaútgjöld landans erlendis jukust töluvert á milli ára.

Á árinu 2017 nam afgangur af þjónustuviðskiptum við útlönd alls 272 mö.kr. Það jafngildir tæplega 6% meiri afgangi en árið 2016 í krónum talið, en þá mældist þjónustuafgangurinn 257 ma.kr. Þetta er mun minni aukning á þjónustuafganginum en árin á undan. Árið 2016 jókst þjónustuafgangur um 58 ma.kr. (29%) og árið 2015 nam aukningin 64 ma.kr. (47%) frá árinu áður. Styrking krónu spilar hér talsvert hlutverk, en miðað við gengisvísitölu var krónan að jafnaði 12% sterkari í fyrra en árið 2016. Burtséð frá þeirri þróun endurspegla þessar tölur hins vegar að stórum hluta hægari fjölgun ferðamanna hingað til lands og aukna ferðagleði landsmanna á erlenda grundu. 

..og talsvert meiri vöruskiptahalli

Í uppfærðri brúartöflu Hagstofunnar kemur fram að á móti 272 ma.kr. þjónustuafgangi í fyrra vó 167 ma.kr. halli á vöruskiptum. Er það mesti vöruskiptahalli í rúman áratug í krónum talið, en til samanburðar var vöruskiptahallinn tæpir 102 ma.kr. árið 2016 . Ólík þróun í magni vöruútflutnings og –innflutnings skýrir þessa þróun. Samkvæmt niðurbroti Hagstofunnar á þróun verðs og magns í vöruviðskiptum fyrir síðasta ár stóð útflutningur nánast í stað í magni mælt í fyrra frá árinu áður, en innflutningur jókst um ríflega 12% á sama kvarða. Samanlagður afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum var því 105 ma.kr. á síðasta ári, og minnkaði afgangurinn um 50 ma.kr. á milli ára.

Ferðaþjónustan vegur langþyngst í útflutningstekjum

Hagstofan birti einnig í morgun samantekt á framlagi helstu útflutningsgreina til heildar útflutningstekna á síðasta ári. Útflutningstekjur námu alls 1.200 mö.kr. árið 2017. Jafngildir það aukningu upp á 13 ma.kr. frá árinu á undan, en hafa ber í huga 12% styrkingu krónu á milli ára eins og fyrr var nefnt. Þótt hægt hafi á tekjuvexti frá ferðaþjónustu jókst hlutdeild hennar í heildar útflutningstekjum á síðasta ári. Alls voru tekjur af ferðamönnum hérlendis og erlendis 503 ma.kr. í fyrra, sem jafngildir 42% af heildartekjum af útflutningi. Til samanburðar voru tekjur af álútflutningi 203 ma.kr. (17% heildartekna) og tekjur vegna útflutnings sjávarafurða 197 ma.kr. (16% heildartekna). Hér ber að hafa í huga að innlendur virðisauki í ferðaþjónustu og sjávarútvegi er talsvert hærra hlutfall af heildartekjunum en raunin er í áliðnaði, þar sem innflutt hráefni er verulegur hluti framleiðslukostnaðar á áli og hagnaður álfyrirtækjanna rennur á endanum til erlendra eigenda þeirra.

Viðskiptaafgangur út áratuginn?

Seðlabankinn birtir tölur um greiðslujöfnuð við útlönd á síðasta ári síðdegis á morgun. Við teljum líklegt að í þeim tölum muni koma fram töluverður samdráttur í viðskiptaafgangi á milli ára, rétt eins og dregið hefur úr vöru- og þjónustujöfnuði. Viðskiptaafgangur nam 190 mö.kr. sem samsvarar 7,8% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 2016. Miðað við hinar nýbirtu tölur hefur viðskiptaafgangurinn væntanlega verið innan við 5% af VLF á síðasta ári. Horfur eru á að áfram dragi úr viðskiptaafgangi þar sem áfram hægir á vexti þjónustuútflutnings á sama tíma og vöru- og þjónustuinnflutningur eykst líklega enn um sinn. Við gerum þó ráð fyrir að viðskiptaafgangurinn muni nema 3 - 4% af VLF í ár, og 2 - 3% af VLF á næsta ári. Gangi það eftir munu utanríkisviðskipti hafa skilað umtalsverðum afgangi 7 ár samfleytt. 

Svo langt tímabil viðskiptaafgangs er einsdæmi í nútíma hagsögu Íslands sem hefur einkennst af viðvarandi viðskiptahalla með einstaka afgangsárum inn á milli. Þessi þróun hefur svo átt ríkan þátt í að stórbæta erlenda stöðu þjóðarbúsins á þann veg að erlendar eignir eru nú um stundir orðnar meiri en erlendar skuldbindingar. Er það bæði til marks um hin miklu áhrif sem tilkoma ferðaþjónustunnar sem stærsta útflutningsatvinnuvegar þjóðarbúsins hefur haft á utanríkisviðskiptin í heild, en endurspeglar einnig meiri ráðdeild einstaklinga, fyrirtækja og hins opinbera í yfirstandandi góðæri en áður var.

Back

Fannst þér efnið á síðunni hjálplegt?
Afhverju ekki?
Hætta við

Ábending þín er notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Íslandsbanka. Vantar þig aðstoð sem krefst þess að við svörum þér má hafa samband við Þjónustuver Íslandsbanka.

Netspjall